24 sep Viðreisn er í vinnunni: landsþingsræða Þorgerðar Katrínar
Á landsþingi Viðreisnar flutti formaður flokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ávarp þar sem hún lagði áherslu á að flokkurinn hefði á undanförnum níu árum sannað sig sem ábyrgur málsvari frjálslyndis, jafnréttis og alþjóðasamstarfs.
„Viðreisn er í vinnunni og Viðreisn lætur verkin tala,“ sagði hún og minnti á stærsta kosningasigur flokksins í síðustu kosningum sem skilaði sex nýjum þingmönnum og setu í ríkisstjórn.
Þorgerður Katrín dró fram helstu mál sem flokkurinn hefur komið í gegn á skömmum tíma í ríkisstjórn – endurskoðun veiðigjalda, aðhald í ríkisfjármálum og eflingu löggæslu – og sagði að ráðherrar og þingmenn Viðreisnar hefðu öll sýnt að „stjórnmálin geta virkað fyrir fólkið í landinu en ekki sérhagsmuni.“
Í ræðu sinni fjallaði hún einnig um alþjóðamál, mikilvægi samstöðu innan NATO og Norðurlandasamstarfsins, og undirstrikaði kröfu flokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið:
„Við treystum þjóðinni. Ísland á heima í hjarta Evrópu.“
Að lokum beindi hún sjónum að framtíðinni:
„Viðreisn vill byggja áfram samfélag sem er opið og frjálslynt en á sama tíma öruggt og réttlátt. Við erum á hárréttum stað á hárréttum tíma – verkefnið er að færa Ísland áfram.“
Þú getur hlustað á ræðuna alla í myndbandinu hér fyrir neðan: