02 okt Málefni hælisleitenda
Nýverið mælti dómsmálaráðherra á Alþingi fyrir máli er varðar breytingar á lögum um útlendinga. Frumvarpið er nú lagt fram lítillega breytt frá síðasta þingi en meðferð þess lauk ekki fyrir þinglok. Í frumvarpinu eru í stórum dráttum þrjú nýmæli, þ.e.:
a) Heimilt verður að afturkalla alþjóðlega vernd: þegar einstaklingar hafa gerst sekir um alvarleg afbrot, eru metnir hættulegir öryggi ríkisins eða samfélaginu eða hafa gerst sekir um ítrekuð afbrot, b) felld er úr gildi svonefnd „18 mánaða regla“ en skv. núgildandi lögum heimilar sú regla að útlendingi, sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi, sé veitt dvalarleyfi hafi hann ekki fengið niðurstöðu í máli sínu innan 18 mánaða eftir að hann sótti um hina alþjóðlegu vernd og c) bætt við ákvæði um umborna dvöl, sem getur átt við þegar tekin hefur verið ákvörðun um að afturkalla alþjóðlega vernd, en ekki er hægt að flytja viðkomandi á öruggan stað. Rétt er að nefna sérstaklega í þessu samhengi að þegar aðstæður breytast, þá mun viðkomandi verða á brott vísað.
Breytingunum er fyrst og fremst ætlað að færa íslenskt regluverk hvað þessi mál varðar til samræmis við regluverk þjóða sem við berum okkur helst saman við, einkum annarra Norðurlandaþjóða. Reglur þær sem ég nefni hér að framan eru séríslenskar og hafa leitt til þeirrar óþægilegu stöðu að ósamræmi er milli löggjafar okkar og okkar næstu nágranna. Ég fagna þessu frumvarpi dómsmálaráðherra og hygg að það sé til mikilla bóta að hér á landi gildi ekki sérstakar reglur heldur séum við með sambærilegt regluverk fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og nágrannalönd okkar. Það er einnig mikilvægt að við búum svo um hnútana að þeir sem rétt eiga á að sækja hér um alþjóðlega vernd fái hratt úrlausn sinna mála og sé þá kunn sín staða sem allra fyrst. Með því að fella þessar sérreglur úr lögum um útlendinga léttist álag á Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Frumvarpið mun fá vandaða og hefðbundna þinglega meðferð í allsherjar- og menntamálanefnd og e.a. í þingsal.
Óraunhæfar hugmyndir
Í umræðu um málefni hælisleitenda heyrist stöku sinnum sú hugmynd að við hættum að taka við umsóknum frá einstaklingum, sem komnir eru hingað til lands, um alþjóðlega vernd í allt að fimm ár. Að mínu mati er þessi hugmynd óframkvæmanleg og slík aðgerð af hálfu íslenskra yfirvalda myndi vera á skjön við alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Mér sýnist sem þeir sem fyrir slíkri hugmynd tala séu að fella pólitískar keilur með því að þykjast hafa einfalda lausn við flóknu álitaefni. Hugmynd þessi fer líklega í bága við flóttamannsamning Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu. Væri vilji til þess að fara þessa leið þyrftum við sem þjóð að vera tilbúin til þess að segja okkur frá flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu. Auk þess þyrfti væntanlega að vera tilbúinn samningur við þriðja ríki þess efnis að taka við því fólki sem við myndum ekki taka við umsóknum frá en er hingað komið engu að síður og eftir atvikum frekari áætlun fyrir þá einstaklinga, t.d. mikinn fjárhagslegan hvata til að snúa eitthvað annað, sem væri þá ríki innan eða utan Evrópu eða heimaríki. Það er augljóst, sem ég vísaði til hér að framan, að þessi hugmynd er einföld lausn við flóknu álitaefni og algerlega óraunhæf.
Í umræðum á Alþingi, nú nýverið, hef ég reynt að fá nánari útlistanir á hvernig þessi hugmynd, um fimm ára stöðvun í móttöku hælisleitenda, skuli framkvæmd, en sannast sagna hefur fátt verið um svör. Raunar hefur einn kjörinn fulltrúi beinlínis sagt berum orðum að hann viti ekki hvernig slíkt skuli gert.
Það er lítill bragur yfir þessu öllu. Því miður læðist að manni sá grunur að ætlun þeirra sem þetta leggja til sé að þyrla upp ryki í umræðunni en stefna ekki að efnislegri niðurstöðu mála. Einvörðungu sé ætlunin að ná eyrum þeirra sem tortryggin eru í garð hælisleitenda. Umræða um málefni hælisleitenda er viðkvæm og skiptar skoðanir á meðal þjóðarinnar. Þess vegna er mikilvægt að við skipum málum þannig að reglur séu skýrar og eins líkar reglum Norðurlandanna sem kostur er.