15 jan Blikastaðaland, stefna og pólitísk ábyrgð
Á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar,miðvikudaginn 14. janúar, lá fyrir deiliskipulag fyrir 1. áfanga Blikastaðalands. Til stendur að auglýsa framkomna deiliskipulagstillögu og skipuleggja íbúafund. Greinargerð deiliskipulagsins ætti að liggja fyrir á vef Mosfellsbæjar um það leyti sem fundurinn hefst og hvetjum við alla íbúa til þess að kynna sér deiliskipulagið. Gríðarleg vinna hefur verið lögð í það og er útkoman vönduð og vel ígrunduð. Þetta deiliskipulag markar líka einn mikilvægasta skipulagsáfanga Mosfellsbæjar. Í því er mótuð skýr sýn um samgöngumiðaða og sjálfbæra uppbyggingu sem fellur að bæði aðalskipulagi bæjarins og Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2040.
Stærðir og samanburður
Það er skiljanlegt að fólk staldri við þegar svo stórar framkvæmdir eru áætlaðar í ekki stærra sveitarfélagi en okkar. Mosfellsbær hefur tekið breytingum undanfarin ár og þetta deiliskipulag er hluti af þeirri þróun. Vissulega er þetta svæði þéttara en víðast hvar í bænum en það mun ekki hafa áhrif á umhverfi íbúa í öðrum hverfum breytist ekki. Hið nýja hverfi verður nýr valkostur fyrir þá sem kjósa að búa í Mosfellsbæ og eykur fjölbreytni í búsetumöguleikum innan sveitarfélagsins.. Mikilvægt er að árétta í þessu samhengi að ekki er verið að þétta núverandi byggð, heldur að bæta við nýju hverfi á óbyggðu landi, sem ekki hefur verið nýtt í þágu Mosfellinga til þessa. Svæðið er í útjaðri sveitarfélagsins og hefur ekki heldur verið nýtt til útivistar. Skipulagssvæðið sem nú er til umfjöllunar nær yfir 34,8 hektara svæði. Á því er gert ráð fyrir allt að 1.260 íbúðum, auk atvinnu- og þjónustuhúsnæðis og grunninnviðum á borð við leik- og
grunnskóla. Það gera 36 íbúðir á hektara entil samanburðar þá er gert ráð fyrir því að í nýrri byggð í Úlfarsárdal verði 4000 íbúðir á 80 hektara svæði sem nemur 50 íbúðum á hvern hektara og í Keldnaholti verður þétting mun meiri. Þessi samanburður sýnir að Blikastaðaland er í neðri mörkum hvað varðar þéttleika, bæði miðað við önnur stór uppbyggingarsvæði á höfuðborgarsvæðinu og alþjóðleg viðmið fyrir samgöngumiðaða þróun. Þéttleikinn þar sem hann er mestur er svipaður og á reitnum við Útvarpshúsið í Efstaleiti í Reykjavík.
Af hverju þessi fjöldi íbúða?
Fjöldi íbúða á Blikastaðalandi er ekki tilviljun. Hann á rætur í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2040, sem er skuldbindandi stefnumótandi áætlun sveitarfélaganna á svæðinu. Þar er höfuðborgarsvæðið skilgreint sem eitt búsetu- og atvinnusvæði, þar sem vexti skal mæta með blandaðri landnotkun, samgöngumiðaðri þróun meðfram Borgarlínu og verndun óbyggðs lands með skýrum vaxtarmörkum. Forsendur svæðisskipulagsins byggja á umfangsmikilli faglegri vinnu t.d. mannfjöldaspám, umferðarlíkönum, ferðavenjukönnunum, umhverfismati, lýðheilsugreiningum og sviðsmyndagreiningum. Spár gerðu ráð fyrir um 70.000 manna fjölgun á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2018 til ársins 2040. Til að sú fjölgun leiði ekki til áframhaldandi umferðatafa og verri loftgæða er beinlínis kveðið á um að ný uppbygging skuli beinast inn á samgöngu- og þróunarása. Blikastaðaland fellur nákvæmlega að þessari stefnu. Svæðið liggur við fyrirhugaða Borgarlínu, nýtir núverandi innviði og styrkir farþegagrunn almenningssamgangna. Þéttleikinn, um 36 íbúðir á hektara, er því ekki aðeins í samræmi við svæðisskipulagið, heldur varfærinn og hóflegur miðað við markmið þess.
Samningar og pólitísk ábyrgð
Árið 2022 gerði Mosfellsbær samkomulag við landeigendur um uppbyggingu á Blikastöðum með þessum fjölda íbúða. Samningurinn var síðar endurskoðaður með það að markmiði að sveitarfélagið kæmi enn betur út úr honum fjárhagslega, m.a. til að tryggja bænum betri stöðu gagnvart innviðauppbyggingu. Mikilvægt er að rifja upp að allir bæjarfulltrúar samþykktu breytingar á samningnum og staðfestu hann, enda var niðurstaðan sú að samkomulagið væri hagfellt fyrir Mosfellsbæ, bæði fjárhagslega og skipulagslega. Í því ljósi er umræða dagsins athyglisverð. Blikastaðaland er ekki ný hugmynd, heldur bein afleiðing samþykktrar stefnu, samninga og skuldbindinga sem bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur staðfest.
Blikastaðaland er ekki of þétt.
Þvert á móti sýnir samanburður við Úlfarsárdal og Keldnaholt að uppbyggingin er í neðri mörkum þess sem stefnt er að á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi íbúða á svæðinu á sér skýrar rætur í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til 2040, faglegum forsendum þess og pólitískum samningum sem þegar hafa verið samþykktir. Umræðan ætti því síður að snúast um hvort byggja eigi heldur hvernig tryggja megi að uppbyggingin verði eins vönduð, sjálfbær og hagkvæm fyrir Mosfellsbæ og íbúa hans og kostur er og að þetta vandaða deiliskipulagi verði verndað og ekki brugðið út af því.