Kolefnisorðspor

Gönguferð um Hornstrandir í fyrra opnaði augun mín fyrir gríðarlegu verðmæti ósnortinnar náttúru. Orðspor landsins okkar sem umhverfisvæns lands með hreinu lofti, ómenguðu vatni og óspilltri náttúru, er líklega verðmætasta auðlind okkar. Við stærum okkur af því að um 99% orku sem nýtt er til húshitunar og rafmagnsframleiðslu á landinu komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

Ferðaiðnaðurinn er orðinn okkar stærsta atvinnugrein. Útflutningstekjur hans eru um 500 milljarðar króna á ári sem samsvarar tekjum af sjávarútvegi og álframleiðslu samanlögðu.

Við verðum að vernda orðspor okkar sem náttúruparadís, þar sem umgengni um náttúruna er til fyrirmyndar og umhverfismál eru ávallt í fyrirrúmi. Við lofum ferðamönnum sem heimsækja okkur að þeir muni upplifa landið sem umhverfisvænt og óspillt. Það er eins gott að við getum staðið við það loforð.

Í skýrslu sem má finna á vef Hagstofunnar frá 7/11 2018 kemur fram að Ísland er með stærsta kolefnisspor landa í ESB og EFTA eða um 17 tonn á mann á ári. Svíþjóð er í 25. sæti með aðeins um fimm tonn á mann. Í rannsókn sem HÍ kynnti nýlega kemur fram að svokallað neysludrifið kolefnisspor Íslendinga er það mesta í þróunarríkjum heimsins. Það hefur sem sagt verið staðfest að við erum einir mestu framleiðendur koltvísýrings í heiminum á mann. Ef allir jarðarbúar hegðuðu sér eins og við Íslendingar þá væri líklega óbúandi á jörðinni.

Vissulega eru atvinnuvegir okkar, einkaneysla og lífskjör mjög kolefnisfrek. Við getum minnkað útblástur og kolefnisspor með ýmsum hætti. Það ætti að vera forgangsmál stjórnvalda, fyrirtækja og almennings að minnka þetta sótspor og vernda þannig okkar góða náttúruorðspor.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. febrúar 2020