10 okt Spurt og svarað um myntráð
Inngangur
Hér á eftir er reynt að svara nokkrum spurningum sem hefur verið varpað fram í umræðunni um myntráðshugmyndina. Ekki er reynt að gera öllum álitamálum skil og því síður er um tæmandi greiningu að ræða. Peningastefnan er mikilvægur hluti af efnahagsumgjörðinni og nauðsynlegt að nálgast umræðuna með opnum huga. Þessi samantekt hvetur lesandann vonandi til að spyrja fleiri spurninga og leita svara áður en afstaða er tekin.
Hver er tilgangurinn með myntráði?
Myntráð er tæki til að vernda verðgildi peninga með bindingu gengisins við sterkan og stöðugan erlendan gjaldmiðil sem nýtur trausts á alþjóðavettvangi. Myntráð er ekki eina tækið til gengisbindingar og gengisbinding er ekki eina aðferðin til að tryggja stöðugt verðgildi peninga. Gengisbinding með víðum vikmörkum líkt og gert var hérlendis á tíunda áratugnum og binding dönsku krónunnar við evru með mjög þröngum vikmörkum eru dæmi um aðrar aðferðir við gengisbindingu. Verðbólgumarkmið er dæmi um tæki til að ná verðstöðugleika án gengisbindingar.
Hvaða skilyrði þarf hefðbundið myntráð að uppfylla?
Hefðbundið myntráð (e. orthodox currency board) er fastgengisstefna sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
- Gengi gjaldmiðilsins – krónunnar – er fest við viðmiðunarmynt t.d. evru án vikmarka.
- Tryggð eru hindrunarlaus skipti á krónum fyrir evrur og öfugt á þessu fasta gengi.
- Peningalegar skuldbindingar (seðlar og mynt auk allra krafna sem jafngilda seðlum og mynt, svo sem innstæður í seðlabanka) þurfa að vera baktryggðar að fullu með seðlum eða auðseljanlegum eignum í viðmiðunarmyntinni.
Hefðbundið myntráð stundar auk þess ekki viðskipti með verðbréf í innlendri mynt t.d. með innlend ríkisskuldabréf, stýrir ekki regluverki bankakerfisins eða fer í hlutverk lánveitanda til þrautavara. Talað er um myntráðslíki þegar vikið er frá skilyrðum hefðbundins myntráðs.
Myntráðsfyrirkomulag gerir krónuna jafngilda evru í viðskiptum og hún nýtur nánast sama trúverðugleika og evra sem traustur gjaldmiðill (e. sound money) með föstu verðgildi. Það virðist ekki þurfa að stækka núverandi gjaldeyrisforða til að fullnægja skilyrðum um baktryggingu fyrir íslenskt myntráð.
Vandaður lagarammi um starf myntráðs er mikilvægur svo hægt sé að treysta því fullkomlega að stjórnvöld tryggi frjáls viðskipti á milli evru og krónu á fyrirfram föstu gengi. Í þessu felst meðal annars að hæfilegur gjaldeyrisforði verði eingöngu nýttur til tryggingar viðskiptanna. Hins vegar þarf trúverðugleiki myntráðs ekki að skerðast þótt skipt sé um viðmiðunarmynt t.d úr evru í dal ef verulegs óstöðugleika gætir í viðmiðunarmyntinni eða utanríkisviðskipti færast að meirihluta í annan gjaldmiðil. Með myntráði eru frjáls viðskipti með gjaldeyri tryggð og ekki lagðar hömlur á fjármagnsflutninga (umfram viðurkenndar reglur EES um þjóðhagsvarúð).
Sterkt og vel fjármagnað bankakerfi er mikilvæg undirstaða fyrir myntráðsfyrirkomulag. Bankar geta ekki treyst á lánafyrirgreiðslu frá seðlabanka og verða því að haga fjármögnun og lánastarfsemi út frá því. Mikil styrkur fyrir lítið land með myntráð er að hluti banka sé í eigu öflugra erlendra aðila jafnframt því að innlendir bankar geti vaxið og dafnað út fyrir landsteinana.
Hvað greinir myntráð frá annarri fastgengisstefnu?
