Spurt um skilning jafnaðarmanna 2026

Þorsteinn Pálsson

Það er lífsnauðsyn fyrir Ísland að villast ekki í ólgusjó.

Látum hvorki glepjast af stundarhagsmunum né hrífumst með sviptivindum í stjórnmálum annarra ríkja en okkar eigin.“

Þetta er tilvitnun í áramótaávarp Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra. Með þessum orðum er forsætisráðherra að segja þjóðinni hvernig rétt sé að bregðast við Trump byltingunni.

Byltingu sem vegið hefur harkalega að efnahagslegum hagsmunum Íslands með ofur tollum, kollvarpað hefur regluverki alþjóðasamfélagsins, snúist gegn lýðræði og fullveldisrétti ríkja, brotið niður hugmyndafræði frjálsra viðskipta, sem Ísland byggir lífsviðurværi sitt á, og kippt stoðunum undan trúverðugleika Atlantshafsbandalagsins, sem verið hefur helsta stoð undir fullveldi landsins.

Túlkunin

Leiðsögn forsætisráðherra má túlka á fleiri en einn veg.

Einn kostur er að skýra ummælin þannig að forsætisráðherra hafi einfaldlega viljað minna þjóðina á að rasa ekki um ráð fram þótt mikið gangi á. Og ekki hafi verið þörf á að segja mikið meira.

Annar skýringarkostur gæti verið að sá að forsætisráðherra hafi ekki viljað útiloka að þau tækifæri, sem blasa við, yrðu nýtt til að styrkja stöðu Íslands í breyttri heimsmynd, án þess þó að sjá ástæðu til að setja þá spurningu á dagskrá.

Þriðji möguleikinn er að túlka ummælin á þann veg að horfa eigi fram hjá Trump byltingunni og við svo búið standi enginn rök til þess að treysta pólitíska og efnahagslega hagsmuni landsins með fullri aðild að Evrópusambandinu, sem nú er eina brjóstvörn fyrir fullveldi, lýðræði og frjáls viðskipti.

Spurningar

Í ritstjórnargrein Morgunblaðsins var áramótaleiðsögn forsætisráðherra fagnað og talið fullvíst að hún þýddi að formaður Samfylkingarinnar myndi ekki mæla með því við þjóðina að segja já í þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðna.

Baldur Þórhallsson, helsti fræðimaður landsins um stöðu smáríkja, komst þannig að orði í áramótahugleiðingu sinni um alþjóðamál:

Nú, rétt eins og þegar kalda stríðinu lauk, virðast margir íslenskir stjórnmálamenn ekki horfast í augu við þá umpólun sem er að eiga sér stað í alþjóðakerfinu…

Margir horfast ekki heldur í augu við þá breytingu sem er að eiga sér stað í Evrópusambandinu, sem nú stendur uppi í hárinu á rússneskum stjórnvöldum og leggur ofuráherslu á alþjóðalög, frjáls viðskipti, lýðræði og mannréttindi. Málefni sem skipta sköpum fyrir framtíð smáríkja eins og Íslands.“

Í niðurlagi greinar sinnar segir prófessorinn að í lok kalda stríðsins hafi alþýðuflokksmenn einir horfst í augu við breytta heimsmynd og spyr svo: „Ætli íslenskir jafnaðarmenn átti sig á umpólun alþjóðakerfisins árið 2026 og taki frumkvæði í utanríkismálum?

Kostirnir

Kostirnir eru tveir:

Annar er að bíða og taka áhættuna af því að Trump stjórnin ráði í reynd ferðinni fyrir Ísland.

Hinn er að styrkja tengslin við Evrópusambandið, sem nú er eini vettvangur ríkja sem stendur vörð um lýðræði, fullveldisrétt og frjáls viðskipti.

Eftir Trump byltinguna er þar eina skjólið fyrir þær þjóðir sem treysta á þessi gildi.

Staðan

Hver er svo pólitíska staðan?

Í landsfundarályktunum er Samfylkingin afdráttarlaus í stuðningi við fulla aðild að Evrópusambandinu. Andstæðingar aðildar telja formanninn hins vegar vera í sínu liði og fræðimenn setja spurningamerki um skilning hans eða vilja til að taka frumkvæði.

Viðreisn er í forystu í umræðunni um nauðsyn þess að bregðast við og talar skýrt fyrir fullri aðild.

Allir stjórnarflokkarnir styðja þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðna. En Flokkur fólksins hefur enn ekki tekið efnislega afstöðu til þess hvort bregðast þurfi við áhrifum Trump byltingarinnar á íslenska hagsmuni.

Minnihluti sjálfstæðismanna undir forystu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur telur nauðsynlegt að Ísland bregðist við breyttum aðstæðum og styrki stöðu sína frekar án þess að segja skýrt með hvaða hætti. Hún hefur hvorki tekið afstöðu með né á móti þjóðaratkvæði. Í byrjun stjórnarsamstarfsins furðaði hún sig eigi að síður á hinu hversu langan tímaramma ný ríkisstjórn setti.

Miðflokkur, Framsókn og meirihluti Sjálfstæðisflokks telur enga þörf á sérstökum viðbrögðum, er á móti fullri aðild og berst gegn því að þjóðin fái að ráða.

Óljós skilaboð

Það verða ekki allir sammála um utanríkispólitíkina nú fremur en áður. En þessi staða á miklum örlagatímum lýsir ekki nægjanlega skýrum skilaboðum til alþjóðasamfélagsins um stefnu Íslands.

Getur almenningur og atvinnulífið sætt sig við svo óljósa stöðu þegar jafn mikið er í húfi?

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 8. janúar 2026