03 ágú Málefnin ráða för
Nýjar fylgiskannanir benda til breytinga á hinu pólitíska litrófi. Kosningabaráttan er hafin af fullum krafti – og sömuleiðis kosningaskjálftinn sem þeirri baráttu fylgir. Því eru stjórnmálamenn byrjaðir að brýna vopnin og sækja fram fyrir komandi kosningabaráttu. Ljóst er að þessar kosningar verða sögulegar að því leytinu til að engin líkleg stjórnarmyndun tveggja flokka liggur fyrir.
Í allri þessi umræðu hefur það borið á góma að forystumenn stjórnmálaflokka útiloka samstarf við aðra tiltekna stjórnmálaflokka. Það eru góð og gild rök fyrir slíkri ákvörðun, eins og þau að veita kjósendum sínum skýr svör um hvernig málum skuli háttað í haust.
Þessu svarar Viðreisn á þann hátt að ekkert sé útilokað, en flokkurinn fari þó einungis í samstarf þar sem áherslur hans ná fram. Það eru einna helst róttækar kerfisbreytingar með almannahagsmuni að leiðarljósi. Markaðs- og uppboðsleið í sjávarútvegi, nútímaleg landbúnaðarstefna byggð á eðlilegri samkeppni og kosningar um framhald aðildarviðræðna við ESB eru allt meðal stefnumála Viðreisnar. Einnig telur flokkurinn að breyting stjórnarskrár sé nauðsynleg. Allt þetta eru skref til að koma samfélagi okkar inn í nútíðina. Mögulegur samstarfsflokkur Viðreisnar þyrfti auðvitað að samþykkja þessi stefnumál.
Aðrir flokkar hafa svipaðar breytingar meðal stefnumála. Það einmitt til að koma samfélaginu inn í nútíðina. Þess vegna kemur það á óvart að þeir skuli sumir hverjir enn beita aðferðum síðustu aldar. Tekin er ákvörðun, jafnvel án skýrs umboðs flokks, um að kasta samvinnu á glæ og útiloka mögulegt samstarf við ákveðna flokka. Stjórnmálamenn gerast svo enn og aftur gamaldags og reyna að nýta sér tækifærið í umræðunni til ráðast að öðrum, sem gætu mögulega ógnað þeirra eigin stöðu í kosningum í haust. Ljóst er að kosningaskjálftinn er svo sannarlega hafinn. Þegar reyndir stjórnmálamenn svo misskilja umræðuna á þennan hátt, þá er margt sem bendir til þess að þarna séu það eiginhagsmunir og atkvæðakaup sem ráða för, fremur en hugsjónir og málefni.
Viðreisn tekur þá skýru afstöðu að málefnin skuli ráða för í haust. Því auðvitað eiga þau að gera það – og þá á ákvörðun um samstarf ekki að ráðast af geðþótta eða hentistefnu stjórnmálamanna hverju sinni, heldur hvaða stjórnmálaflokkar geta unnið saman til að koma umbótum í gegn. Þannig skapast raunverulegt hreyfiafl jákvæðra breytinga í íslensku samfélagi. Mikill skortur hefur verið á því, þar sem stjórnmálamenn virðast fastir í því fari að byggja ákvarðanir á geðþótta og hentistefnu. Þetta sýnir okkur enn og aftur hve nauðsynlegur ferskleiki er í íslenskum stjórnmálum.
Grein birtist upphaflega í Kjarnanum