Myntráð ver fastan forða af íslenskum krónum og það er beintenging milli peningaútgáfu og myntráðs þannig að peningaútgáfa er eingöngu samþykkt gegn innlögn/tryggingu í viðmiðunarmyntinni. Myntráðið tryggir frjáls skipti á milli viðmiðunarmyntarinnar og innlenda gjaldmiðilsins á fyrirfram ákveðnu föstu gengi. Í myntráðsfyrirkomulagi er gengið fest við viðmiðunarmyntina án umtalsverðra vikmarka og peningar eru baktryggðir að fullu með viðmiðunarmyntinni (gjaldeyrisvarasjóði). Myntráðið tekur engan þátt í viðskiptum á gjaldeyrismarkaði.
Annars konar gengisbinding getur haft frjálslegri reglur um peningaútgáfu þar á meðal leyft veð/tryggingar önnur en samsvarandi (samkvæmt fasta genginu) upphæð í viðmiðunarmyntinni. Í því tilfelli er reynt að verja samanburðarstærð það er mismun eða hlutfall á milli verðgildis krónu og annarrar myntar eða myntkörfu. Slík gengisbinding eða fastgengi (e. peg) er yfirleitt útfært með því að setja vikmörk miðað við einn eða fleiri erlenda gjaldmiðla. Seðlabanki stundar síðan viðskipti á gjaldeyrismarkaði eftir þörfum til að halda gengi innlenda gjaldmiðilsins innan vikmarkanna. Grundvallarsérstaða myntráðs er fastari tök á innlendri peningaútgáfu en í öðru fastgengisfyrirkomulagi.
Einhliða upptaka annars gjaldmiðils svo sem evru er einnig leið að gengisbindingu. Með þessari aðferð er innlendi gjaldmiðillinn aflagður. Þessi aðferð er um margt lík myntráði en hún er ósveigjanlegri og kostnaðarsamari en myntráð, meðal annars tapast umtalsverður myntsláttuhagnaður úr landi.
Er myntráð dýrt og flókið kerfi?
Þvert á móti þá er myntráðsfyrirkomulag mjög einföld leið til að tryggja traust og stöðugleika gjaldmiðilsins. Í einföldustu mynd er myntráð fámenn stofnun, einskonar vöruhús, sem hefur það eina hlutverk að varðveita og ávaxta gjaldeyrisforða og sjá um seðla og mynt auk skipta á milli krónu og evru gegnum viðskipti við banka.
Er hægt að spekúlera gegn myntráði?
Það er ekki hægt að spekúlera gegn myntráði með sama hætti og gegn hefðbundinni fastgengisstefnu þegar seðlabanki reynir að verja ákveðin vikmörk líkt og gert var á tímum fastgengisstefnunnar hér á landi fyrir aldamótin. Peningaútgáfa með veðum í öðru en gjaldeyri (viðmiðunarmyntinni) gerir spákaupmönnum mögulegt að safna heimamynt umfram það sem gjaldeyrisforði getur varið. Í myntráðsfyrirkomulagi er ekki hægt að safna slíkum upphæðum þar sem óvarin peningaútgáfa er ekki til.1
Í myntráðsfyrirkomulagi er ekkert verðbil til að verja og forði myntráðsins nægir alltaf til að bakka upp krónur sem eru lausar í hagkerfinu. Hins vegar ef markaðurinn telur að stjórnvöld muni ekki standa að baki myntráðsins getur fjármagnsflótti hafist sem í ýtrustu mynd leiddi til þess að myntráðið sæti uppi með allar krónueignir en engan gjaldeyrisforða. Slíkt ástand er þó ekki mögulegt til lengdar þar sem fyrirtæki og almenningur þurfa að borga skatta og skyldur í krónum og því myndi gjaldeyrir streyma aftur inn í myntráðið. Fá dæmi eru um að myntráð hafi fallið í langri sögu þeirra. Helst er að varast reynslu Argentínu þar sem stjórnvöld sjálf grófu undan myntráðslíkinu, sem þar var sett á fót áratug fyrr, með óábyrgri fjármálastefnu.
Hvað fæst með fasttengdum gjaldmiðli við evru?
