20 nóv Stóru efnahagsmálin
Evrópusamvinna, auðlindagjöld, gjaldmiðlamál og kerfisbreytingar til hagræðingar virðast ekki vera ofarlega á verkefnalista þeirra afla sem nú ræða stjórnarmyndun. Samkvæmt því þarf til dæmis ekki að ræða þjóðaratkvæði um að ljúka aðildarviðræðum við ESB, ekki tryggja gjaldtöku fyrir kvótann né ná fram markaðsaðlögun í landbúnaði. Með þessu er verið að sniðganga mörg helstu hagsmunamál þjóðarinnar núna og til framtíðar.
Ísland hefur gengist undir meginhluta regluverks ESB gegnum EES samninginn. Þar vegur fjórfrelsið einna þyngst. EES samningurinn hefur stuðlað að mikilvægum framförum í utanríkisviðskiptum og lagaumhverfi auk þess að stórbæta hag neytenda gegnum tollalækkanir og opnun viðskipta. Fjórfrelsið tryggir aðgengi að vinnumarkaði ESB og mótar lagaramma atvinnulífsins að miklu leyti. Undir EES samninginn heyra einnig málefni fjármálageirans en miklar breytingar og hert eftirlit eru þar á dagskrá. Þá vega loftslags- og umhverfismál þungt í evrópskri samvinnu. Þrátt fyrir mikilvægi EES samningsins fyrir fyrrum EFTA ríkin Noreg, Ísland og Liechtenstein hafa stjórnvöld EFTA ríkjanna lítil áhrif á mótun þess regluverks sem þróað er innan ESB og síðan yfirfært á EES. Þótt breytingar á regluverkinu hafi yfirleitt verið til bóta er mikilvægt að geta haft áhrif á gang mála en það verður ekki að gagni nema með fullri aðild að ESB.
Með fullri aðild að ESB fá Íslendingar sæti í yfirstjórn ESB með meiri áhrifum en smáríki getur yfirleitt vænst í alþjóðasamfélaginu. Jafnframt er hægt að taka upp traustan gjaldmiðil með öflugum bakhjarli fyrir fjármálakerfið. Tómt mál er að tala um aukinn stöðugleika í hagkerfinu meðan í notkun er sveiflukenndur örgjaldmiðill. Loks er átak í byggðamálum og uppbygging innviða mun auðveldari með aðstoð sjóða ESB.
Andstæðingar Evrópusamvinnu telja að margrædd þjóðaratkvæðagreiðsla skuli aðeins snúast um fulla aðild að ESB en ekki um það hvort ljúka skuli aðildarviðræðum. Þessi skoðun er í samræmi við þann áróður að ekkert sé um að semja við ESB. Slíkur málflutningur gerir lítið úr þeim stóra hópi kjósenda sem hefur efasemdir um fulla aðild að ESB en vill ljúka viðræðum og taka síðan afstöðu á grundvelli fyrirliggjandi samnings. Regluverkið hefur tekið miklum breytingum frá árdögum Rómarsáttmálans og hefur aðlagast að breyttum aðstæðum með margvíslegum hætti, meðal annars í tengslum við samninga við ný aðildarríki svo sem um fiskveiðar við Möltu og norðurslóðabúskap í Skandinavíu. Í aðildarsamningum við ESB um sjávarútvegsmál þarf að tryggja að Íslandsmið verði sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði. Grunnur að slíku samkomulagi við ESB er að ákvæði um þjóðareign á fiskveiðiauðlindinni sé komið í stjórnarskrá.
Aðildarviðræðum við ESB var slitið án þess að niðurstaða lægi fyrir. Hvers vegna mátti ekki fá fram niðurstöðu í viðræðurnar? Svarið við þessari spurningu fæst ef litið er til þess að sömu öfl hafa barist gegn endurskoðun á stjórnarskránni og hindrað framgang ESB viðræðna. Hnífurinn stendur í kúnni vegna tillögu um auðlindaákvæði í stjórnarskránni.
Auðlindaákvæðið tryggir eign þjóðarinnar á fiskveiðiréttindum á Íslandsmiðum. Ákvæðið er ekki þjóðnýting á eignum útgerðamanna heldur trygging fyrir því að fiskimiðin verði sameign Íslendinga um ókomin ár og fullt gjald fyrir sérréttindi til nýtingar skuli renna til réttmætra eigenda auðlindarinnar. Með auðlindaákvæði í stjórnarskrá eru almannahagsmunir tryggðir, einnig þegar kemur að samningaviðræðum við ESB. Von kvótagreifanna er að ákvæði um þjóðareign í lögum um fiskveiðar verði orðin tóm er fram líða stundir og kvótinn teljist skýlaus eign þeirra innan fárra ára.
Hvernig á að styrkja atvinnulíf eða fjármagna innviði einkum á landsbyggðinni ef ekki má ræða auðlindagjöld, arðsemi í landbúnaði né fulla aðild að ESB með aðgengi að framkvæmdafé og traustum gjaldmiðli? Lítið hefur verið um raunhæfar tillögur frá íhaldsöflunum um fjármögnun kröftugrar innviðauppbyggingar. Hins vegar getur arður af auðlindum einkum fiskimiðum og orku lagt þjóðarbúinu til verulegar upphæðir sem nýta má til innviðauppbyggingar og fleiri hluta.
Íhaldssöm öfl hafa styrkt stöðu sína á Alþingi eftir síðustu kosningar. Frjálslynt fólk verður að halda áfram baráttunni fyrir framförum. Hér undir er Evrópusamvinna og full aðild Íslands að ESB. Jafnframt þarf að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá og tryggja þar með að eðlileg arðsemiskrafa skili eiganda auðlindarinnar fé sem nýtist til uppbyggingar. Myntráðsfyrirkomulag getur tryggt gengisfestu fram að inngöngu í myntbandalagið og þar með stuðlað að verðstöðugleika og lægri vöxtum ásamt því að minnka óvissu við alla áætlanagerð. Þessi framfaramál þjóðarinnar verða ekki sniðgengin og eru forsenda fyrir árangri á öðrum sviðum svo sem í rekstri hins opinbera, mannréttindum og menntamálum. Með þetta veganesti getur frjálslynt fólk sótt fram með víðsýni og raunsæi.
Höfundur er hagfræðingur. Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 18. nóvember 2017.