14 sep Ameríski draumurinn er norrænn
Frú forseti, góðir landsmenn
Við upplifum nú vaxandi pólitíska ólgu í heiminum. Rótin er víðast sú sama. Aukið frelsi, og opnun markaða hefur aukið velmegun í heiminum. Það hefur dregið úr ójöfnuði á milli þjóðríkja, en á sama tíma hefur misskipting innan þjóðríkja aukist. Ójöfnuður skapar frjóan jarðveg fyrir öfgar, sem ala á hatri og andúð og egna saman þjóðfélagshópum.
Frelsi hefur skilað okkur miklum ávinningi en gæta verður að því allir njóti hans. World Economic Forum birti á dögunum grein sem sýnir að tækifærin til að bæta stöðu sína eru mest í löndum þar sem jöfnuður ríkir. Ameríski draumurinn er nefnilega norrænn. Norðurlöndin standa hér öðrum ríkjum framar og það er fagnaðarefni að hér á landi er tekjujöfnuður mestur innan OECD-ríkjanna, á sama tíma og kaupmáttur er hér í sögulegu hámarki.
Ég er nýr í stjórnmálum. Stend hér sem fulltrúi Viðreisnar, frjálslynds stjórnmálaflokks sem var stofnaður fyrir ári. Margir keppast nú við að skilgreina okkur. Við erum jafnvel kennd við nýfrjálshyggju af sumum á vinstri vængnum á sama tíma og þeir sem yst eru á hægri vængnum skilgreina okkur sem sósíalista. Það endurspeglar kannski þann vanda vinstrimanna að rugla saman frjálslyndi og frjálshyggju og birtir á sama tíma skilningsleysi hægrimanna á mikilvægi almennrar velferðar. Stefna Viðreisnar er einföld: Við stöndum fyrir hægri hagstjórn en vinstri velferð, klassíska norræna hugmyndafræði um sterkt velferðarkerfi á grundvelli traustrar hagstjórnar og blómlegs atvinnulífs. Ísland á að vera góður staður til að fæðast á og lifa góðu lífi. Mikilvægasta hlutverk stjórnmálanna er þess vegna að skapa samkeppnishæf lífskjör á Íslandi svo að fólk sjái sér framtíð á Íslandi.
Frá minnihlutanum á Alþingi heyrist nú sú gagnrýni að ekki sé nóg gert í velferðarmálum. Veruleikinn er allt annar. Við erum að auka framlög til velferðarmála um 30 milljarða á milli ára. Þessar hækkanir koma ofan liðlega 20 milljarða hækkun milli áranna 2016 og 2017, sem þverpólitísk samstaða náðist um hér í þinginu. Á tveimur árum munu útgjöld til velferðarmála því hafa aukist um 50 milljarða króna. Áherslan á velferð gæti ekki verið skýrari. Og hvað erum við að gera? Jú, við vinnum að viðamiklum aðgerðum til að leysa húsnæðisvanda fólks, m.a. með auknu fjármagni til uppbyggingar á ódýrum leiguíbúðum; við erum að hækka greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi; við erum að lögbinda notendastýrða persónubundna aðstoð og við erum að stórauka stuðning til atvinnu fyrir við fólk með skerta starfsgetu, svo dæmi séu nefnd. Við erum jafnframt að stórauka framlög til að taka á móti flóttamönnum sem hingað vilja flytja í leit að betra lífi. Við erum að hefja byggingu Landspítala, leggja aukna áherslu á geðheilbrigðismál og auka uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir eldri borgara. Síðast en ekki síst þá erum við að styrkja lífeyrisréttindi 35.000 eldri borgara og 18.000 öryrkja. Í þeim efnum er ekki síður mikilvægt að leggja áherslu á að öllum standi til boða að vera virkir í samfélaginu. Að hver gefi til samfélagsins eins og hann er fær um. Og þiggi það frá samfélaginu sem hann þarf. Í því felast mikil lífsgæði.
Minnihlutinn krefst þess að enn frekar verði aukið við og skattar verði hækkaðir umtalsvert til að fjármagna samneysluna. Þessar hugmyndir eru varhugaverðar nú þegar viðvörunarljós loga í hagkerfinu. Við höfum áður staðið í þessum sporum, þar sem stóraukin þensla í ríkisútgjöldum hefur leitt til hárrar verðbólgu og hárra vöxtum. Fátt vegur þyngra í útgjöldum heimilanna en vextir og verðbætur. Lágir vextir og stöðugleiki eru nefnilega líka velferðarmál fyrir heimilin í landinu. Við í Viðreisn viljum tryggja að það samfélag sem við búum komandi kynslóðum sé í fremstu röð hvað lífsgæði varðar. Það á ekki aðeins við um öflugt velferðarkerfi og blómlegt atvinnulíf, heldur ekki síður um aðra þætti sem hafa mikil áhrif á okkar daglega líf svo sem matvælaverð, húsnæðikost og vaxtakostnað.
Grundvöllur þess að Ísland verði framúrskarandi samfélag felst ekki hvað síst í jöfnuði og jöfnum tækifærum, bæði fyrir þá sem hér fæðast og þá hingað flytja. Þau sem hingað hafa flutt að utan standa ekki síður undir velmegun okkar og velferð en við sem hér erum fædd. Við eigum að fordæma stjórnmálaöfl sem hér hafa sprottið upp og reyna nú að flokka fólk – egna fólki saman – eftir uppruna og kynþætti. Slíkur boðskapur hefur ekkert með forgang velferðarmála að gera heldur opinberar fordóma þeirra sem þannig tala. Hlutverk okkar er hins vegar að jafna leikvöllinn og byggja hér upp samfélag þar sem allir fá notið sín, án tillits til efna eða uppruna. Þar sem jafnréttið er í fyrirrúmi. Ég hlakka til.
Ræða Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra, flutt við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi 13. september 2017.