Með myntráði verður til staðlaður mælikvarði verðmæta sem eykur allt hagræði líkt og metrakerfið í dag. Einstaklingar og fyrirtæki geta gert áætlanir fram í tímann og verðmæti peningaeigna geta ekki rýrnað meira en sem nemur verðbólgu í evrulandi. Sterkur og trúverðugur gjaldmiðill (e. sound money) er forsenda fyrir grósku í viðskiptum innanlands og utan. Sú hugmynd að ónýtur gjaldmiðill leysi efnahagsvandamál gengur í berhögg við reynslu sögunnar. Lausatök í peningaútgáfu og samsvarandi bólumyndun eykur ójöfnuð í tekju- og eignaskiptingu þar sem auðmenn hafa alltaf betri aðstöðu til að vera fyrstir í röðinni til að njóta aukins aðgengis að lánsfé áður en verðbólga eyðir kaupmættinum eftir peningainnspýtingu. Þetta sést meðal annars í aukinni tekjumisskiptingu í Bandaríkjunum í kjölfar mikillar peningaprentunar og samsvarandi hækkunar hlutabréfaverðs eftir 2008 kreppuna.
Myntráðsfyrirkomulag er einfalt og traust peningakerfi sem hentar einkar vel litlum opnum hagkerfum með fábreytt atvinnulíf og grunnum fjármagnsmörkuðum. Sjálfstæð peningastefna með fljótandi gengi virðist ekki geta tryggt viðunandi gengisstöðugleika nema innan viðskiptahafta. Vissum sveigjanleika er að vísu fórnað með myntráði þar sem gengisfelling er ekki lengur úrræði til að rétta af viðskiptahalla eða gengishækkun úrræði til að lækka verðbólgu. Hagstjórn í myntráðsfyrirkomulagi eða við einhliða upptöku annars gjaldmiðils gerir svipaðar kröfur og var á tímum gullfótarins. Sama á við eftir inngöngu í evrusvæðið, en þar eru sterkir bakhjarlar sem gilda ekki fyrir myntráð landa utan evrusvæðisins.
Í þessu sambandi er rétt að líta til hugmyndafræðinnar á bak við þýska efnahagsundrið eftir stríð. Áhersla var lögð á frjálsa samkeppni (án sigurvegara) og markaðsbúskap en ekki var litið á frjálsan markað sem tilgang í sjálfu sér heldur sem tæki til að bæta lífskjör almennings. Traustur gjaldmiðill var talin forsenda framfara sem og samfélagsleg ábyrgð aðila vinnumarkaðarins. Ludwig Erhard sagði: „Félagslegur markaðsbúskapur er óhugsandi án rökréttrar peningastefnu sem miðar að því að tryggja verðgildi peninganna.“2 Þessi gildi voru og eru enn hornsteinar að þýska velferðarríkinu og ættu að vera til fyrirmyndar hér á landi.
Hvaða viðmiðunarmynt á að nota?
Evruríki auk Danmerkur, sem er fasttengd evru, eru langstærsti útflutningsmarkaður Íslendinga og því fæst mest lækkun viðskiptakostnaðar með evrutengingu. Dalur hefur að vísu svipað vægi og evra sem uppgjörsmynt í útflutningi einkum vegna áls og ferðaþjónustu. Frá þeim sjónarhóli kæmi til greina að nota fleiri en eina viðmiðunarmynt en það flækir umgjörð myntráðsins án verulegs ávinnings þar sem lítill kostnaður fylgir skiptum á milli evru og dals á markaði. Tenging við evru er einnig eðlilegt viðmið vegna aðgengis landsins að innri markaði ESB. Loks er myntráð við evru góður undirbúningur fyrir upptöku evru þegar að því kemur.
Á hvaða gengi á að festa evruna?
Hér þarf að velja gengi sem að bestu manna yfirsýn er nálægt jafnvægisgengi það er að segja gengi sem tryggir nokkurn veginn stöðugleika í utanríkisskiptum og viðheldur samkeppnishæfni útflutningsatvinnuvega. Sennilega er betra að hafa borð fyrir báru og velja gengi sem er heldur í lægri kantinum og gefur svigrúm til raungengishækkunar án viðskiptahalla. Of stutt er síðan fjármagnshöft voru afnumin til að styðjast eingöngu við markaðsgengi til dæmis meðaltal síðustu mánaða. Markaðsgengi verður þó ávallt fyrsta viðmið.
Hvað verður um stýrivexti?
Í myntráðsfyrirkomulagi er ekki reynt að stýra heildareftirspurn með vöxtum. Þar sem viðskipti með gjaldeyri eru frjáls sem og fjármagnsflutningar verða markaðsvextir svipaðir hér og innan ESB þótt áhættuálag verði ávallt heldur hærra í litlu hagkerfi.
Þarf að halda verðtryggingu?
