08 jan Höfum við gengið til góðs?
Nú í haust kom út merkileg saga um Jakobínu Sigurðardóttur, skáld og konu, eftir dóttur hennar, Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur. Jakobína fæddist í Hælavík á Hornströndum, einhverjum afskekktasta stað á landinu, fyrir um 100 árum, en ekki er nema liðlega aldarfjórðungur síðan hún lést. Hún var þekkt í samfélaginu og skrif hennar og skoðanir löngum umdeild. Samfélagið hefur breyst á þessum tíma, svo mjög að manni finnst eins og verið sé að lýsa öðrum heimi, svolítið dapurlegum, en um leið stundum barnslega saklausum.Fjölskyldan var sárafátæk, bjó í torfbæ og lítið rými fyrir hefðbundinn landbúnað. Börnin urðu 13 á 27 árum, en tveir synir létust ungir. Skólagangan var stutt hjá sveitabörnunum, einn vetur og þrír mánuðir hjá Jakobínu, auðvitað fjarri fjölskyldunni. Foreldrarnir áttu löngum við vanheilsu að stríða, en langt til læknis á Ísafirði. Þegar móðir hennar veikist alvarlega árið 1932 þarf fyrst að fara á báti til Kjaransvíkur, svo þurfa fílefldir piltar að bera hana á börum yfir fjallveg til Hesteyrar. Síðasta spölinn til Ísafjarðar fer hún svo með skipi. Ferðin hefur líklega tekið að minnsta kosti sólarhring að hausti. Lífið var ekki dans á rósum.
Jakobína varð mikill sósíalisti, kommi sögðu flestir, og hana dreymdi um byltingu því „örfáir menn hrifsa arð þinna vinnandi handa, ógna þér, blekkja þig, skammta þér fátækt og hungur“. Hún óttaðist áhrif erlends auðmagns og útlends hers á samfélagið.
Og það varð bylting, þótt hún væri með allt öðrum hætti en Jakobína vænti. Húsfreyjan í Garði í Mývatnssveit fagnaði rafmagninu árið 1962: „[F]jósmokstur og tilhleypingar fer fram í slíkri ljósadýrð að við liggur að hrútarnir verði feimnir, hvað þá ærnar. Og innanbæjar lætur menningin af sér heyra í útvarpi og hverskyns ráðagerðum um þvottavélar, kæliskápa, Það er sem sagt menningin sem er hlaupin í okkur.“
En lífið var samt erfitt. Búskapurinn gerði lengi vel ekki meira en að heimilisfólkið hafði í sig og á. Jakobína talar um sig sem gamla konu þegar hún er rétt liðlega sextug. Það hefur margt breyst á 40 árum.
Hrakspárnar sem settu mark sitt á skoðanir skáldsins rættust ekki. Herinn fór án þess að nokkur krefðist þess. Lífskjör bötnuðu jafnt og þétt, hraðar eftir því sem lengra leið. Það er erfitt fyrir nútímafólk að skilja baráttuna í þessari nýliðnu fortíð og bækur Jakobínu eflaust flestar torskildar. Samt sjáum við enn í dag að fyrirtæki misnota aðstöðu sína í fjarlægum ríkjum og gera hluti sem þeim dytti vonandi aldrei í hug að gera heima fyrir.
Jakobína varð aldrei rík að fé, en síðasta verk hennar er fjársjóður sem þjóðin nýtur góðs af um langa framtíð. Bókin Í barndómi er falleg og raunsæ lýsing á æskuárunum og sakleysi sem aldrei kemur aftur. bj@heimur.is
Höfundur er stærðfræðingur og stofnandi Viðreisnar
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. janúar 2020