Hrópandi heimur

Daglega birtast fréttir af þjóðarleiðtogum sem hræra stöðugt í suðupotti alþjóðakerfisins eins og við þekkjum það. Leiðtogar Evrópu hafa staðið í lappirnar og segjast ekki kæra sig um þann ólgusjó sem hræringunum fylgir. En um leið fær öfgafull hugmyndafræði byr undir báða vængi.

„Ég er að vernda þjóð mína frá hruni vestrænnar siðmenningar,“ segir annar hópurinn. „Ég er að vernda mannréttindi, frelsi og fjölbreytileika,“ segir hinn. Báðir hópar eru innilega sannfærðir um að þeir hafi rétt fyrir sér og aðrir séu fávitar.

Tilfinningin er sú að í gangi sé einhvers konar keppni í því að sveifla pendúlnum. Hver nær að hneyksla mest? Færa línuna lengra? Ögra meira? Segja ljótari hluti um annað fólk? Á sama tíma styrkjast hóparnir á jöðrunum í eigin sannfæringu.

Sagan endurtekur sig fyrir framan nefið á okkur. Uppgangur öfgahyggju er ein birtingarmynd þess. Aukin sundrung og óreiða er önnur. Við getum þó enn tekið í handbremsuna og snúið þróuninni við.

Það gerum við meðal annars með því að leggja símann aðeins frá okkur, stíga út úr bergmálshellunum, slaka á hneykslunarkapphlaupinu og prófa að tala saman í staðinn. Horfast í augu, hlusta og sjá hvaðan við erum að koma.

Það er skiljanlegt að á Íslandi finni fólk fyrir ótta um að þjóðin okkar sé að breytast. Að ekki sé stjórn á aðstæðum.

Sundrungin og óvissan sem við finnum öll fyrir þarf ekki að verða ástand sem við venjumst. Slíkt endar ekki vel fyrir neinn.

Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja öryggi okkar og frelsi og stuðla að sameinandi þáttum. Sú ábyrgð er tekin alvarlega á stjórnarheimilinu.

En við sem einstaklingar berum líka öll ábyrgð á því hvernig við tölum saman og drögum úr spennunni okkar á milli. Kannski ættum við að setjast aðeins á bekkinn og endurhugsa leikskipulagið.

Því undir allri hugmyndafræðinni, hugtökunum, skammaryrðunum og æsingnum eru einfaldlega manneskjur holdi klæddar. Með ólíkar skoðanir, upplifanir og áhyggjur.

Það eru síðan vissulega til tækifærissinnaðir einstaklingar sem reyna að hagnýta ástandið fyrir pólitísk prik, frama og fylgi. Fyrir þeim er þetta leikjafræði og leið að völdum en ekki endilega birtingarmynd á einlægri ást þeirra til samfélagsins. Föllum ekki fyrir því.

Grundvöllur samfélagssáttmálans og jafnframt allra okkar lífsgæða eru áunnin réttindi okkar, lög og reglur, samningar og samtal. Um þessi gildi verðum við að standa vörð. Ekki með hávaða og upphrópunum, heldur með stillingu, ábyrgð og virku samtali. Veljum við ekki fremur stöðugan en hrópandi heim?