Verðtrygging var framfaraspor á sínum tíma vegna stjórnleysis í peningamálum og verðbólgu sem át upp peningalegan sparnað landsmanna. Forsendur eru nú aðrar og verðbólga lág. Með upptöku myntráðs fæst stöðugleiki til lengri tíma þó verðbólga geti enn bært á sér. Þar sem skuldir í krónum verða gengistryggðar er engin þörf að tryggja lengur með vísitölu neysluverðs. Óþarft er að banna verðtryggingu en hún gæti helst nýst á mjög löngum lánum hins opinbera til dæmis yfir 30 ár Athuga ber að eingöngu peningakröfur eru tryggðar beint með evrum af myntráðinu. Skuldabréf og aðrar eignir eru háðar markaðsverðum með sama hætti og verið hefur.
Þarf seðlabanka í myntráðsfyrirkomulagi?
Líkt og seðlabankar í nágrannalöndunum hefur Seðlabanki Íslands ýmis önnur verkefni en að framfylgja peningastefnunni svo sem rekstur stórgreiðslukerfis, eftirlit tengt fjármálastöðugleika, samskipti við matsfyrirtæki, lánaumsýslu, hagrannsóknir og hagsýslugerð. Þótt tæknilega séð megi útvista og fela öðrum aðilum megnið af þessari starfsemi er vafasamt að mikill sparnaður eða hagræði hljótist af því. Þó er ljóst að ekki verður þörf fyrir tíðar verðbólguspár og samsvarandi útgáfur í myntráðsfyrirkomulagi auk þess sem peningastefnunefnd verður lög niður. Upptaka myntráðs mun því leiða til sparnaðar á ýmsum sviðum. Verði myntráð rekið af Seðlabankanum þarf að gæta að því að starfsemi myntráðsins við að tryggja skipti á milli krónu og evru og vörslu gjaldeyrisforða til tryggingar þeirra viðskipta sé skilin frá annarrar starfsemi Seðlabanka. Með eldvegg þar á milli getur Seðlabanki t.d séð um innstæður og reikninga bankastofnana vegna reksturs stórgreiðslukerfis og hugsanlega veitt takmarkaða lausafjárfyrirgreiðslu með gjaldeyrisforða sem er umfram það sem þarf til að tryggja skiptanleika krónunnar auk þess að draga úr vaxtasveiflum á millibankamarkaði. Skiptar skoðanir hafa verið um það hvort fjármálaeftirlit eigi að vera á einum stað í Seðlabanka. Það er ekki hlutverk myntráðs að sjá um fjármálaeftirlit og eðlilegt að slík starfsemi sé á öðrum vettvangi.
Vantar ekki lánveitanda til þrautavara í myntráðsfyrirkomulagi?
Hugmyndin á bak við hlutverk seðlabanka sem lánveitanda til þrautavara er að hægt sé að koma til hjálpar banka sem lendir í lausafjárvandræðum og forðast þannig ótímabært gjaldþrot sem getur grafið undan trausti á fjármálageiranum og verið mjög kostnaðarsamt fyrir samfélagið. Til að réttlæta slíka aðstoð þarf að ganga úr skugga um að bankinn sé gjaldfær (e. solvent) þannig að hann nái vopnum sínum fljótlega eftir innspýtingu lausafjár sem kemur úr peningaprentsmiðju seðlabanka.
Í kreppunni 2008 reyndi mjög á getu seðlabanka til að vera lánveitendur til þrautavara sérstaklega þar sem talið var að mörg fjármálafyrirtæki/bankar væru of stór til að samfélagið þyldi gjaldþrot þeirra (e. too big to fail). Seðlabankar Bandaríkjanna og evrusvæðisins eru í þeirri aðstöðu að geta prentað ótakmarkað magn af peningum sem umheimurinn tekur við þegjandi og hljóðalaust. Þetta geta seðlabankar í litlum myntsvæðum ekki gert, þeirra áhætta í hlutverki lánveitanda til þrautavara er margföld. Vandinn er sá að á óvissu tímum getur verið erfitt að meta með stuttum fyrirvara hvort bankastofnun í erfiðleikum er í reynd gjaldfær þannig að lausafjárfyrirgreiðsla gagnist vel, að öðrum kosti geta miklir fjármunir tapast eins og t.d. reynslan úr bankahruninu hér heima sýndi. Vegna þessa ætti björgun banka í litlum hagkerfum að vera pólitísk ákvörðun á vegum hins opinbera en ekki peningastefnumál í verkahring seðlabanka eða myntráðs. Að vísu getur seðlabanki í myntráðsfyrirkomulagi veitt takmarkaða lausafjárfyrirgreiðslu ef gjaldeyrissjóðurinn er stærri en þarf til að baktryggja krónuna. Loks ber að athuga að eftir kreppuna 2008 hafa lausafjárreglur innan ESB verið hertar til muna og eftirlit aukið. Líkur á óvæntri lausafjárkreppu ættu að hafa minnkað og þar með minnkað þörf fyrir lánveitanda til þrautavara hvort sem hann er seðlabanki eða ríkissjóður.
