18 des Hagræðing skilar sér og verðbólga minnkar
Á þessu ári höfum við lagt megináherslu á að ná tökum á rekstri ríkisins. Stoppa hallann og búa til grundvöll fyrir lægri verðbólgu og lægri vexti. Halli er ekkert annað en velferð tekin að láni þar sem reikningurinn er sendur komandi kynslóðum.
Í dag mun Alþingi greiða atkvæði um fyrsta fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar. Frumvarp þar sem markmiðið um jafnvægi milli tekna og útgjalda ríkisins er loksins í sjónmáli. Á liðnu ári höfum við þegar lækkað skuldir ríkisins um 7,5% af vergri landsframleiðslu og með frumvarpinu munum við lækka þær enn frekar. Við ráðumst einnig á annars konar skuldir sem fyrri ríkisstjórnir hafa skilið eftir, meðal annars í innviðum, heilbrigðisþjónustu og þjónustu við börn.
Á þeirri vegferð að koma jafnvægi á rekstur ríkisins skiptir meginmáli stöðugleikareglan sem við innleiddum á árinu. Með henni tryggjum við að útgjöld verði ekki aukin umfram svigrúmið sem verðmætasköpun í samfélaginu býr til.
4.000 hagræðingartillögur
Við tókum á móti nærri fjögur þúsund tillögum frá almenningi um hagræðingu í ríkisrekstrinum. Þær hafa, ásamt öðrum aðgerðum til hagræðingar og umbóta, þegar skilað lækkun á árlegum útgjöldum um rúmlega 15 milljarða króna. Við lok tímabils fjármálaáætlunar munu þær hafa sparað ríkissjóði 107 milljarða króna.
Með þessum aðgerðum ásamt aukinni skilvirkni og jafnvægi í ríkisrekstrinum búum við í haginn fyrir hjöðnun verðbólgu og lækkun vaxta. Það er stærsta kjarabótin sem við getum stuðlað að fyrir heimili og fyrirtæki landsins. Verðbólgan er þegar orðin sú lægsta sem mælst hefur í 5 ár.
Íslenska hagkerfið stendur traustum fótum. Skuldir heimila og fyrirtækja eru í lágmarki og efnahagur beggja er sterkur. Með fjárlögum næsta árs styrkjum við einnig rekstrargrunn ríkisins, minnkum hallann og færumst nær langþráðum stöðugleika. Það er forsenda þess að við getum gert enn betur í að veita þá þjónustu sem skiptir fólkið í landinu mestu máli.