29 jan Viðreisn landsbyggðarinnar
Fyrir skömmu voru göngin undir Vaðlaheiði formlega opnuð. Ég gladdist og fór norður til þess að fagna tímamótunum. Ekki er ofmælt að gleðin hafi skinið af hverri vonarhýrri brá við opnunarathöfnina. Göngin opna nýja möguleika, vegalengdir styttast, atvinnusvæði stækkar og nýjar hugmyndir kvikna. Sveitarfélögin eru mörg og flest smá. Þess vegna var gleðiefni þegar sveitarstjórinn í Þingeyjarsveit sagði í vígsluræðu, að nú væri hægt að huga að sameiningu sveitarfélaga beggja vegna heiðarinnar. Stærðin styrkir.
Göngin voru umdeild á sínum tíma og gangnagerðarmenn lentu í ýmsum hremmingum sem kostuðu sitt. Þá sögu ætla ég ekki að rekja hér, en hélt að hvar sem menn hefðu staðið í þeim deilum myndu allir gleðjast yfir því að nú sé verkinu lokið og vegartálmi horfinn. Því er ekki að heilsa. Á samfélagsmiðlum sá ég kveða við neikvæðan tón úr mörgum hornum. Í hnotskurn er ástæðan sú að mörgum finnst að þessum göngum hafi verið „svindlað inn í röðina“.
Flestir fallast á þjóðhagslega hagkvæmni greiðra samgangna. Á sama tíma er deilt um hvernig skipta eigi peningum á milli þeirra mörgu brýnu verkefna sem bíða. Ríkisstjórnin heldur að peningar verði til með því að taka lán sem greitt verði einhverntíma seinna, en það er auðvitað engin lausn heldur gamall hugsunarháttur framsóknarflokka: Den tid, den sorg.
Best fer á því að ákvarðanir sem snerta fyrst og fremst íbúa á ákveðnu svæði séu teknar af þeim sjálfum. Þetta á líka við um vegagerð og önnur mannvirki í almenningseign. Vandinn er sá að landsfjórðungarnir þurfa að sækja fjármagn til Reykjavíkur eins og beiningamenn, þrátt fyrir að miklir fjármunir verði til víða um landið.
Sjávarútvegsfyrirtæki hafa hagnast vel á undanförnum árum, svo mjög að þau hafa lagt stóran hluta af sínum hagnaði í fjárfestingar í fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Miklar deilur hafa risið um afgjald af sjávarútvegsauðlindinni, ekki síst vegna þess að það fer allt í „ríkishítina“.
Því leggur Viðreisn til markaðstengt gjald sem fari í innviðasjóð í hverju kjördæmi um sig og skiptist milli þeirra í hlutfalli við skiptingu veiðiheimilda. Hægt væri að hraða uppbyggingu samgangna, fjarskiptakerfis og heilbrigðisþjónustu. Lítill hluti veiðiheimildanna (3 til 8%) yrði settur á markað á hverju ári. Afgjaldið ræðst þá af getu fyrirtækjanna en ekki duttlungum stjórnvalda eða embættismanna hverju sinni.
Um slíkt kerfi ætti að skapast miklu betri sátt en nú ríkir og tvær flugur slegnar í einu höggi. Auðvitað héldi sameiginleg vegagerð áfram, en í Norðausturkjördæmi hefðu heimamenn t.d. getað ákveðið að setja í nokkur ár einn milljarð í Vaðlaheiðargöng úr sínum landshlutasjóði. Enginn hefði talað um svindl en allir landsmenn glaðir notið samgöngubótanna.
Höfundur er fyrsti formaður Viðreisnar og fyrrv. fjármálaráðherra.