Áföll krefjast eftirfylgni

Í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar vegna snjóflóðsins í Súðavík hefur skiljanlega kviknað umræða um hvort nauðsynlegt sé að rannsaka aðra atburði með sambærilegum hætti. Við vitum að við Íslendingar erum sterkir í miðju almannavarnarástandi. En það verður hins vegar að viðurkennast að við erum ekki sérlega góð í eftirfylgninni og að hlúa að fólkinu okkar eftir að áfall á sér stað.

Á Íslandi er það hluti af tilveru okkar að upplifa jarðhræringar, eldgos, skriðuföll og snjóflóð. Við það hefur svo bæst eitt stykki heimsfaraldur sem reyndi verulega á þolmörk þjóðarinnar.

Það munu í framtíðinni koma upp aðstæður þar sem almannavarnarástand ríkir og manntjón getur orðið. Þess vegna skiptir máli að til séu skýrir verkferlar um það hvernig unnið er úr áföllunum í kjölfar atburðar. Hvernig við lærum af þeim og gerum betur næst. Tilfinningin sem alltof oft situr eftir í þessum samfélögum er sú að kastljósinu sé beint að þeim á meðan hættuástandið ríkir en um leið og það líður hjá fer kastljósið annað. Og fólkið sem situr eftir gleymist.

Nú liggur fyrir á Alþingi frumvarp dómsmálaráðherra um ný heildarlög um almannavarnir. Heimurinn hefur breyst, við búum við loftslagsbreytingar sem ýta undir náttúruvá og fjölþátta ógnir sem hefðu talist fjarstæðukenndar fyrir fáeinum árum. Við erum háð raforku og tengingu við umheiminn. Allt eru þetta kerfi sem geta fallið hratt ef þau eru ekki varin. Því er sterk löggjöf sem undirstrikar ógnir nútímans brýnt skref.

Ég las nýverið færslu frá Jóni Svanberg Hjartarsyni framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar. Hann bendir þar á afbragðsgóða leið til að tryggja rannsóknarrýni í kjölfar mannskaða eða meiriháttar tjóns af völdum náttúruhamfara. Hann leggur til að í frumvarpinu umrædda komi nýtt ákvæði um rannsóknarnefnd sem virkist sjálfkrafa ef mannskaði hlýst af náttúruhamförum eða eignatjón verður stórfellt. Líkt og rannsóknarnefnd samgönguslysa sem við höfum góða reynslu af.

Ég styð tillögu Jóns Svanbergs heilshugar og mun beita mér fyrir því að fylgja henni eftir á Alþingi með breytingartillögu þar um. Það má ekki vera fálmkennt hvaða atvik eru rýnd og rannsökuð. Það grefur undan trausti og býr til sár í samfélaginu okkar sem eru óþörf.

Við verðum að hverfa frá þeirri braut að setja fólk í sárum í þá stöðu að þurfa að berjast árum saman fyrir því að fá fram hlutlausa rannsókn í kjölfar hörmunga. Langbesta leiðin er að lögfesta rannsókn sem eðlilegan feril almannavarna, að rýna aðdraganda, viðbragðið og eftirfylgnina. Það er að mínu mati rétta leiðin áfram.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. janúar 2026