Allt kann sá er bíða kann

Þorsteinn Pálsson

Í umræðum síðustu daga um viðbrögð Íslands við umskiptum á heimsmyndinni hafa ýmsir vitnað í heiti á ævisögu Sveins R. Eyjólfssonar útgefanda frá 2017: Allt kann sá er bíða kann.

Sú saga tekur mörgum minningabókum fram af því að hún endurspeglar vel lífssýn og hyggindi athafnaskálds. Hún rekur feril þess sem kunni að bíða en beið þó aldrei af sér tækifæri.

Lags skal bíða þá lent er í brimi voru líka einkunnarorð gömlu árabáta formannanna. Hitt var hyggjuleysi að bíða lagið af sér. Slíkur formaður stefndi áhöfn og skipi í meiri hættu.

Enn er það svo að skömm stund, ein ögurstund, getur skilið á milli hygginda og hyggjuleysis.

Þrjár spurningar

Fyrst þurfum við að velta fyrir okkur hvort nauðsyn beri til að breyta utanríkispólitíkinni í einhverjum grundvallar atriðum.

Í annan stað ættum við að ljá því alvarlega hugsun hvort aðgerðaleysi geti komið Íslandi í stöðu, sem við kjósum ekki sjálf að lenda í.

Loks er rétt að meta hvort nóg sé að tryggja Ísland betur innan þess tvíþætta alþjóðlega samstarfsramma, sem er meginstoð utanríkisstefnunnar.

Umskiptin

Engin rök benda til þess að breyta þurfi grundvelli utanríkisstefnunnar. Við höfum tryggt öryggi og fullveldi landsins og frjáls viðskipti með aðild að NATO og að hluta til að ESB.

Við getum aftur á móti ekki lokað augunum fyrir því að öryggistrygging NATO er nú óvissu undirorpin.

Við getum heldur ekki horft fram hjá því að öflugasta NATO ríkið hefur ógnað fullveldi tveggja grannríkja.

Við megum heldur ekki láta sem við sjáum ekki þá rosalegu óvissu, sem fylgir alheims tollastríði, þar sem við höfum ekkert skjól í alþjóðlegu samstarfi eins og flestar bandalagsþjóðirnar.

Að þessu virtu sýnist vera nægjanlegt að tryggja betur fullveldi landsins og efnahagslega stöðu með því að stíga skrefið frá hluta aðild að Evrópusambandinu til fullrar aðildar og halda jafnhliða áfram í NATO. Allt innan ramma núverandi utanríkisstefnu.

Bandalagsþjóðirnar bregðast við

Öll bandalagsríki okkar í Evrópusambandinu og NATO hafa þegar ákveðið að styrkja og útvíkka efnahagslega samstarfið og öryggis þáttinn.

Kanadamenn hafa gert samning um þátttöku í varnarsamstarfi Evrópusambandsins og leita einnig eftir betra skjóli með auknu efnahagslegu samstarfi. Jafnframt hafa þeir ákveðið að verja stöðu sína á öðrum markaðssvæðum eins og með samningum við Kína um afmarkaðar tollalækkanir.

Evrópusambandið er að efla öryggissamvinnuna verulega; að hluta vegna beiðni NATO og þrýstings frá Bandaríkjunum. Þá hefur sambandið lokið fríverslunarsamningum á öðrum markaðssvæðum. Indland og Suður Ameríka vega þar þyngst.

Svíar íhuga möguleika á evrópskri kjarnorkuvernd.

Tilraun Bandaríkjanna til að þvinga Dani til uppgjafar í Grænlandsmálinu með tollahækkunum var svarað með því að sýna stjórn þeirra fram á að henni yrði mætt með sameiginlegu afli allra aðildarríkjanna. Þá lét ríkisstjórn Bandaríkjanna undan síga. Grænland naut þar skjóls af veru Dana í tollabandalaginu.

Hvaða rök geta stutt það að Ísland taki eitt bandalagsríkjanna þá ákvörðun að bíða og aðhafast ekkert?

Spánný áhættuefni

Bandaríkin hóta nú Kanadamönnum 100% tollum vegna nýrra takmarkaðra tollasamninga við Kína.

Ísland er með fríverslunarsamning við Kína. Okkur hefur ekki verið hótað og ekkert sérstakt bendir til þess að svo verði.

En spurningin er: Eigum við að treysta á guð og gæfuna með það eða tryggja okkur betur í tollabandalagi? Viðskipti okkar við Kína rúmast að mestu eða öll innan tollasamninga Evrópusambandsins.

Í síðasta föstudags Mogga nefndi Gunnar Pálsson fyrrum sendiherra svo alveg nýtt áhættuefni. Fari svo að Bandaríkin nái einhvers konar yfirráðum á Grænlandi telur hann að þau kunni að túlka varnarsamninginn frá 1951 þannig að Ísland, eitt Evrópuríkja NATO, hefði ekki jafnframt heimild til aðildar að Evrópusambandinu.

Ekki verður séð að lagarök styðji þessa túlkun enda væri fullveldi landsins þá úr sögunni. En hitt er ekki útilokað að sendiherrann hafi innanbúðarþekkingu til að meta rétt líkurnar á slíku ofríki Bandaríkjanna.

Að hika er sama og tapa

Hvorki eru deilur um grundvöll utanríkisstefnunnar né rammann um framkvæmd hennar. Hins vegar er ágreiningur um hvort umpólun alþjóðakerfisins kalli á að við tryggjum stöðu landsins betur innan rammans. Ekki er deilt um þjóðaratkvæði heldur hver spurningin á að vera.

Sveinn R. Eyjólfsson, sem ýmsir vitna nú til, kunni að bíða en án þess að láta tækifærin úr greipum sér ganga. Gömlu árabáta formennirnir sættu lagi en töldu óhyggilegt að bíða það af sér. Að hika var þá sama og tapa.

Nú eru sex formenn stjórnmálaflokka á Alþingi. Hvað finnst þeim í raun og veru þegar hefðbundnar freistingar skæklatogs eru lagðar til hliðar?

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 29. janúar 2026