20 okt Verum meira eins og amma
Ég las hvatningarorð Bubba Morthens hér í blaðinu um helgina. Ég meðtók skilaboðin og tók þau til mín. Ákall Bubba er til okkar allra. Að standa vörð um tungumálið okkar og gæta þess að það fjari ekki út.
Ég á ömmu minni á Flateyri margt að þakka. Hún hefur verið mér stoð og stytta en hún hefur einnig verið óþreytandi í því að skamma mig og leiðrétta þegar ég hef dirfst að nota tökuorð í stað íslenskra í daglegu tali. Þegar ég var unglingur fannst mér þetta alveg óþolandi. Fannst amma heldur ráðrík og eiginlega bara svolítið hallærisleg. Af hverju mátti ég ekki bara nota þessi orð? Það er ekki eins og ég væri óskiljanleg? Þegar ég fór svo að fara í fjölmiðlaviðtöl upp úr tvítugu fékk ég iðulega símtöl frá ömmu með hreinskilinni endurgjöf. Ekki endilega á inntak viðtalsins heldur á málfar mitt. Hún benti mér á það ef ég slysaðist til að sletta og gagnrýndi notkun á vitlausum hugtökum sem ég notaði máli mínu til stuðnings.
Dropinn holar steininn. Endurgjöf ömmu gerði það að verkum að ég varð kappsöm að sanna að ég gæti komist í gegnum heilt viðtal án tökuorða og slangurs. Enda mikil keppniskona. Amma var (og er) óþreytandi að miðla fróðleik, fara með vísur, gátur og ættjarðarlög, segja þjóðsögur og kveðast á. Rekja ættir okkar og hvetja til bóklesturs. Íslenskan á sannarlega í vök að verjast. Ekki vegna þess að hún sé að deyja út, heldur vegna þess að hún er að dofna og breytast. Málumhverfi barnanna okkar er ólíkt því sem það var fyrir fáeinum árum. Það er varhugaverð þróun. Því tungumálið okkar lifir ekki aðeins með því að eiga sterkar heimildir um það. Það lifir á okkar tungu.
Þess vegna skiptir máli að stjórnvöld fjárfesti í íslensku barnaefni, íslenskum barnabókum og í gervigreind sem talar íslensku. Að foreldrar séu meðvitaðir um það efni sem börnin neyta og hugi að málumhverfi þeirra.
Það er oft talað um mikilvægi þess að vernda íslenskuna með lagasetningu. En ég held að langmesta verndin sé afar einföld. Með því að setja sem mesta athygli á lestur barna, lestur ungmenna og lestur okkar allra. Með lestri opnast heimur orðanna.
Ábyrgðin byrjar og endar heima hjá okkur. Það er undir okkur komið að íslenskan verði lifandi mál framtíðar, ekki minnisvarði fortíðar. Leiðréttum og æfum okkur. Lesum og njótum.
En fyrst og fremst: Verum meira eins og amma.