Viðreisn býður í fyrsta sinn fram í Reykjanesbæ

Það eru spennandi tímar fram undan hjá Viðreisn á Suðurnesjum. Félagsfundur ákvað í gærkvöldi að bjóða fram undir merkjum Viðreisnar í komandi sveitarstjórnarkosningum í Reykjanesbæ. Um tímamót er að ræða því þetta er í fyrsta sinn sem Viðreisn býður fram í Reykjanesbæ.

Félagsfundurinn var vel sóttur og sköpuðust góðar umræður. Félagsmenn voru sammála um að tími Viðreisnar sé núna og líta á verkefnið fram undan björtum augum.

Á fundinum var jafnframt tekin sú ákvörðun að stilla upp á lista Viðreisnar í Reykjanesbæ og var því samhliða kosin uppstillingarnefnd. Í henni sitja Bjarklind Sigurðardóttir, Haukur Hilmarsson, Ingi Eggert Ásbjarnarson, Jón Garðar Snædal Jónsson og Þórey Svanfríður Þórisdóttir. Stefnt er að því að framboðslistinn verði tilbúinn í lok janúar. Áhugasamir geta haft samband við Viðreisn á Suðurnesjum með því að senda póst á sudurnes@vidreisn.is.

„Ég fer inn í þetta verkefni fullur tilhlökkunar og ég veit að við eigum svo sannarlega erindi“, segir Arnar Páll Guðmundsson, formaður Viðreisnar á Suðurnesjum. „Síðustu mánuði höfum við verið að byggja upp öfluga grasrót og erum tilbúin og staðráðin í að mynda öflugt, ábyrgt en umfram allt fjörugt framboð í Reykjanesbæ. Með skýra framtíðarsýn, öflugu baklandi og jákvæðu hugarfari er Viðreisn tilbúin að stíga næstu skref og leggja sitt af mörkum til framfara í Reykjanesbæ“.