Stórar ákvarðanir

Ég tók skyndiákvörðun og henti mér til Kaupmannahafnar í sólarhring í því skyni að horfa á Íslendinga bursta Svía. Stórkostleg stund. Á leiðinni til Malmö fór ég í fyrsta sinn yfir Eyrarsundsbrúna. Í miðju stresskasti vegna yfirvofandi einvígis fór ég að hugsa um þetta stórmerkilega mannvirki og það pólitíska hugrekki sem þurfti til að ráðast í þessa framkvæmd.

Að tengja saman Danmörku og Svíþjóð með brú er ansi djörf ákvörðun. Hún kostaði sannarlega mörg hundruð milljarða. En hefur margborgað sig.

Með hugann við brúarsmíðina fór ég að hugsa enn dýpra um djarfar og stórar ákvarðanir. Um þá frumkvöðla sem á undan okkur komu sem þorðu að hugsa stórt og taka ákvarðanir sem varða komandi kynslóðir. Ákvarðanir sem breyta leiknum.

Það hafa sannarlega verið teknar stórar ákvarðanir í sögu þjóðarinnar. Ég gæti nefnt inngöngu okkar í NATO og í EES-samstarfið. Ég gæti nefnt þá ákvörðun að hætta að kynda húsin okkar með jarðefnaeldsneyti og skipta yfir í jarðvarma. Og svo auðvitað mörg önnur dæmi. Það voru stjórnmálamenn fortíðarinnar sem þorðu þá að stíga fram og taka stórar og djarfar ákvarðanir. Ákvarðanir sem á þeim tíma klufu þjóðina, en þjóðin er þakklát fyrir í dag.

Síðastliðin ár hefur því miður verið sandur í tannhjólunum. Eins og það hafi ríkt feimni við að taka stórar, djarfar og stundum óvinsælar ákvarðanir. Ég nenni ekki að festast í fortíðartrega. Um það sem hefði getað orðið. Því nú reynir á okkur að horfa til framtíðar. Það er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin er að gera. Breyta kerfum. Höggva á hnúta. Klára leiðinlegar kerfisbreytingar. Horfa á stóru myndina. Taka stórar og djarfar ákvarðanir. Jafnvel þótt það sé óvinsælt.

Ákvörðun um að rjúfa kyrrstöðuna í samgöngu- og orkumálum, ákvörðun um að stofna innviðafélag, ákvörðun um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna við ESB. Stórar og djarfar ákvarðanir.

Næstu tíu árin vona ég að okkur auðnist að taka réttar ákvarðanir. Að rjúfa kyrrstöðu og þoka samfélaginu áfram, tryggja áframhaldandi verðmætasköpun, stöðugleika og fjölga tækifærum um land allt. Það styrkir byggðafestu og eykur lífsgæði allra landsmanna.

Eyrarsundsbrúin varð ekki til vegna þess að allir voru sammála. Hún varð til vegna þess að það varð til pólitísk forysta um að taka stóra ákvörðun. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir í dag er einföld: Þorum við það líka?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. janúar 2026