Er ekki nauðsynlegt að geta fellt gengið til að mæta efnahagsáföllum?
Stöðugt gengissig og virðisrýrnun gjaldmiðilsins hefur einkennt hagsöguna lengst af. Þetta sig hefur verið meira og minna afleiðing af peningaprentun og verðbólgu sem leiddi af útlánaþenslu og halla á rekstri hins opinbera. Ytri áföll svo sem olíukreppa og aflabrestur hafa einnig haft áhrif. Tvisvar hafa alvarleg áföll dunið yfir þar sem veruleg gengisfelling var afleiðing. Í fyrra sinnið þegar aflabrestur, aðallega í síldveiðum, og verðfall á mörkuðum leiddi til verulegrar lækkunar á útflutningstekjum árin 1966-1968. Þá töldu stjórnvöld að besta ráðið væri veruleg gengisfelling. Mikil gengisfelling kom þó ekki í veg fyrir stórfellt atvinnuleysi og fólksflótta einkum iðnaðarmanna til annarra landa. Til allrar hamingju bötnuðu viðskiptakjörin von bráðar og afli jókst svo að lífskjaraskerðingin gekk fljótt til baka. Hitt skiptið var manngert bankahrun 2008. Þrátt fyrir verulegt gengisfall jókst atvinnuleysi margfalt og fjöldi Íslendinga leitaði atvinnu erlendis. Mikil aukning í ferðaþjónustu og hagstæð ytri skilyrði sneru þessari þróun við á fáum árum.
Til samanburðar má skoða feril Lettlands í niðursveiflunni árið 2008. Peningastefnan var myntráðslíki eða fastgengi við evru með mjög þröngum vikmörkum. Lettar ákváðu að halda fastgenginu gegnum kreppuna en í staðinn voru færð niður laun og dregið úr útgjöldum hins opinbera. Eftir miklar þrengingar tókst Lettum að vinna sig út úr kreppunni og taka síðan upp evru. Þetta skref hefði verið mun erfiðara ef látið hefði verið undan miklum þrýstingi að bjarga málunum með gengisfellingu. Þótt gengisfellingarhugsunarhátturinn sé rótgróinn meðal íslenskra stjórnmálamanna og hagfræðinga er fátt sem bendir til þess að þessi aðferð við hagstjórn sé nauðsynleg eða æskileg til að vinna bug á kreppum.
Er ekki óráð að taka upp myntráð við evru af því að hagsveiflan er önnur hér en á evrusvæðinu?
Hvað átt er við hagsveiflu í þessu sambandi er ekki alveg ljóst. Hugsunin virðist vera sú að þegar uppsveifla sé á evrusvæðinu en niðursveifla hér þurfi vextir að vera háir á evrusvæðinu og lágir á Íslandi og öfugt, þar með skapist vandamál. Á sínum tíma lagði breski hagfræðingurinn Keynes mikla áherslu á að vextir væru lækkaðir sem viðbrögð við kreppu og atvinnuleysi (þegar framleiðslugeta væri ekki fullnýtt). En til þess að beita vaxtatækinu þyrfti helst að einangra hagkerfið frá umheiminum, það er vaxtatækið virkar ekki nema höft séu á viðskiptum við önnur lönd einkum fjármagnshöft.3 Þetta er mergur málsins; ef fjármagn flæðir óhindrað á milli landa er ekki hægt að hækka vexti umfram það sem gerist erlendis nema ráðstafanir séu gerðar til að hindra vaxtamunarviðskipti og lántökur í erlendri mynt. Samsvarandi er ekki hægt að lækka vexti án þess að hindra útstreymi fjármagns í leit að betri ávöxtun.
