22 okt Viðreisn sýnir á spilin
Viðreisn kynnti í dag áherslur sínar fyrir kosningarnar, kostnað ríkisins af breyttum áherslum og hvernig kostnaði verður mætt á næsta kjörtímabili.
Helstu áherslur Viðreisnar ganga út á að lækka kostnað heimila af vöxtum og matarinnkaupum. Benti Þorsteinn Víglundsson oddviti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður á að væru vaxtamál og verðlag landbúnaðarvara með sama hætti og á öðrum norðurlöndum, myndu útgjöld fjögurra manna fjölskyldu lækka um um það bil 150 þúsund krónur á mánuði. Þessar miklu breytingar á högum fólksins í landinu fela ekki í sér kostnað fyrir ríkissjóð. Viðreisn býður almenningi upp á vaxtareiknivél á netinu á slóðinni www.vidreisn.is/vextir.
Tillögurnar sýna stöðu ríkisfjármálanna árið 2021, í lok komandi kjörtímabils, og byggja á gildandi fjármálaáætlun. Til viðbótar við útgjaldaaukningu sem þar er að finna telur Viðreisn að bæta þurfi 11,5 milljörðum inn í heilbrigðis-, velferðar-, menntakerfi, byggðamál og löggæslu. Þessi hækkun kemur ofan á á þegar fjármagnaða hækkun í málaflokkunum upp á 64 milljarða, sem gert er ráð fyrir í fjármálaáætlun.
Þá vill Viðreisn lækka tryggingagjald á fyrirtæki um hálft prósent en við það lækka tekjur ríkissjóðs um 7,5 milljarða króna.
Þannig kosta tillögur Viðreisnar á kjörtímabilinu 19 milljarða umfram fjármálaáætlun.
Viðreisn hyggst mæta þessum kostnaðarauka með því að:
- Vaxtakostnaður sem náðst hefur þegar umfram fjármálaáætlun nemur um 6 milljörðum. Dregið verður frekar úr vaxtakostnaði um 9 milljarða með sölu á eignum og uppgreiðslu skulda.
- Með breyttri forgangsröðun verða 4 milljarðar færðir til.
- Útgjaldaaukning sem nú þegar er fjármögnuð í fjármálaáætlun nemur 64 milljörðum.