Ofbeldislaust ævikvöld

Í kjördæmaviku fáum við tækifæri til að ferðast um kjördæmið og eiga dýrmæt samtöl við íbúa um það sem skiptir þá máli. Dagarnir eru fjölbreyttir, allt frá fundum með kjörnum fulltrúum sveitarfélaga yfir í dýrmæt samtöl í beitningaskúrum, í heita pottinum eða í sjoppunni.

Í heimsókn minni á Akranes í síðustu viku rambaði ég inn á fund sem Félag eldri borgara (FEBAN) hélt. Salurinn var fullur af fólki og umræðuefnið var einfalt en mikilvægt: Er gott að eldast á Akranesi? Viðburðurinn var liður í því að kynna verkefnið Gott að eldast, sem snýst um að virkja krafta eldra fólks og finna leiðir til að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu. Að tryggja samfellu, samvinnu og þjónustu við hæfi svo fólk geti áfram tekið virkan þátt í samfélaginu eins lengi og mögulegt er.

Ég fékk að lauma mér inn og hlusta. Og ég hlustaði af athygli. Fyrirlestrarnir voru fræðandi og heiðarlegir. Fjallað var um plássleysi, biðlista og þörf á langtímasýn í málefnum eldra fólks. En sá fyrirlestur sem sat hvað mest í mér kom frá fulltrúa Neyðarlínunnar (112). Hann fjallaði um ofbeldi í garð eldra fólks. Þar kom fram að eldra fólk er líklegra til að verða fyrir ofbeldi en yngra fólk. Yfirleitt sé það af hendi nákominna einstaklinga sem það treystir fyrir umönnun í daglegu lífi.

Eldra fólk er oft félagslega einangrað og óttast að missa tengsl og umhyggju ef það segir frá ofbeldinu. Þess vegna ríkir þögn um þessa birtingarmynd ofbeldis. Þögnin er besti vinur gerandans. Þess vegna er svo mikilvægt að segja frá. Fyrirlesturinn var því sláandi en nauðsynlegur. Áhrifaríkur og opnaði augu.

112 hefur staðið fyrir vitundarvakningu um ofbeldi gegn eldra fólki þar sem sjónum er beint að ólíkum tegundum ofbeldis. Vanræksla og fjárhagsleg misnotkun er líka ofbeldi. Það er meðal annars vegna þessa framtaks sem umræðan um ofbeldi gegn eldra fólki er að koma meira upp á yfirborðið.

Fyrirlesturinn minnti mig á að við berum öll ábyrgð. Við verðum að opna augu okkar fyrir öllum birtingarmyndum ofbeldis í samfélaginu okkar. Við eigum að hlusta, spyrja og bregðast við. Vera óhrædd við að hjálpa þeim sem verða fyrir ofbeldi.

Það segir margt um samfélagið okkar hvernig við komum fram við þau sem á undan okkur komu og byggðu það upp. Það er því sameiginlegt verkefni okkar allra að tryggja að það sé ekki aðeins gott að eldast á Íslandi heldur líka öruggt að eldast.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. október 2025