Hagvöxtur er ávallt ójafn í landfræðilegu víddinni hvort sem er litið til landa, landsvæða eða jafnvel einstakra borga og héraða. Hagvöxtur er mjög mismunandi eftir ríkjum Bandaríkjanna sem og milli landa og héraða evrusvæðisins þótt sama myntin sé notuð. Raungengi sveiflast í takt við gengi atvinnulífs ekki síst gegnum eignaverð svo sem fasteignaverð. Vaxtatækið getur ekki jafnað hagvöxt milli landa og landsvæða. Stöðug aðlögun að raungengisbreytingum er eðlilegur hluti af starfsemi frjáls markaðar.
Það þarf ekki að vera verra að tengjast svæði með aðra hagsveiflu. Það er auðveldara að vinna sig út úr niðursveiflu hér ef eftirspurn eftir útflutningsvörum er vaxandi í viðskiptalöndunum. Uppsveifla í nágrannalöndunum hefur auðveldað atvinnulausum Íslendingum að bæta lífskjör sín þegar illa hefur árað hér á landi. Fjölbreytt atvinnulíf, frjálst flæði vinnuafls og traust fjármálastjórn hins opinbera auk sterkra banka færir hagkerfinu þann sveigjanleika sem vinnur gegn neikvæðum áhrifum mismunar á hagsveiflu ef einhver er.
Búa Íslendingar yfir þeim aga, líkt og t.d Danir hafa sýnt, sem þarf til að viðhalda fastgengisstefnu?
Margir telja þetta atriði einn helsta veikleika fastgengishugmyndarinnar hvort sem hún verður framkvæmd með myntráði eða öðrum hætti. Oft á tíðum hefur kaupgjald hækkað langt umfram verðmætasköpun þjóðarbúsins og fjármál hins opinbera verið í ólestri sem hefur kallað á verðbólgu og skuldasöfnun jafnframt því sem útlán banka hafa aukist langt umfram innlán. Niðurstaðan er svo gengisfelling til að rétta kúrsinn af. Það er að sjálfsögðu ekki galli á myntráðshugmyndinni að ætlast sé til aga í ríkisfjármálum og hófsemi í launakröfum á vinnumarkaði.
Stöðugleiki í tengslum við fastgengisstefnu kallar á að almennar launahækkanir séu í takt við verðmætasköpun þjóðarbúsins og jafnvægi ríki í fjármálum hins opinbera. Ef menn kjósa óstöðugleika og kollsteypur getur engin peningastefna hindrað slíkt. Svo nefnt Salek samkomulag og fjármálastjórn t.d. gegnum fimm ára rammafjárlög eru mikilvæg skref í átt að stöðugleika. Niðurstaðan úr komandi samningaviðræðum á vinnumarkaði eru prófsteinn á það hvort fastgengisstefna geti þrifist. Í stað þess að einblína á nafnhækkanir launa þurfa aðilar vinnumarkaðarins að huga meira að umgjörð samfélagsins og framtíðarskipan. Tækniframfarir svo sem notkun vélmenna og breytt verðmætamat svo sem áhersla á samveru fjölskyldunnar og styttri vinnutíma kalla á breytingar á skiptingu lífsgæða hvernig sem þeirra er aflað eða af hverjum.
Ef aukinn agi í hagstjórn er forsenda fyrir fastgengisstefnu og hægt er að ná þjóðarsátt um slíkt getur slík þjóðarsátt ekki líka tryggt betri árangur núverandi peningastefnu þannig að óþarft sé að skipta um peningastefnu?
Bættur agi í hagstjórn hér myndi vissulega nýtast vel fyrir núverandi peningastefnu þar sem meginmarkmið Seðlabankans er að halda verðlagi stöðugu sem næst 2,5% verðbólgumarkmiðinu. Helsta stýritæki Seðlabankans eru vextir í viðskiptum við fjármálafyrirtæki. Meðal annarra stýritækja eru t.d. bindiskylda og inngrip á gjaldeyrismarkaði. Peningastefnan þarf að vera framsýn og því eru vandaðar hagspár einnig mikilvægt stýritæki. Í núverandi fyrirkomulagi er erfiðara að halda verðgildi gjaldmiðilsins stöðugu vegna þess að utanríkisviðskipti vega mjög þungt í þjóðarbúskapnum og útflutningstekjur og innflutningsverð því afgerandi fyrir almennt verðlag. Í öðru lagi er gjaldeyrismarkaðurinn mjög lítill og því ruggar báturinn auðveldlega í litlum viðskiptum. Í þriðja lagi getur mikill vaxtamunur við útlönd ekki staðist til lengdar ef fjármagnsflutningar eru frjálsir. Til að innlendir vextir nái að bíta að gagni gegn verðbólgu verður að setja einhverjar hömlur á viðskipti með erlent lánsfé.
