Bið, endalaus bið

Biðin eftir jólunum getur reynst okkur mörgum erfið, ekki síst börnunum okkar sem spyrja daglega hve langt sé í þau. Þessi pistill fjallar samt ekki um biðina eftir jólunum, heldur um mun afdrifaríkari og erfiðari bið sem börn og foreldrar á Íslandi standa frammi fyrir í okkar annars góða samfélagi. Bið eftir þjónustu og úrræðum vegna sérþarfa eða greininga. Það er því miður raunin að börn eru látin bíða á biðlistum eftir nauðsynlegri þjónustu alltof lengi. Sum mánuðum saman, önnur árum. Þar bíða þau eftir þjónustu sem þau eiga lögbundinn rétt á.

Þetta er ekki ný umræða. Hún hefur staðið yfir um árabil. En einhverra hluta vegna hefur ekki tekist nægilega vel að finna lausnir og leiðir til að mæta vandanum. Nú hafa foreldrar stigið fram og stofnað átakið bidlisti.is, þar sem vakin er athygli á stöðu mála. Réttilega benda þau á að nú þurfi pólitískan vilja til að snúa þróuninni við og kalla eftir ábyrgð og raunverulegum aðgerðum í því skyni.

Við vitum að þúsundir barna bíða eftir þjónustu sem veitt er til þess að styðja við þroska þeirra, félagsfærni, þátttöku í samfélaginu og tækifæri til að vaxa og dafna á eigin forsendum. En þegar þjónustan er ekki í boði, eða kemur ekki nógu snemma, getur það haft alvarlegar afleiðingar. Þá getur það gerst að glugginn lokist. Eitthvað sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir eða þjálfa upp verður fyrir vikið að varanlegu vandamáli. Vegna þess að ekki var gripið inn í. Það er ofboðslega dýrkeypt, og að mínu mati óboðleg og óskynsamleg forgangsröðun.

Við eigum ekki að skilja börnin okkar eftir í biðstöðu. Snemmtæk íhlutun og forvarnir eru dýrmætustu og mikilvægustu fjárfestingar samfélagsins. Slík fjárfesting sparar ríki og sveitarfélögum gífurlegar upphæðir síðar. Aðgerðaleysi er það sem kostar okkur mest.

Með því að fjárfesta í styttingu biðlista getum við gripið börnin okkar fyrr og þannig dregið úr líkum á brottfalli úr námi eða atvinnu síðar meir, geðrænum vandamálum, fíknivanda, vanlíðan, félagslegri útskúfun eða jafnvel örorku á fullorðinsárum.

Þess vegna er skynsamlegt og nauðsynlegt að leggja nú við hlustir og svara ákalli foreldranna með raunverulegum aðgerðum og fjárfestingu í framtíð barnanna okkar. Um það ætti í raun ekki að vera neinn ágreiningur.

Bið barna eftir lögbundinni þjónustu er ekki eðlilegt ástand. Við þurfum ekki enn eitt tímabundið átakið, heldur varanlega breytingu á forgangsröðun fjármuna. Ábyrgðin liggur hjá okkur öllum og hún kallar á aðgerðir, ekki fleiri afsakanir.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. desember 2025