10 nóv Afneitunin
Það hefur mikið verið rætt um mál ríkislögreglustjóra að undanförnu og meðferð hennar á opinberum fjármunum. Mér sýnist að flestir séu þeirrar skoðunar að þarna hafi ekki verið farið vel með fjármuni enda liggur fyrir viðurkenning á því af hálfu embættisins. Vonandi finnst á þessu farsæll endir og vonandi verður hægt að girða fyrir að svona mál komi yfirhöfuð upp.
Það er áhugavert að fylgjast með umræðunni sem óhjákvæmilega sprettur upp. Allir hafa á þessu skoðun enda eru upphæðirnar mun nær raunveruleika venjulegs fólks en þegar talað er um ríkisfjármál í stærra samhengi. Allir skilja húsgagnakaup í Jysk, píluspjöld og greiðslur sem nema 36 þúsund krónum á tímann. Það er hins vegar erfiðara að fóta sig í tali um milljarða í samhengi við heildarútgjöld ríkisins sem nema um 1.700 milljörðum í ár. Þetta eru ekki tölur sem heimili eru alla jafna að vinna með.
Vissulega er ekki gott þegar einstaka stofnanir eða embætti verja tugum milljóna á ári í aðkeypta ráðgjöf án þess að ramminn um það sé skýr. Enginn gerir lítið úr því. En svimandi háar vaxtagreiðslur íslenska ríkisins eru þó talsvert verri nýting á fjármunum okkar allra. Við greiðum á annað hundrað milljarða ár eftir ár í vaxtagjöld án þess að mikið sé um það rætt meðal almennings. Samt er það svo að það væri hægt að fjármagna stór og mikil velferðarverkefni í heilbrigðisþjónustu, samgöngum og menntun með því að lækka vaxtagreiðslurnar um fimmtung eða fjórðung. Á sama tíma og heimilin svitna yfir vöxtunum af húsnæðisláninu fara milljarðatugir í vaxtahít ríkisins eftir óstjórn síðustu ára. Hagstjórnarmistökin eru dýr.
Guðrún Hafsteinsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir sátu báðar í síðustu ríkisstjórn. Þær áttu báðar stórleik um helgina í fölskum söguskýringum. Guðrún sakaði ríkisstjórnina um að hafa stöðvað vaxtalækkunarferlið án þess að nefna einu orði að hennar flokkur sat við ríkisstjórnarborðið þegar vextir hækkuðu upp úr öllu valdi. Með skelfilegum afleiðingum. Lilja reyndi enn eina ferðina að sannfæra fólk um að hægt væri að komast úr séríslensku hávöxtunum með einhverjum framsóknarlegum loftfimleikum sem oft hafa verið reyndir án nokkurs árangurs. Við þurfum „skynsamlega efnahagsstjórn“ sagði hún og einnig að búa þyrfti þannig um hnútana að ungt fólki „vildi fjárfesta í íbúð hér“. Ég fullyrði að ungt fólk vill fjárfesta í húsnæði, en það getur það ofur einfaldlega ekki vegna þess að flokkar Guðrúnar og Lilju eru í fullkominni afneitun þegar kemur að rót vandans. Þessi afneitun er ástæða þess að gáfum prýdda mannvalinu við ríkisstjórnarborð þessara flokka í gegnum tíðina hefur ekki tekist að ná verðbólgu og vöxtum niður til lengri tíma.