Í stórum þróuðum hagkerfum eru fjármagnsmarkaðir djúpir, innlend framleiðsla fjölbreytt og vægi utanríkisviðskipta, einkum með frumframleiðslu, mun minna en í smáríkjum. Í þannig hagkerfum er einhliða fasttenging við gjaldmiðil annars lands (utan myntsvæða) ekki endilega besti kosturinn og margir telja að betri árangri í hagstjórn megi ná með sjálfstæðum seðlabanka og verðbólgumarkmiði. Fyrir lítið opið hagkerfi er myntráðsfyrirkomulag hins vegar áhrifarík leið til að tryggja traust á gjaldmiðlinum og verðgildi hans.4
Er einhver trygging fyrir því að myntráðsfyrirkomulag dugi betur en fastgengisstefnan sem var á tíunda áratugnum?
Í kjölfar þjóðarsáttarinnar 1990 var ákveðið að festa gengið með +- 2,25% vikmörkum en þau voru lítið notuð í fyrstu. Árið 1993 var settur upp gjaldeyrismarkaður. Gengið var fellt í nóvember 1992 um 6% og júlí 1993 um 7%. Eftir það hélst gengi og verðlag tiltölulega stöðugt út áratuginn. Í september 1995 voru vikmörkin víkkuð í +- 6%. Snemma árs 2000 voru vikmörkin aukin í +- 9%; hugmyndin var að leyfa styrkingu gengisins sem hefði dregið úr verðbólguþrýstingi sem var farið að gæta vegna mikilla hækkana á launum og aukinnar fjárfestingar. Fljótlega fór þó gengið að veikjast. Í upphafi ársins 2001 myndaðist meiri þrýstingur á gengið ekki síst vegna orðróms um að skipt yrði um peningastefnu. Seðlabankinn lýsti yfir því að vikmörkin yrðu varin og var hluta gjaldeyrisvarsjóðsins varið í þá vörn rétt áður en tilkynnt var um breytingu á peningastefnunni og gengið látið fljóta. Á fastgengistímabilinu beitti Seðlabankinn vöxtum, inngripum og öðrum stýritækjum við stjórn peningamála.
Í myntráðsfyrirkomulagi eru engin vikmörk að verja, vextir ráðast á markaði og svigrúm markaðarins til að ráðast gegn genginu er lítið sem ekkert. Að þessu leyti er myntráðsfyrirkomulag mun traustara fyrirkomulag en veiktengdari fastgengisstefna. Hins vegar gildir að staðfastur stuðningur stjórnvalda og atvinnulífsins við fastgengið eða myntráð er undirstaða fyrir trausti markaðarins á peningastefnunni og þeim stöðugleika sem fastgengi getur veitt.
Hvar hafa myntráð verið við lýði?
Myntráð hafa verið í notkun um lengri eða skemmri tíma í um 70 löndum. Mest voru þau notuð í nýlendum á fyrri hluta síðustu aldar. Írska lýðveldið notuði myntráð einna lengst allra eða í hálfa öld (1928-1979). Myntráð eða myntráðslíki voru í Eystrasaltslöndunum áður en þau tóku upp evru. Nú eru myntráð eða myntráðslíki starfandi í Hong Kong, Búlgaríu, Mið-Afríku ríkjum, eyríkjum í karabíska hafinu, og víðar. Líta má svo á að ríki heims hafi notað myntráð við gull á tímum gullfótarins. Jafnframt var Bretton Woods kerfið óbeint myntráð við gull gegnum Bandaríkjadal. Þessi kerfi tryggðu mikinn hagvöxt og aukningu alþjóðaviðskipta á sínum tíma.
Hvað með Argentínu?
