13 maí Segir krabbameinsskoðun í alvarlegri óvissu
Það er alvarlegt að það ríki óvissa um framtíð skimunar fyrir krabbameini á Íslandi. Þetta sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar á Alþingi í dag, sem óttast að Krabbameinsfélagið þurfi að óbreyttu að segja upp starfsfólki frá og með næstu mánaðamótum vegna stefnuleysis í málaflokknum.
Hanna Katrín sagði að frá árinu 2013 hefði samningur ríkisins við Krabbameinsfélagið um leit að leghálskrabbameini og brjóstakrabbameini verið framlengdur sjö sinnum. Núgildandi samningur sé til loka þessa árs. Starfsemin sé undirfjármögnuð af ríkinu og Krabbameinsfélagið greiði því með verkefninu. Slíkir skammtímasamningar gerðu Krabbameinsfélaginu erfitt um vik að þróa starfsemina til framtíðar.
Fyrr á árinu hafi Krabbameinsfélagið gert drög að áframhaldandi samningi en ekki fengið viðbrögð við honum frá því í mars. Hún sagði að fólkið sem starfar við krabbameinsleit sé sérhæft starfsfólk. Margt af því hafi hálfs árs uppsagnarfrest og við blasi að krabbameinsfélagið þurfi að óbreyttu að segja þessu fólki upp í næsta mánuði.
„Ég spyr hæstvirtan ráðherra, er hæstvirtur ráðherra sáttur við þessi vinnubrögð. Og jafnframt. Hvenær verður upplýst hvað ráðherra hyggst fyrir í þessum málaflokki. Getur hæstvirtur ráðherra upplýst það hér og nú?“ sagði Hanna Katrín.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra svaraði því til að fyrir liggi krabbameinsáætlun. Þar sé lagt til að setja á stofn skimunarráð á vegum landlæknisembættisins sem geri tillögur til ráðherra um fyrirkomulag skimunar fyrir krabbameini. Unnið sé í málinu.
„Ég vænti þess eftir þessa fyrirspurn háttvirts þingmanns að ég kanni það í ráðuneytinu hvernig samskiptin í ráðuneytinu hafi verið við Krabbameinsfélag Ísland. En þau eru svo stór gerandi á þessu sviði að það er ótækt annað en að framkvæmdin sé innleidd í samráði við þau,“ sagði Svandís.