Jómfrúarræða Bjarna Halldórs

Bjarni Halldór Janusson, varaþingmaður Viðreisnar tók sæti á Alþingi í dag og er fyrir vikið yngsti einstaklingur til þess að taka þar sæti. Bjarni tók þátt í sérstakri umræðu um kennaraskort í samfélaginu. Fyrstu ræðu Bjarna má sjá hér að neðan.

 

„Frú forseti

Verði ekki gripið til aðgerða blasir við gífurlegur kennaraskortur. Brátt fara stórir árgangar stéttarinnar á eftirlaun og brautskráning nýrra kennara heldur ekki í við þann missi. Nemendum við kennaradeildir háskólanna hefur fækkað um 35% frá árinu 2009. Til lengri tíma litið bitnar þetta helst á nemendum. Með skjótu viðbragði tækist okkur ekki aðeins að bæta starfsgæði kennara, heldur værum við einnig að tryggja rétt barna til góðrar menntunar svo þau geti þroskast og dafnað. Fjárfesting af slíku tagi skilar sér ótvírætt margfalt til baka. Nauðsynlegt er að gera starfið eftirsóknarverðara. Til að bregðast við dvínandi aðsókn í kennaranám þarf að bæta kjör kennara. Mikilvægur þáttur í því samhengi er að létta álagi af kennurum. Starfið er í eðli sínu álagsstarf, en samhliða vitundarvakningu í samfélaginu um mikilvægi þess að veita nemendum með geðræn vandamál eða námsörðugleika nauðsynlega þjónustu, þá hefur þetta álag aukist verulega.

Með því að bæta þá félagslegu þjónustu sem stendur nemendum til boða og láta sérhæft starfsfólk sjá um þann hluta, tækist okkur að létta álagi af kennurum. Þannig gætu kennarar í kjölfarið einbeitt sér að meginstarfi sínu og tryggt að kennslan verði sem best. Slíkt krefst þó frekari fjárveitinga til menntamála. Það má velta því fyrir sér hvort of miklum fjármunum sé varið í rekstur umgjarða, fremur en kennsluna sjálfa. Að öllum líkindum væri hægt að spara töluverða fjármuni með því að taka á innkaupum ríkisins. Skortur á yfirsýn veldur því að milljörðum króna er eytt að óþörfu vegna óhagkvæminna innkaupa. Samkvæmt Ríkiskaupum getur verið allt að sjöfaldur verðmunur á hæsta og lægsta verði vöru, þótt keypt sé af sama birgja. Það fælist mikill sparnaður í því að sameina innkaup í auknum mæli, kaupa vörur á fastri krónutölu með magnafslætti. Þó þarf að hafa eitt í huga hér. Sé stefnan að tryggja aukið fjármagn með slíkum breytingum, þá er lykilatriði að ávinningur af breytingum verði nýttur í þennan málaflokk.

Frú forseti

Það er kominn tími til að veita kennarastéttinni þá virðingu sem starf hennar á skilið. Nauðsynlegt er að heyra hvað kennarar hafa um stöðu sína að segja. Þannig verður hægt að vinna að betrumbótum á kerfinu.“