02 okt Stefnufesta og efndir Viðreisnar
Nú eru minna en fjórar vikur til kosninga og staðan er að mörgu leyti skrítin. Sjaldan hafa fleiri flokkar boðið fram og ljóst að við þurfum að keppa um athygli kjósenda. Það er líka sjaldgæft að flokkar hafi jafngóðan málstað fram að færa og Viðreisn, fólkið til þess að framkvæma hann og söguna um að við höfum staðið á okkar stefnu. Flestir eru sammála um að bæði þingflokkur og ráðherrar hafi sýnt af sér óvenjulega vinnusemi og atorku svo eftir er tekið. Samt eigum við greinilega undir högg að sækja.
Viðreisn verður að ná styrkleika eftir kosningarnar sem eini flokkurinn sem berst fyrir gengisfestu með myntráði og viðurkennir hiklaust að krónan er gallagripur sem heldur vöxtum háum. Svo háum að á Íslandi þurfum við að vinna rúmlega klukkutíma lengur en nágrannaþjóðir okkar á hverjum degi, bara til þess að eiga fyrir vaxtagreiðslum.
Mesta vandamál ungs fólks og annarra sem nú eru að kaupa fyrstu íbúð er hve íbúðaverð hefur hækkað. Viðreisn hefur með markvissum hætti samið við sveitarfélög til þess að auka framboð á íbúðalóðum, stöðugleiki í efnahagsmálum hefur orðið til þess að vextir Seðlabankans hafa lækkað úr 5,0% í 4,5%. Verðtryggðir vextir hafa líka lækkað á árinu. Þannig að vextir hafa hreyfst í rétta átt, en við eigum enn langt í land. Svarið er stöðugleiki eins og Viðreisn berst fyrir.
Neytendur verða að njóta kosta samkeppninnar. Á þessu ári höfum við séð svo að ekki verður um villst að hörð samkeppni lækkar verð til neytenda, en vísitala neyslu án húsnæðis hefur lækkað um 3% á 12 mánuðum.
Ég sé að sumir spyrja hvers vegna þeir eigi að kjósa Viðreisn? Svarið við því er auðvelt. Fáir flokkar hafa staðið jafn vel við sína stefnu. Auðvitað er nauðsynlegt að hafa málamiðlanir í samsteypustjórn, en Viðreisn tókst að ná ótrúlega mörgum af sínum málum í gegn á stuttum starfstíma. Grunngildi eru yfirleitt fyrst og fremst almennar yfirlýsingar um stefnu, en þar sem Viðreisn hafði tækifæri til þess að koma að málum var stefnan framkvæmd svikalaust.
1.Allir skulu hafa rétt til góðrar heilbrigðisþjónustu, menntunar og félagslegrar þjónustu. Lífskjör á Íslandi verði svipuð og í nágrannalöndum og gróska í menningarlífi.
Efndir: Þátttaka sjúklinga í heilbrigðiskostnaði lækkaði í maí. Framlög til menntunar, heilbrigðisþjónustu og almannatrygginga eru aukin í fjárlagafrumvarpi og tryggt fjármagn í nýjan Landspítala. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aldrei verið meiri. Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttisráðherra Viðreisnar, lagði fram og fékk samþykkta jafnlaunavottun, sem tryggir að launamunur kynjanna mun ekki líðast lengur innan fyrirtækja. Hann hafði líka lagt fram frumvarp um aðstoð við fólk með mikla fötlun (NPA), frumvarp sem aðrir flokkar treystu sér ekki til þass að klára sem lög, þó að sátt væri um málið. Þorsteinn hafði líka boðað hækkun frítekjumarks aldraðra og örorkulífeyrisþega í áföngum.
2.Stöðugt efnahagslíf og fjölbreytt atvinnutækifæri. Sköpun verðmæta með hugviti og skynsamlegri nýtingu auðlinda til framtíðar. Hallalaus fjárlög og skuldir ríkisins lækkaðar.
Efndir: Undir stjórn fjármálaráðherra Viðreisnar hefur lánshæfismat ríkisins hækkað tvisvar á árinu, en það skapar grunn undir minni vaxtakostnað ríkisins. Fjárlagafrumvarp er með meiri afgangi en áður eru dæmi um og skuldir ríkisins hafa verið greiddar niður um yfir 15% á árinu eða um 200 milljarða króna. Skuldir ríkisins eru með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Vaxtabyrði ríkisins hefur lækkað um nærri 10 milljarða króna.
3.Markaðslausnir þar sem við á, gjaldeyrishöft felld niður, engar samkeppnishindranir. Frelsi, jafnrétti, lýðræði og jafn atkvæðisréttur fyrir alla.
Efndir: Gjaldeyrishöft voru felld niður aðeins átta vikum eftir að ríkisstjórnin tók við. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra Viðreisnar, kom í veg fyrir 500 milljóna útgjöld ríkisins með því að segja skýrt að sjómannadeilan yrði leyst milli sjómanna og útgerðarmanna, án aðkomu ríkisins. Síðar á árinu lagði Þorgerður sem landbúnaðarráðherra fram lausn á vanda sauðfjárbænda sem setti hagsmuni neytenda í öndvegi á sama tíma og bændum var rétt hjálparhönd og reynt að ráðast að rót vandans.
4.Þjóðin greiði strax atkvæði um hvort ljúka skuli viðræðum um fulla aðild að Evrópusambandinu til þess að ná megi aðildarsamningi sem borinn verði undir þjóðina.
Efndir: Í stjórnarsáttmála var ákvæði um að slík tillaga kæmi fram á síðasta ári kjörtímabilsins. Okkur auðnaðist ekki að komast svo langt, en það er enginn vafi á því að þjóðin vill ákveða framhaldið sjálf. Við verðum að hafa sterka talsmenn náinnar Evrópusamvinnu á Alþingi.
—
Þess vegna er valið auðvelt. Enginn vafi er á því að mestur árangur á þessu stutta kjörtímabili er í efnahagsmálum, velferðarmálum og sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum; einmitt þeim málaflokkum sem Viðreisn stýrir.
Þeir sem vilja standa vörð um góðan árangur í efnahagsmálum og halda áfram að sækja fram í velferðarmálum eiga að kjósa þann flokk sem hefur sýnt að honum er treystandi til þess að standa við stóru orðin: X-C og Viðreisn eru svarið.