21 okt Framfarir eða stöðnun
Í komandi kosningum standa kjósendur frammi fyrir vali á milli framfara eða stöðnunar. Viðreisn hefur lagt til kerfisbreytingar sem munu tryggja verulegar framfarir á mörgum sviðum efnahags- og velferðarmála. Hér skulum við skoða gjaldmiðlamál, alþjóðamál og landvernd.
Viðreisn hefur lagt til að peningamál verði endurskoðuð með það í huga að taka upp myntráð. Landið hefur búið við mikinn óstöðugleika í verðgildi krónunnar í áratugi. Með myntráði við evru (sem er langstærsti viðskiptagjaldmiðillinn) er verðgildi krónunnar tryggt með evrum til framtíðar. Við þetta má vænta þess að vextir hér færist í átt að vöxtum nágrannalandanna. Mikilvægt er að með gengistryggðum gjaldmiðli og frelsi í viðskiptum er ekki hægt að rýra verðgildi hans með pólitískum ákvörðunum. Með myntráði dregur verulega úr óvissu í áætlunum um útgjöld, fjárfestingar og sparnað heimila og fyrirtækja auk þess sem verðtrygging verður óþörf.
Umræða um alþjóðamál hefur einkennst af miklum fordómum og áróðri gegn ESB. Þetta gerist þrátt fyrir það að Ísland er með annan fótinn inni í ESB með EES samningnum og tekur við nær öllum mikilvægustu gerðum frá ESB án þess að hafa nokkur áhrif á mál sem geta varðað sérstaka hagsmuni okkar. Er það tilviljun að sömu öfl og vilja ekki sjá samning við ESB á borðinu vilja heldur ekki auðlindaákvæði inn í stjórnarskrá né nokkrar breytingar á styrk sérhagsmunahópa í stjórnkerfi landsins? Helsta breytingin með því að stíga skrefið til fulls inn í ESB fellst í því að Ísland fær meiri áhrif á gang mála en nokkurt smáríki getur vænst á sviði alþjóðamála. Þá geta Íslendingar tekið upp evru í fyllingu tímans og þar með tengst traustum og föstum böndum einu stærsta markaðssvæði heims. Eðlilegt er að áframhaldandi viðræður við ESB styðjist við fullt umboð frá þjóðinni og því vill Viðreisn hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um framgang málsins.
Umhverfismál hafa verið í sviðsljósinu á alþjóðavettvangi ekki síst vegna loftlagsbreytinga af manna völdum. Því miður er nokkuð seint í rassinn gripið á því sviði og ljóst að búsvæði hundruð milljóna manna munu skerðast á næstu áratugum. Hér á landi er baráttan fyrir verndun umhverfisins í nauðvörn. Hverri kynslóð ber að skila landinu til næstu kynslóða í jafngóðu eða betra ásigkomulagi. Stóriðjuver hér á landi hafa notið „hreinnar“ raforku á hagstæðu verði fyrir gamaldags frumframleiðslu. Þau spúa milljónum tonna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið og hafa ásamt virkjunum valdið miklum landspjöllum. Beinir og óbeinir ríkisstyrkir hafa styrkt rekstrargrundvöll stóriðju en verðmætasköpun innanlands er í engu samræmi við umfang innlendrar fjárfestingar. Fyrir framtíð og framfarir horfir Viðreisn til mannauðsins fyrst og fremst og uppbyggingar nútíma atvinnugreina í sátt við umhverfið.
Kjósum Viðreisn, kjósum framfarir.