22 des Sterkari fjölmiðlar
Ríkisstjórnin hefur nú kynnt mjög áhugaverðar aðgerðir til að jafna stöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Logi Einarsson, sem fer með málefni fjölmiðla, kynnti þær fyrir helgi og að mínu mati eru þessar hugmyndir vel til þess fallnar að styrkja stöðu einkarekinna miðla á sama tíma og RÚV mun áfram gegna mikilvægu hlutverki. Sjálfur hef ég í ræðu og riti, og með tillögum á þingi, talað fyrir því að fjölmiðlamarkaðurinn sé skoðaður heildstætt, því þetta er einn samhangandi markaður. Sérstakur stuðningur við einkarekna fjölmiðla, skattlagning erlendra miðla og staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði hefur áhrif á samkeppnisumhverfi fjölmiðla, þótt með ólíkum hætti sé.
Ég staldra sérstaklega við góða hugmynd um að 12 prósent af auglýsingatekjum RÚV renni til einkarekinna miðla. Þetta er leið til þess að setja ákveðna takmörkun á RÚV á auglýsingamarkaði, án þess að eiga á hættu að auglýsingaféð renni beint úr landi. Þvert á móti er tryggt að einkamiðlar njóti góðs af. Sum önnur lönd hafa reynslu af því að minnkandi tekjur ríkismiðils af auglýsingum þýðir ekki sjálfkrafa að þær tekjur renni til einkamiðla. Þvert á móti hafa tekjurnar runnið til samfélagsmiðla og tæknirisa. Þessi leið vinnur gegn því. Heilt yfir eiga þessar aðgerðir allar að auka það fjármagn sem rennur til einkarekinna miðla og tryggja sérstaklega að stærri og landsdekkandi miðlar, sem sinna fréttaöflun og gegna miklu samfélagslegu hlutverki, fái sérstaka umbun fyrir það. Þeir þurfa þá að uppfylla ákveðin skilyrði, meðal annars um fréttaöflun, fjölda starfsmanna á ritstjórn, auk krafna um að sérstaklega sé fjallað um kosningar á landsvísu.
Ég er líka hrifin af þeirri hugsun að ríkisútvarpið verði í ákveðnu stuðningshlutverki gagnvart öðrum miðlum og að slíkt verði tryggt í þjónustusamningi. Það styrkir fjölmiðlamarkaðinn í heild. Auðvitað skiptir útfærslan þar miklu máli en þetta rímar vel við þá skoðun mína að einkamiðlar styrkjast ekki sjálfkrafa við að RÚV veikist. Þvert á móti getur það styrkt markaðinn í heild að ákveðin samlegð og þjónusta sé samnýtt í gegnum skýra samninga. Lykilatriði er svo að fylgjast vel með hvernig þessar breytingar reynast og sníða af vankanta eftir þörfum.
Allir eru sammála um að fjölmiðlar gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Í raun eru sterkir og frjálsir fjölmiðlar grunnstoð lýðræðisins. Aðhaldshlutverk þeirra er víðtækt og snýst ekki bara um að halda stjórnvöldum hverju sinni við efnið heldur líka stjórnarandstöðu, viðskiptalífinu, menningunni og svo mætti áfram telja. Boðaðar aðgerðir ættu að styðja við þetta hlutverk.