14 jún Viðreisn í 9,1%
Fylgi Viðreisnar er komið í rúmlega níu prósent samkvæmt nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið dagana 8.-12. júní sl.
Viðreisn heldur áfram að bæta við sig og mælist með 9,1% fylgi, en mældist með 7,9% í síðustu könnun. Píratar mælast með 29,9% fylgi og bæta við sig 1,6 prósentustigum frá síðustu könnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Morgunblaðið. Á eftir Pírötum er Sjálfstæðisflokkur stærstur með 22,7% fylgi, en flokkurinn lækkar um 1,2 prósentustig frá síðustu könnun og hefur því lækkað um 5,5 prósent frá því að Félagsvísindastofnun gerði könnun fyrir Morgunblaðið þann 12.-13. maí.
Vinstri-grænir lækka um 0,6 prósentustig og standa nú í 15,9% og hafa þar með lækkað um 3 prósentustig síðan könnun var gerð í maí. Framsóknarflokkurinn mældist með 11,1% en var í 11,8% í síðustu könnun. Samfylkingin mælist með 7,6% og hækkar um hálft prósentustig frá síðustu könnun. Þar á eftir er Björt framtíð sem tapar áfram fylgi og mælist nú með 2,9%. Dögun mælist með 0,2%, Alþýðufylkingin mælist með 0,1% og aðrir flokkar eða listar með hálft prósent. Stjórnmálahreyfing þarf minnst 5% fylgi til að koma manni á þing.
Könnunin náði til 2.000 meðlima í netpanel Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, en 1.072 svöruðu könnuninni. Með tilliti til brottfalls var svarhlutfall 54%. Netpanellinn samanstendur af fólki eldra en 18 ára á landinu öllu sem hefur samþykkt að taka þátt í netkönnunum á vegum stofnunarinnar.
Við minnum á opið hús Viðreisnar á hverjum þriðjudegi í sumar milli 17 og 18 í Ármúla 42, þar sem spjallað verður um stöðu og horfur.