09 apr Popúlísmi eða alvörugefin pólitík?
Ekki er óalgengt að fólk segist ekki hafa áhuga á pólitík því hún sé svo leiðinleg. Ýmsir eiga ekki erindi sem erfiði upp á pallborð stjórnmálanna fyrir þá sök að þeir þykja leiðinlegir eða alltént ekki nógu skemmtilegir.
Leikræn tjáning hefur fylgt mælskulistinni frá öndverðu. Slíkir hæfileikar eru oftast nær styrkur fyrir hvern þann sem standa þarf fyrir máli sínu. En krafan um að allir hlutir þurfi að vera skemmtilegir til að geta talist áhugaverðir er meira nútímafyrirbæri.
Pólitík snýst um að velja og hafna
Áður fyrr voru matreiðsluþættir í sjónvarpi hreinir fræðsluþættir. Nú eru þeir framleiddir sem skemmtiþættir. Matreiðsluþáttur, sem ekki er skemmtilegur, þykir einfaldlega ekki áhugaverður.
Vitaskuld þarf tilveran að vera skemmtileg. En hún er eftir sem áður full af flóknum viðfangsefnum. Og pólitík snýst fyrst og fremst um að veita leiðsögn um það hvað á að velja og hverju á að hafna. Það er í eðli sínu ekki skemmtilegt hlutverk.
Stjórnmálamenn vítt og breitt eru að þessu leyti í óvanalegri stöðu nú og verða í nokkra mánuði. Þeir þurfa ekki að velja og hafna. Sérfræðingar ákveða ráðstafanir í sóttvörnum. Og til þess að koma í veg fyrir að atvinnulífið kafni segir enginn fjármálaráðherra nei, að ráði sérfræðinga. Krónur, dalir, pund og evrur flæða því úr ríkiskössunum.
Fjármálaráðherrar allra landa þurfa aftur að segja nei
En þetta er tímabundið ástand. Eftir nokkra mánuði sitja stjórnmálamenn um heim allan með meiri skuldir í fanginu en sögur fara af. Þá þurfa þeir að fara að velja og hafna á ný og fjármálaráðherrar allra landa að segja nei.
Á síðustu árum hefur popúlískri þjóðernis- og einangrunarhyggju vaxið mjög fiskur um hrygg. Hún ræður nú ríkjum bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi, þótt birtingarmynd hennar sé ólík.
Popúlisminn hefur nærst á því að ala á tortryggni gagnvart þekkingu. Einföld slagorð hafa snúist um að taka völdin frá hefðbundnum stjórnmálamönnum og sérfræðingavaldi og færa til fólksins.
Litlausir stjórnmálamenn hafa litað söguna til jafns við þá litríku
Kjör nýs leiðtoga Verkamannaflokksins í Bretlandi er áhugavert í þessu ljósi. Hvort honum muni takast að færa flokkinn nær miðjunni er þó ekki eina áhugaverða spurningin, sem kjör hans vekur.
Það sem er ef til vill meira spennandi að skoða er allt annað. Hann er fyrrverandi ríkissaksóknari, alvörugefinn stjórnmálamaður og laus við það yfirlæti, sem einkennir marga popúlista leiðtoga, og hvorki maður einfaldra frasa né æsings.
Tímaritið Economist skrifaði í febrúar um þau umskipti, sem kjör hans myndi hafa að þessu leyti, og sagði í fyrirsögn: Maðurinn sem þorir að vera leiðinlegur. Um leið bendir blaðið á að stjórnmálamenn, sem þótt hafa litlausir, hafi mótað söguna rétt eins mikið og þeir litríku, og nefnir Clement Attlee til marks um það.
Eiga stjórnmálamenn að þora að vera leiðinlegir?
Í kosningum til Evrópuþingsins síðasta vor unnu frjálslyndir flokkar og græningjar mikið á. Það var vísbending um andóf gegn popúlisma og einföldum lausnum. Kjör nýs leiðtoga Verkamannaflokksins gæti verið önnur vísbending.
Enginn sér í dag fyrir hvort þær hamfarir, sem þjóðir heims ganga nú í gegnum, muni styrkja þessa þróun eða veikja. Aftur á móti er deginum ljósara að stjórnmálamenn verða að velja og hafna á ný þegar hamförunum lýkur.
Auðvitað mun þá skipta máli eins og endranær hvort menn kjósa að fara til hægri eða vinstri, velja einangrunarhyggju eða alþjóðasamstarf. En hitt verður þó ekki síður afdrifarík spurning: Hvort munu kjósendur leggja meira traust á alvörugefna stjórnmálamenn eða popúlista og boðbera einfaldra lausna?
Í öllum löndum blasa við mestu alvörutímar í pólitík eftir lok seinna stríðs. Og það verður ekki unnt að ætlast til þess að pólitík verði skemmtileg. Kannski þurfum við stjórnmálamenn, sem þora að vera leiðinlegir.