Áskoranir

Undanfarnar vikur hafa okkur borist ýmsar fregnir og ekki allar jákvæðar. Verksmiðja PCC á Bakka í Norðurþingi hefur átt við rekstrarörðugleika að etja, flugfélagið Play hætti starfsemi og nú síðast hefur bilun í verksmiðju Norðuráls á Grundartanga valdið óvissu um störf hundraða íbúa á Akranesi og nágrenni. Við þetta bætist svo óvissa á húsnæðislánamarkaði í kjölfar dóms Hæstaréttar í „vaxtamálinu“ svokallaða.

Í svona tíð er gjarnan talað um áhrifin á þjóðarbúið og afkomu ríkisins. Við megum alls ekki gleyma að bak við allar þessar fréttir er fólk sem nú er í óvissu um hver næstu skref þess verða. Þau verðum við sem samfélag að taka vel utan um. Hér á landi höfum við borið gæfu til að ná um það samfélagslegri sátt að halda uppi öflugum kerfum ríkis og sveitarfélaga sem grípa einstaklinga í þessari stöðu.

Nú liggur fyrir Alþingi á næstu vikum að afgreiða fjárlög fyrir árið 2026.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi ber að þakka fyrir þann árangur sem náðst hefur frá síðustu kosningum. Framlagt fjárlagafrumvarp gerir ráð fyrir að halli ríkissjóðs á árinu 2026 verði 15 milljarðar króna, en samkvæmt fjármálaáætlun var gert ráð fyrir að hann yrði á bilinu 26-39 milljarðar. Þá er það stefna ríkisstjórnarinnar að á árinu 2027 verði afgangur af rekstri ríkissjóðs og byrjað verði af fullum krafti að minnka skuldir ríkissjóðs. Jafnvægi í ríkisfjármálum er forsenda þess að binda enda á verðbólgu og ná stýrivöxtum í eðlilegt horf.

Þrátt fyrir metnaðarfull, en nauðsynleg, markmið um jafnvægi í ríkisfjármálum er það einbeittur vilji okkar í stjórnarmeirihlutanum að efla innviði hér á landi. Ekki hvað síst á þjóðvegunum okkar allra. Þeim áskorunum, sem við höfum tekist á við frá hruni fjármálakerfisins til dagsins í dag, hefur verið mætt með samdrætti í innviðauppbyggingu.

Forsenda þess að bæði heimili og atvinnulíf nái viðspyrnu og geti byrjað að eflast og ná meiri styrk er að jafnvægi náist í rekstri ríkisins og þannig skapast forsendur til fjármögnunar á eðlilegum kjörum. Sömuleiðis er það forsenda sóknar atvinnulífsins að innviðir samfélagsins styðji við verðmætasköpun.

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra sem erum kjörnir fulltrúar á Alþingi að vinnu við gerð fjárlaga 2026 verði sinnt af þeirri ábyrgð og alvarleika sem staðan kallar á. Óháð því hvar í flokki við stöndum. Leiðin að meiri verðmætasköpun og bættum kjörum heimila er nokkuð ljós en alls ekki að öllu leyti auðveld.