13 okt Takk Framsókn
Það þykir almennt vera góður siður að þakka fólki fyrir það sem þakka ber. Í síðasta pistli mínum á þessum vettvangi bar ég Miðflokknum kærar þakkir fyrir að koma til liðs við málstað okkar Viðreisnarfólks um hversu óhentugur gjaldmiðillinn okkar er. Það þykir líka vera sjálfsögð kurteisi að gera ekki upp á milli fólks. Það er því sönn ánægja að þakka Framsókn fyrir hennar framlag til þess að vekja athygli á hversu umfangsmikill vandi það er fyrir jafn lítið hagkerfi og okkar er, að eiga og reka sinn eigin gjaldmiðil.
Ef öll plön hefðu haldið værum við að undirbúa og ganga til kosninga um þetta leiti. Svo fór þó ekki og gengið var til kosninga fyrir tæpu ári. Þetta var sérlega óheppilegt fyrir Framsóknarflokkinn, sem náði illa vopnum sínum og gat ekki beitt sínu helsta vopni í kosningabaráttunni, sem er að lofa fólki ókeypis peningum.
Undirbúningurinn var þó hafinn og afraksturinn kom í ljós í vikunni þegar formaður Framsóknarflokksins mælti fyrir þingsályktunartillögu að leið að óverðtryggðum fasteignalánum á föstum vöxtum til langs tíma. Þetta er þekkt framsóknarstef, við þekkjum 90% lánin sem enduðu með tugmilljarða kostnaði fyrir landsmenn. Sömuleiðis leiðréttinguna sem millifærði tugmilljarða frá ríkinu til sumra þeirra sem urðu fyrir hækkuðum húsnæðislánum sínum í hruninu.
Í stuttu máli er efnisinntak nýjustu tillögu Framsóknar að ríkissjóður og lífeyrissjóðir taki á sig vaxtahækkanir framtíðar í stað lánagreiðenda. Þannig myndi ríkissjóður þurfa að standa undir framsóknargöldrunum með lántökum, auknum álögum eða minni þjónustu við almenning.
Mikilvægast í þessu er, að nú hafa bæði Framsóknarflokkur og Miðflokkur viðurkennt án nokkurra málalenginga að óverðtryggð fasteignalán á kjörum sem venjulegt fólk getur staðið undir munu ekki verða möguleg hér á landi nema til komi einhver happdrættisvinningur, eða þá töfrar.
Vitaskuld er þó til önnur leið. Hún er sú að ganga til samninga við Evrópusambandið. Treysta þjóðinni til að leggja mat á þessa samninga og ef henni líst vel á – ganga í Evrópusambandið og taka í framhaldinu upp evru sem gjaldmiðil. Nú þegar meirihluti stjórnarandstöðunnar hefur viðurkennt berum orðum að gjaldmiðillinn okkar er meiriháttar hindrun fyrir stöðugum efnahag landsmanna, vil ég árétta að þau eru velkomin til liðs við okkur í Viðreisn í vegferðinni að bættari og stöðugri lífskjörum hér á landi. Komi þau fagnandi.
Takk Framsókn.