Ég er aðdáandi Ruth Bader Ginsburg, dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Mín kona – minn uppáhaldsleikmaður – er ekki bara brillíant lögfræðingur heldur sjarmerandi kona. Hún er beitt og klók og drepur mýtuna um að lögfræði sé þurr og hún er kona snjallra tilsvara. Hún skrifar á nóttunni og hún er kona sem þiggur rauðvínsglasið. Þegar hún var spurð út í það þegar hún sást í sjónvarpi sofna yfir ræðu Obama í þinginu svaraði hún með því sem allir vissu að var sannleikur málsins: „Ég var kannski ekki 100% allsgáð.“

Þegar ég byrjaði í lagadeild þótti blessunarlega ekki merkilegt að konur væru laganemar. Konur voru þá um helmingur nemenda. Mikið tekin lína þá var að þetta væri allt að koma. Konur yrðu bráðum til jafns við karla í Hæstarétti. Síðan eru liðin 15 ár og við erum ekki áberandi nálægt því markmiði. Þar erum við eins og Bandaríkin.

Það telst til tíðinda þegar kona er skipuð við réttinn. Ruth var skipuð í Hæstarétt árið 1993 af Clinton. Þá hafði bara Sandra Day O’Connor setið í Hæstarétti, skipuð af Reagan 1981. Fram til ársins 1981 var saga kvenna í Hæstarétti Bandaríkjanna því engin. Eftir Ruth hafa tvær konur tekið sæti, Sonia Sotomayor og Elena Kagan sem Obama skipaði 2009 og 2010. Eflaust hefur það verið ein af þessum litlu tilviljunum að Obama skipaði tvær konur í Hæstarétt í sinni forsetatíð, forsetinn sem sagði að stefna ætti að því að það væru ekki engin glerþök til að brjóta lengur.

Ruth og Obama eiga jafnréttistaugina og frjálslyndið sameiginlegt. Í viðtölum hefur Ruth oft svarað þeirri spurningu hvort hún hafi sem lögfræðingur stefnt að því að verða dómari og svarað að það hafi verið óraunhæfur draumur fyrr en Jimmy Carter varð forseti og sá ljósið í því að nýta hæfileika beggja kynja.

Ruth er í dag sennilega leiðtogi frjálslynda armsins í Hæstarétti Bandaríkjanna. Styrkleiki hennar felst í meiru en því að vera klókur lögfræðingur. Hún er klók og strategísk manneskja sem skynjar lagalegar og pólískar afleiðingar dóma réttarins. Hún er læs á aðstæður.

Með árunum og reynslunni hefur tónninn í dómum hennar breyst og sératkvæðum fjölgað. Hún hefur leyft sér að mótmæla meðdómendum snyrtilega með því að lesa sératkvæði sín upphátt við dómsuppsögu sem hefur ekki verið hefðin. Í því eru sögð felast mótmæli á pari við það að kveikja á brunabjöllu. Hún hefur verið skýr í sínum skrifum. Í dómi um mismunun á vinnustað skrifaði hún að það væri ekkert að ákvörðun meirihlutans annað en að niðurstaðan rímaði ekki við veruleika vinnustaða (the Court’s disregard for the realities of the workplace). Stutt en væn sneið um að menn séu bara að klikka á einu atriði: Raunveruleikanum. Það er nú kannski stærsti punkturinn, að lögfræðin rími við raunveruleikann.

Ruth hefur auðvitað líka mætt gagnrýni, til dæmis fyrir að vera ekki nógu róttæk sem femínisti. Sem lögmaður hafði hún hins vegar skýra sýn um hvaða taktík væri sigurstranglegust til að ná fram breytingum. Strategían var að velja lítil mál til að láta reyna á mikilvæg atriði sem hefðu víðtæk áhrif. Hún talar fyrir því að kynna dómstólum eitt skref í einu, þannig verði einn sigur ekki til þess að framkalla bakslag í næsta máli. Það sé hættulegt að biðja dómstólinn um að fara of geyst, því með því sé hægt að glata því sem þegar hefur áunnist. (Don’t ask them to go too far or too fast or you’ll lose what you might have won.)

Þessi leikaðferð krefst þess líka að lögfræðin sé læs á að eitt svið réttarins hefur auðvitað auðveldlega haft áhrif á önnur. Nýlega var í fréttum mál kennara sem stefnir Reykjavíkurborg og vill fá uppsögn sína dæmda ógilda. Ástæða starfslokanna var að kennarinn var orðinn 70 ára. Það vill kennarinn meina að sé ómálefnalegt sjónarmið, að aldurinn einn geri að verkum að hún fái ekki lengur að kenna. Þar blasir kannski líka við spurningin hvort það hefur áhrif á faglegt skólastarf að eldri og reyndari kennarar eigi að hætta störfum bara vegna þess að þeir vakna upp 70 ára einn daginn og hvernig það rímar við veruleika vinnustaðarins sem miðlar einmitt visku. Áhugaverð spurning og staða sem er líkleg til að hafa áhrif út fyrir þetta eina dómsmál. Þegar ég las þessa frétt varð mér hugsað til uppáhaldsdómarans, hvernig hún myndi teikna upp röksemdirnar kæmi þetta mál inn í hennar dómssal. Í hennar sal gildir þessi regla að vísu ekki. Og í hennar sal hefði svona regla leitt til þess að hún hefði ekki dæmt nein mál síðustu 17 árin eða svo. Ruth verður nefnilega 87 ára í mars. Og hún á enn mikið inni.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. janúar 2020