27 feb Líkurnar á framhaldslífi
Vísbendingar af þessu tagi ættu að koma fram á næstu mánuðum. En eins og staðan er í dag verður ekkert annað lesið úr skilaboðum forystumanna stjórnarflokkanna en að þeir hafi allir áform um að halda samstarfinu áfram.
Nýtt flokkakerfi í mótun
Skoðanakannanir benda að vísu ekki til þess að vilji kjósenda standi til þess sama. Þær verða þó varla haldgóð vísbending fyrr en nær dregur. En fari svo að ríkisstjórnarflokkarnir geti ekki myndað þriggja flokka stjórn má segja að flokkakerfi tuttugustu aldar heyri endanlega sögunni til, þótt ný flokkaskipan sé enn í mótun.
Önnur ný og áhugaverð staða gæti líka verið að koma upp. Margt bendir til þess að VG sé að færast inn í það pólitíska rými, sem Framsókn hafði áður fyrr. VG gæti þannig haft í hendi sér hvort hér yrðu til skiptis myndaðar stjórnir til hægri eða vinstri og þannig orðið viðvarandi stjórnarflokkur.
Eins og Framsókn á sínum tíma gæti VG haft pólitísk hamskipti með jöfnu millibili. Óneitanlega hefur VG losað sig við þá prinsippfestu, sem er helsta hindrunin fyrir því að komast í slíka lykilstöðu.
Líklega er þó flóknara fyrir VG að vinna með Samfylkingu en núverandi samstarfsflokkum vegna andstöðu þess við hvers kyns breytingar, nema ríkisvæðingu í heilbrigðiskerfinu.
Eitt mál í deiglunni getur skipt sköpum
Hvað sem slíkum vangaveltum líður er eitt mál í deiglunni, sem getur haft afgerandi áhrif á það hvernig mál þróast að þessu leyti. Það er tillaga forsætisráðherra að nýju auðlindaákvæði í stjórnarskrá.
Sögulegur bakgrunnur þess liggur í tuttugu ára gömlu áliti auðlindanefndar undir forystu Jóhannesar Nordal. Þar náðu allir flokkar og hagsmunasamtök í sjávarútvegi saman um að leggja til að festa í stjórnarskrá ákvæði um þjóðareign þar sem gjald skyldi koma fyrir tímabundin afnot. Tímabundin afnot voru talin forsenda þess að þjóðareign yrði virk í framkvæmd.
Nú er staðan hins vegar þannig að stjórnarflokkarnir og Miðflokkurinn hafna hugmyndum auðlindanefndar og stjórnlagaráðs um gjald fyrir tímabundin afnot. Opinber stefna Framsóknar er að vísu með tímabindingu, en samt er næsta víst að hún fórnar því prinsippi fyrir samstarfið. Viðreisn, Samfylking og Píratar eru á hinn bóginn fylgjandi því að gjald komi fyrir tímabundinn afnotarétt.
Hér er sem sagt á ferðinni djúpstæður hugmyndafræðilegur ágreiningur, sem snýst um það hvort væntanlegt þjóðareignarákvæði á að knýja á um breytingar eða styrkja óbreytt ástand.
Gæti orðið helsta kosningamálið
Forsætisráðherra hefur stefnt að breiðu samkomulagi um afmarkaðar stjórnarskrárbreytingar. En sú bjargfasta afstaða að hafna samkomulagi allra flokka og hagsmunasamtaka, sem varð í auðlindanefnd á sínum tíma og stjórnlagaráð tók upp í breyttu formi, gæti dregið úr líkum á að það takist.
Kostirnir eru þá þeir að láta kyrrt liggja með auðlindaákvæðið eða knýja það í gegn með stuðningi ríkisstjórnarflokkanna og Miðflokksins. Búast má við miklum átökum um svo stórt prinsippmál og það gæti hæglega orðið eitt helsta átakefni kosninganna.
Framhaldslíf með Miðflokknum
Fari forsætisráðherra þá leið að ljúka auðlindamálinu í ágreiningi verður VG að leggja allt í sölurnar til þess að fá það staðfest á nýju þingi að kosningum loknum. Í þeim tilgangi er erfitt er að koma auga á aðra möguleika fyrir VG og samstarfsflokkana en óbreytt stjórnarmynstur.
Skipist mál með þessum hætti, sem margt bendir til eins og sakir standa, eru líkur á framhaldslífi ríkisstjórnarinnar; hugsanlega með Miðflokknum, ef hún heldur ekki velli og atkvæði hans þarf til.