22 maí Skemmtilegri Hafnarfjörður
Það er gaman að búa í Hafnarfirði. Undanfarin ár hafa margir skemmtilegir viðburðir bæst við flóruna og skapað grundvöll fyrir frábærar samverustundir. Margar af þessum uppákomum eru skipulagðar af Hafnarfjarðarbæ eins og t.d. vorhátíðin Bjartir dagar og Jólaþorpið. Annað á rætur sínar að rekja til framtaks og hugmyndaauðgi íbúana sjálfra eins og Austurgötuhátíðin á 17. Júní og og Hrekkjavökugleðin sem íbúar um bæ allan standa fyrir þegar þeir skreyta hús sín og leyfa börnunum og koma og bjóða sér grikk eða gott. Einnig getum við verið þakklát fyrir frumkvöðlastarfsemi sem hefur fært okkur gersemar eins og tónlistarhátíðina Heima og frábært tónleikaframboð í Bæjarbíói.
Gerum Hafnarfjörð að ennþá skemmtilegri bæ fyrir alla aldurshópa. Thorsplan á að vera lifandi allt árið um kring og þar á t.d. að vera skeljasandur á sumrin,bændamarkaður á haustin og skautasvell á veturna. Ef eitthvert af okkar frábæru íþróttaliðum vinnur titil þá á að sjálfsögðu að fagna því á Thorsplani, þar sem hjartað okkar slær.
Leikvelli er að finna víða en af hverju eru þeir allir eins? Allstaðar eru sömu leiktækin. Þetta þarf ekki að vera svona einhæft. Við getum boðið börnunum okkar upp á miklu skemmtilegri og fallegri leiksvæði sem öll fjölskyldan og samfélagið njóta.
Svo tekin séu tvö dæmi þá er að finna stórkostlega leikvelli fyrir börn í Valencia á Spáni og í Nice í Frakklandi. Auk þess að vera leikvellir fyrir börnin þjóna þeir einnig því hlutverki að setja svip sinn á þessar borgir og eru í raun áfangastaðir út af fyrir sig. Í hafnarborginni Nice í Frakklandi er leikvöllur með sjávarþema, þar er risastór kolkrabbaróla, hvalsklifurgrind og höfrungarennibrautir. Í Valencia á Spáni er leikvöllur þar sem stór Gúlliver liggur í valnum og geta börn klifrað, rambað og rólað á þessum stóra risa sem putarnir í Putalandi hafa klófest.
Bæði í Valencia og í Nice eru þessi leiksvæði afar vel sótt og vinsæl bæði af heimamönnum og ferðafólki. Börnin elska þessi leiksvæði enda eru þau ævintýri líkust og ýta undir leikgleðina og ímyndunaraflið.
Hugsið ykkur ef svona leiksvæði væri sett upp í Hafnarfirði. Hægt væri að halda samkeppni og ekki væri verra ef þema leikvallarins myndi tengjast sögu Hafnarfjarðar á einhvern hátt eða hafa einhverja tengingu við höfnina, Hansakaupmenn, víkinga nú eða álfa. Leikvöllurinn væri svo byggður upp úr vistvænum endingargóðum efnum og svæðið í kringum hann skipulagt með þarfir gangandi og hjólandi í fyrirrúmi að sjálfsögðu.
Aðalatriðið er að búa til skemmtilegt tilefni og svæði fyrir fjölskyldur og vini þar sem hægt er að njóta samveru og búa til skemmtilegar minningar. Lifandi bær er betri bær.
Höfundur skipar 1. sætið á lista Viðreisnar í Hafnarfirði. Grein birtist fyrst á Kjarnanum 21. maí 2018.