Uppstilling í Garðabæ

Viðreisn í Garðabæ ákvað einróma á félagsfundi sínum á þriðjudag, að uppstilling verði notuð til að raða á lista í komandi sveitarstjórnarkosningum, þann 16. maí 2026. Þetta verður í annað sinn sem Viðreisn býður fram lista til sveitarstjórnarkosninga í Garðabæ.

Fundurinn var vel sóttur af félagsmönnum og gaman að sjá ný andlit bætast í hópinn. „Það er augljóst að í Garðabæ er kraftmikið félagsfólk með fjölbreyttan bakgrunn og sú breidd styrkir allt starf,“ Segir Tinna Borg Arnfinnsdóttir, formaður Viðreisnar í Garðabæ. „Það eru mikil tækifæri fyrir Viðreisn hér í Garðabæ, með því að leggja áherslu á vönduð vinnubrögð, að hagsmunir bæjarbúa komi alltaf framar sérhagsmunum og styrkja stöðu fjölskyldufólks í okkar góða bæjarfélagi. Það verður því spennandi verkefni fyrir uppstillinganefnd að raða saman öflugum lista fyrir vorið.“

Stjórn óskar nú eftir framboðum og tilnefningum í uppstillinganefnd á netfangið gardabaer@vidreisn.is. Boðað verður til félagsfundar þar sem kosið verður í nefndina. Framboðsfrestur er til 31. október 2025.

Viðreisn í Garðabæ minnir á reglubundinn morgunbolla næstkomandi föstudag kl. 8.00 á Te og kaffi á Garðatogi. Það er einstaklega gott að byrja daginn á rjúkandi heitu kaffi og spjalli við gott fólk. Allt áhugasamt fólk um starf Viðreisnar í Garðabæ er velkomið.