29 okt Okkar besta (BJ)
Haustið 2008 hugsaði ég mikið um pólitík. Eins og hjá öðrum var þetta erfiður tími fyrir mig og í huganum er dimma og drungi yfir þessum dögum. Ég var á þingpöllum þegar neyðarlögin voru lögð fram og ég man þegar þingmenn voru að tínast inn, einn og einn, þungbúnir á svip. Enginn sagði orð þó að þingfundur væri ekki hafinn og þó maður hefði ekkert vitað gat það ekki farið framhjá neinum að eitthvað mjög alvarlegt var að gerast. Allir vissu að veislan var löngu búin, en fáir voru búnir undir þá martröð sem tók við.
Ég hugsaði það þá um það hvers vegna pólitíkin þyrfti að vera eins og hún hafði alltaf verið. Þingmenn þyrftu í umræðum að gera lítið hver úr öðrum, fara með fleipur, hrista höfuðið yfir heimsku hinna, skila frumvörpum seint til afgreiðslu, tala endalaust til þess að koma í veg fyrir að mál næðu afgreiðslu. Ég þekkti engan sem var ekki þreyttur á þessu ástandi sem hafði varað lengur en elstu menn mundu.
Hjá mér kviknaði hugmynd. Var ekki orðið tímabært að kveðja gömlu stjórnmálin og byrja ný. Ég hef setið í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja og þar vinna menn ekki svona. Þar er vissulega oft tekist á um afgreiðslu mála, en það er gert með rökum, menn reyna að setja upp sviðsmyndir þar sem sýnt er hver möguleg áhrif hinna ýmsu ákvarðana gætu orðið og loks tekur stjórnin undantekningarlítið samhljóða ákvörðun. Allir gera sér grein fyrir því að þó að það skipti auðvitað máli að velja sem besta stefnu að það er verst af öllu að fljóta eins og stefnulaust rekald. Jafnvel erfiðustu ákvörðunum er ekki slegið á frest.
Hvers vegna gátu stjórnmálin ekki verið svona á Íslandi? Hvers vegna ekki að nýta krafta 63 þingmanna í stað þess að það væri bara meirihlutinn, 32, 35, 38 eða hver sem talan var hverju sinni? Hvers vegna þarf alltaf að gera lítið úr tillögum þeirra sem ekki eru í stjórn? Heilir atvinnuvegir líða fyrir það að ekki er gerð tilraun til þess að ná sátt. Sjávarútvegur er ein mikilvægasta atvinnugrein landsins, hvers vegna ekki að ná sátt um hvaða aðgangseyri hann greiðir fyrir aðgang að sameiginlegum auðlindum? Hvers vegna horfumst við ekki í augu við að neytendur þurfa að hafa val um hvaða landbúnaðarvörur þeir kaupa, þó að flestir vilji styðja við hefðbundinn landbúnað? Hvers vegna þarf gengið alltaf að vera á fleygiferð þannig að þjóðin sé í uppsveiflu og sjálfshælni og eitt árið og haldi að hún viti ekki aura sinna tal og í djúpu svartnætti og vonleysi árið eftir, eins og hún þjáist af krónískum timburmönnum eftir langt fyllerí.
Var ekki eftirspurn eftir stjórnmálamönnum sem voru réttsýnir, gátu hrósað andstæðingunum þegar þeir töluðu skynsamlega, vildu fyrst og fremst ná bestu ákvörðun fyrir Ísland en ekki flokkinn sinn eða sína hagsmuni? Var ekki rými í stjórnmálunum fyrir rödd skynseminnar, fólk sem berðist á málefnagrunni en ekki á tómlausri metorðagirnd, þar sem tilgangurinn helgaði öll meðöl, fólk sem gat verið sjálfur sér samkvæmt ár eftir ár? Auðvitað var margt gott fólk í pólitík, en oft fannst mér eins og umhverfið bældi það besta í þeim, þau gripu til hrokans, yfirlætisins og hæðninnar, þegar auðmýkt, hæverska og gleði hefðu betur átt við.
Ég ræddi þessi mál oft á þessum dögum við vin minn á Alþingi. Við töldum að einmitt þá væri jarðvegur fyrir stjórnmálamenn sem segðu sannleikann umbúðalaust, vildu ekki umfram allt upphefja sig og klekkja á hinum. Allir væru orðnir leiðir á þannig pólitík.
Svo fór sem fór. Óeirðir á Austurvelli, ræða Davíðs, landsdómsmálið, Icesave. Í stað sáttar var sundurlyndi, stórum málum var skotið á frest. Vinstri stjórnin var ekki nægilega sterk til þess að græða sárin – og reyndi það kannski ekki. Margt ljótt var gert á þessum tíma, ákvarðanir teknar sem ívilnuðu fáum á kostnað hinna og prinsippin látin lönd og leið. Ef ekki hefði komið til Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn væri Ísland sjálfsagt enn í súpunni. En Steingrímur má eiga það að hann þorði að taka ákvarðanir þegar þess þurfti. Sumar rangar, einstaka skelfilegar, en margar einmitt þær sem þurfti. Og fyrst og fremst þurfti að afgreiða mál og hann gerði það. Stjórnin var ekki góð. Ég hafði viljað að flokkarnir tækju höndum saman um þjóðstjórn á þessum erfiðu tímum, en um það náðist engin sátt.
En svo tók lýðskrumið við og þjóðin fékk nýja stjórn.
Víða um heim hefur kreppan getið af sér ofstækisflokka. Þess vegna er ég stoltur af Viðreisn sem er berst fyrir frjálslyndi og gegn fordómum, fyrir viðskiptafrelsi gegn höftum, fyrir sátt í stað sundrungar.
Við biðum í mörg ár eftir að gömlu flokkarnir hugsuðu málin upp á nýtt, en það gerðist ekkert. Þess vegna fæddist Viðreisn.
Það er ekki í lagi að svíkja sín staðföstu loforð, það er ekki lagi að tala bara um völd en ekki hvað á að gera við þau, það er ekki í lagi að segja: Allt þetta skal ég gefa þér ef þú fellur fram og kýst mig.
Ég er stoltur af Viðreisn. Ég get fúslega viðurkennt að þó að ég sé tiltölulega ónæmur fyrir gagnrýni, rógi og ósannindum frá fólki sem ég hef lítinn þokka á verð ég hryggur þegar skynsamt fólk, fólk sem ég hélt að ætti ekkert sökótt við mig, fer í hnútukast, kallar mig ónefnum, dylgjar eða segir ósatt um mig. Margir segjast vera með þykkan skráp, en ég er ekki ein af þeim.
Samtímis get ég sagt að ég er þakklátur öllu því góða fólki sem hefur unnið með mér fyrir heilindi þess, hvatningu og hlý orð. Stundum fer ég hjá mér og verð nánast klökkur yfir góðum hug margra gamalla vina, kunningja og jafnvel ókunnugs fólks.
Nú er kosningabaráttan búin. Það tókst að búa til afl sem vill vinna Íslandi til góðs, leggur fram góð mál, býður fram heiðarlegt fólk með nýjar hugmyndir, er málefnalegt og heldur fram sínum málstað án þess að ráðast á andstæðingana.
Ég er bjartsýnn að morgni kjördags því við höfum gert okkar besta.
Benedikt Jóhannesson