17 nóv Lífið er vaxtalotterí
Hvað segja tölurnar 8,68, 9,10, 8,81, 3,20, 4,97, 3,05 og 2,90 okkur? Nei, þetta eru ekki lottótölur með aukastöfum. Fyrstu þrjár eru vaxtakjör sem Íslendingum býðst hjá viðskiptabönkunum. Næstu fjórar eru vaxtakjör sem standa Dönum, Norðmönnum, Svíum og Finnum til boða.
Þessar tölur hafa í raun og veru mikið að segja um daglegt líf okkar og getu til að greiða niður skuldir, byggja upp varasjóð og standa á traustum fótum. Raunveruleikinn er þessi, vextir á Íslandi eru mun hærri en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Löndum sem við erum í beinni samkeppni við um lífsgæði, fólk og tækifæri.
Vilhjálmur Birgisson birti á dögunum skýra mynd af stöðunni. Hann benti á að fyrir 55 milljóna króna óverðtryggt húsnæðislán greiðir íslenskt heimili tæpar 4,9 milljónir í ársvexti en finnskt heimili um 1,6 milljónir króna. Þar munar 3,28 milljónum á ári eða 273 þúsundum á mánuði. Peningar sem gætu farið í að byggja undir stoðir heimilisins en renna í staðinn beint til bankanna.
Við hljótum að spyrja okkur, hvers vegna blasir við þessi mikill munur? Og hvers vegna sættum við okkur við þennan mun? Það hlýtur að vera kappsmál okkar allra að finna rætur vandans.
Er það virkilega svo að þetta sé allt afleiðing vondrar hagstjórnar síðustu áratuga? Eða er hugsanlegt að ein rót vandans sé sú að við höldum úti einum minnsta og sveiflukenndasta gjaldmiðli heims?
Við vitum að íslenska krónan kostar samfélagið okkar hundruð milljarða á ári. Íslenska krónan hefur misst meira en 98% af verðgildi sínu frá lýðveldisstofnun. Þrátt fyrir að nánast allt hafi verið reynt til að halda henni stöðugri er hún ýmist of sterk, of veik, of sveiflukennd eða of óáreiðanleg. Þessi óstöðugleiki smitar út í allt. Í húsnæðismarkaðinn, í rekstrarumhverfi fyrirtækja, í verðbólgu og í vaxtastig sem étur upp ráðstöfunartekjur heimilanna.
Ég þekki fjölda fólks sem hefur kosið með fótunum og keypt íbúðir erlendis. Þar fær það lánayfirlit sem standast. Við þekkjum ekki slíkan munað á Íslandi. Hér byggist framtíðin meira á heppni. Hvort maður fæðist réttum megin við hagsveifluna. Hvort maður náði að festa vextina á réttum tímapunkti.
Það á ekki að vera lotterí að koma sér þaki yfir höfuðið. Við verðum að geta rætt rót vandans heiðarlega. Ekki með hræðsluáróðri eða í pólitískum skotgröfum, heldur með staðreyndum og sameiginlegu markmiði, að skapa hagkerfi sem þjónar fólkinu, ekki öfugt.
Ef ekki þá halda íslensk heimili áfram að borga fyrir meintan stöðugleika sem aldrei kemur. Látum það ekki gerast.