Argentína er nægtaland af náttúruauðlindum, mannauði og landrými og var áður fyrr eitt af ríkustu löndum heims. Hins vegar hefur oft á tíðum ríkt glundroði í stjórn efnahagsmála og hagvöxtur verið afar sveiflukenndur. Árið 1991, eftir tímabil óðaverðbólgu, var sett á fót myntráð eða öllu heldur myntráðslíki í umsýslu seðlabanka Argentínu (kallað þarlendis Skiptanleika Skipulag e. Convertibility Plan). Viðmiðunarmyntin var Bandaríkjadalur einn dalur= einn pesos og var dalurinn lögeyrir í landinu jafnhliða heimamyntinni. Árangurinn af upptöku myntráðsins birtist fljótlega í lágri verðbólgu, auknum útflutningi, bættum ríkisfjármálum og almennum hagvexti. Þegar Mexíkókreppan skall á 1995 með miklum smitáhrifum varð fjárflótti úr argentínska bankakerfinu og þrýstingur myndaðist á myntráðið sem stóð af sér mikla en skammvinna niðursveiflu. Eftir Asíukreppuna 1998 fór að halla aftur undan fæti, traust á sjálfbærni ríkisfjármálanna hvarf vegna vaxandi hallareksturs og skuldasöfnunar og fólk kaus að flytja eignir í dali eða úr landi. Jafnframt versnaði samkeppnisstaða útflutningsgreina verulega á Brasilíumarkaði, sem var stærsti útflutningsmarkaðurinn, vegna mikillar gengisfellingar gjaldmiðils þeirra meðan dalurinn styrktist verulega. Með greiðslufalli hins opinbera á erlendum skuldum var fótunum endanlega kippt undan myntráðinu og það aflagt í ársbyrjun 2002 og gengið sett á flot og lækkaði þegar um 40%.
Mikið hefur verð fjallað um kreppuna í Argentínu og fall argentínska myntráðsins. Sýnist sitt hverjum um þátt peningastefnunnar í þeirri atburðarás. Sumir kenna allt of háu og ósveigjanlegu gengi um slæma skuldastöðu og laka samkeppnisstöðu útflutningsatvinnuvega (útflutningur nam þó aðeins um 10% af landsframleiðslu). Verjendur fastgengisstefnunnar benda hins vegar á útflutningur hafi ekki dregist saman þrátt fyrir gengisfellingu samkeppnislanda. Þeir segja einnig að fyrirkomulag argentínska myntráðsins hafi ekki verið í samræmi við leikreglur hefðbundins myntráðs. Frávikin hafi stuðlað að vantrausti á peningastefnuna og magnað veikleika í bankakerfinu.
Hvað sem líður hlutverki peningastefnunnar þá eru fræðimenn yfirleitt sammála um að óstjórn í ríkisfjármálum sé meginskýringin á efnahagsvandamálunum og falli myntráðsins um aldamótin.
Efnahagskreppan var mjög djúp í upphafi aldarinnar en nokkuð tók að birta til er líða tók á fyrsta áratuginn þótt verðbólga færi vaxandi. Kringum 2011 sigldi þó allt í strand á nýjan leik vegna mikillar óstjórnar í opinberum fjármálum. Efnahagsstarfsemin dróst saman og verðbólgan náði 40% árið 2015. Ný ríkisstjórn tók við 2016 sem stefndi að viðreisn efnahagslífsins. Höft voru meðal annars afnumin og tekið upp verðbólgumarkmið.5
Hagsaga Argentínu og saga myntráðsins þar er um margt einstök. Því fer fjarri að þetta eina tilvik um misheppnað myntráðsfyrirkomulag í langri og farsælli sögu myntráða dæmi myntráðshugmyndina úr leik. Samt sem áður þarf að draga lærdóma af hagsögu Argentínu ekki síst ef stefnt er að upptöku myntráðs.
1 Danski seðlabankinn beitir ýmsum stýritækjum til að hindra slíka uppsöfnun heimamyntar en þeir hafa fastgengi við evru með þröngum vikmörkum.
2 Jakob F. Ásgeirsson, 2008, Þjóð í Höftum, útg. Ugla, bls. 290.
3 Áhrifin á framboð lánsfjár verða minni ef framvirkir markaðir eru virkir sem er sjaldan tilfellið í litlu hagkerfi. Vaxtagjöld (til útlanda) verða samt ávallt mjög há.
4 Sjá t.d. Williamson, John.1995. What Role for Currency Boards? Institue for International Economics, Washington D.C., p. 31-34.
5 Aðgerðir stjórnvalda og staða mála er rædd ítarlega í skýrslu AGS frá 2016: http://www.imf.org/en/Publications/CR/Issues/2016/12/31/Argentina-2016-Article-IV-Consultation-Press-Release-Staff-Report-and-Statement-by-the-44386.