31 jan Ákvarðanir fyrir framtíðarkynslóðir
Börnin sem leiðarljós
Þegar stórar ákvarðanir eru teknar um framtíð Íslands vel ég að horfa ekki aðeins á tölur, slagorð eða skammtímapólitík. Ég horfi á börnin mín. Ég á þrjú börn, þrjú stjúpbörn og tvö barnabörn – alls átta ung líf sem munu erfa þær ákvarðanir sem við tökum í dag. Fyrir þeirra hönd vil ég vanda mig.
Um hvað snýst þjóðaratkvæðagreiðslan?
Þjóðaratkvæðagreiðslan um aðildarviðræður við Evrópusambandið snýst ekki um að ganga í ESB á morgun. Hún snýst um að skoða málið af yfirvegun, meta kosti og galla og taka upplýsta ákvörðun um framtíð Íslands. Þetta er ákvörðun sem ég mun taka, ef ég fæ kost á því, með það í huga hvað er börnum mínum og barnabörnum fyrir bestu.
Framsýni í sögu Íslands
Saga Íslands sýnir að framsýni skiptir máli. Harðar deilur einkenndu samfélagið þegar ákvörðun var tekin um inngöngu Íslands í NATÓ árið 1949. Sú ákvörðun var tekin í þágu öryggis framtíðarkynslóða og í dag eru flest sammála um að þar hafi verið stigið skynsamlegt skref. Hart var einnig deilt um EES-samninginn á sínum tíma, en að lokum var hann samþykktur á Alþingi. Þegar sú ákvörðun var tekin var horft til atvinnu, menntunar og tækifæra fyrir ungt fólk. Þessar ákvarðanir voru ekki teknar af ótta eða annarlegum hvötum, heldur með ábyrgð og framtíðarsýn að leiðarljósi.
Óvissa og væntingar ungu kynslóðarinnar
Í dag stendur unga kynslóðin frammi fyrir óvissu. Hún vill stöðugleika, raunhæf tækifæri til náms og starfa og sterkt efnahagsumhverfi. Hún vill hafa raunveruleg áhrif á ákvarðanir sem snerta líf hennar og framtíð. Aðildarviðræður við Evrópusambandið geta varpað ljósi á hvort – og með hvaða hætti – slíkt samstarf geti styrkt stöðu Íslands til lengri tíma. Við skuldum börnum okkar og barnabörnum að ræða þetta mál af skynsemi og yfirvegun. Ekki með hræðsluáróðri, heldur á grundvelli staðreynda. Ekki með fyrirfram gefnum niðurstöðum, heldur með opnum huga og heiðarlegu samtali.
● Þess vegna segi ég já við aðildarviðræður viðEvrópusambandið. Já við samtali. Já við framtíðarsýn. Já – vegna barnanna minna og barnabarnanna sem eiga framtíðina.