21 jan Þegar kerfið bregst þolendum
„Ofbeldi þrífst í þögninni“ „Skömmin er gerandans“ „Höfum hátt og segjum frá“ „Skilum skömminni.“
Allt eru þetta setningar sem ómuðu hér á landi fyrir nokkrum árum með það að markmiði að rjúfa þögnina um ofbeldi, opna umræðuna og ráðast að rótum vandans. Tilgangurinn var skýr – að finna leiðir til að koma í veg fyrir að ofbeldi grasseri áfram í okkar annars góða samfélagi.
Það er ekki langt síðan að umræðan um heimilis- og kynferðisofbeldi komst upp á yfirborðið. Vissulega hafði verið pískrað um slíkt á árum áður, en upp úr aldamótum fóru umræðan og skilningurinn smám saman að opnast og verða algengari.
Þrátt fyrir mikla viðleitni og ákveðna byltingu á síðustu árum er það því miður þannig að ofbeldi viðgengst í íslensku samfélagi. Mögulega er það bjartsýnt markmið að ætla sér að útrýma ofbeldi með öllu. En maður má vona og við eigum alltaf að halda áfram að reyna.
Alvarlegar afleiðingar
Við vitum að afleiðingar ofbeldis geta verið langvinnar og alvarlegar. Ofbeldi skilur eftir sig sár sem gróa seint eða jafnvel aldrei. Samfélagslegur kostnaður ofbeldis er gríðarlegur. Það ætti að vera kappsmál okkar allra að fyrirbyggja slíkt tjón með öllum ráðum og eiga um leið þéttofið öryggisnet sem grípur þá einstaklinga sem þurfa á að halda.
Við vitum jafnframt að aðeins brot af ofbeldisbrotum eru tilkynnt til lögreglu. Opinberar tölur sýna því aðeins toppinn af ísjakanum.
Í síðustu viku féll annar dómur hjá Mannréttindadómstóli Evrópu gegn íslenska ríkinu sem að mati dómsins hefur brotið gegn 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu við rannsókn lögreglu á brotunum. Það voru níu konur sem upprunalega stefndu ríkinu til MDE. Allar höfðu þær kært kynbundið ofbeldi til lögreglu og mál þeirra felld niður. Meðal umkvörtunarefna voru of langur málsmeðferðartími og að réttarvörslukerfið hefði brugðist þolendum.
Dómarnir eru alvarlegir. Þeir kalla á viðbrögð af hálfu íslenska ríkisins og gera kröfu um að traust verði byggt upp til kerfisins. Dómarnir leiða vonandi til þess að verklag verði endurskoðað og aukinn kraftur settur í að styrkja getu kerfisins til að takast á við ofbeldi í íslensku samfélagi.
Fyrirspurn til ráðherra og svör
Í haust sendi ég dómsmálaráðherra skriflega fyrirspurn um viðbrögð ráðherra við dómunum. Þar spurði ég um það hvernig brugðist yrði við stöðunni. Ég spurði jafnframt út í tölfræði áranna 2018-2024 þegar kemur að hlutfalli kæra sem felldar voru niður, hversu mörg mál hefðu endað með dómi og með sakfellingu.
Svör dómsmálaráðherra eru ítarleg og yfirgripsmikil og gefa von um að tekið verði á þessum málum á kjörtímabilinu. Þar kemur meðal annars fram að árið 2024 voru 1.776 kærur framlagðar sem varðað geta kynbundið ofbeldi. Af þeim eru 39% enn til afgreiðslu, sem þýðir að ótal þolendur bíða enn eftir niðurstöðu.
Rannsókn var hætt í 76,1% kærðra heimilisofbeldismála árið 2021. Í 22,5% tilvika fóru málin í ákærumeðferð. Í kynferðisbrotamálum sama ár var hlutfallið 45% sem voru felld niður og 52% sem fóru í ákærumeðferð.
Þegar kemur að afdrifum mála fyrir dómstólum flækjast hlutirnir enn frekar. Ekki er hægt að kalla fram heildstæða tölfræði nema með handvirkum hætti þar sem mörg mál eru skráð með fleiri en eina undirtegund. Þá liggja ekki fyrir sambærilegar tölur frá Landsrétti og Hæstarétti.
Þetta er alvarlegt. Í baráttunni gegn ofbeldi er grundvallaratriði að hafa aðgang að áreiðanlegum tölfræðilegum upplýsingum. Til að skilja umfang vandans og til að geta brugðist við honum með markvissum hætti.
Tímabært að tryggja traustið
Það er löngu orðið tímabært að hætta að tala um mikilvægi umbóta og hefja þær í verki. Mörg jákvæð skref hafa verið tekin á umliðnum árum en við getum gert betur og verðum að gera betur. Dómar MDE eru áfellisdómur yfir íslenska ríkinu og skýr áminning um að kerfið hefur því miður brugðist þolendum ofbeldis.
Samfélag sem stendur vörð um mannréttindi getur ekki sætt sig við óbreytta stöðu. Gleymum því ekki að á bak við alla tölfræðina eru manneskjur sem bíða niðurstöðu. Oftast í alveg ofboðslega sárum og persónulegum málum. Fólkið sem starfar innan kerfisins er án efa að gera sitt besta, oft í krefjandi aðstæðum. En stjórnvöld verða að tryggja nægt fjármagn, skýra forgangsröðun og raunverulegar aðgerðir. Þar treysti ég dómsmálaráðherra Viðreisnar vel til að ganga hreint til verks.
Þolendur ofbeldis hafa beðið nógu lengi.