11 apr Festina Lente
Í stríði þarf að taka skjótar ákvarðanir. Sem betur fer virðist kórónuveiran nú hopa á Íslandi. Samt veit enginn hvenær við höfum gengið frá henni, svo að hún skjóti ekki upp kollinum síðar. Sumir tala eins og þjóðin verði í stofufangelsi mánuðum saman, landinu læst og fólki hvorki hleypt út né inn. Ekki þarf að deila um að afleiðingarnar fyrir efnahag fyrirtækja og starfsmanna þeirra eru skuggalegar. Þar sem ekki er hægt að vinna verða engin verðmæti til.
Víða um lönd töluðu stjórnmálamenn eins og veiran skæða yrði ekkert vandamál, væri þvæla eða í besta falli efni í brandara. Boris Johnson sagði frá því að það myndi „kæta fólk að vita að hann hefði heilsað öllum með handabandi“ þegar hann heimsótti smitaða sjúklinga í byrjun mars.
Sem betur fer hafa flestir íslenskir stjórnmálamenn haldið sér hæfilega til hlés til þessa. Dæmin sanna að það er farsælla að tala án þess að segja neitt heldur en að fara með fleipur.
Flas er aldrei til fagnaðar. Við þurfum að nýta þekkingu og beita skynsemi, ekki bara í baráttunni við veiruna heldur ekki síður þegar byggja þarf upp eftir stríðið. Viðreisnin byggir á hugviti.
Ástandið má nýta til þess að koma á breytingum á örskömmum tíma. Við sjáum það í skólum, í fyrirtækjum, í listum og samskiptum manna á milli. Ástandið neyðir okkur til þess að finna nýjar lausnir. Andstaðan við úrbætur minnkar tímabundið. En hún kemur aftur.
Hættan er að kreppan verði nýtt sem skálkaskjól. Stjórnmálamenn vilja koma hagkerfinu í fullan gang aftur. Þá eru ýmsir tilbúnir með hugmyndir sem nýtast fáum eða engum til frambúðar en „skapa vinnu“. Nú reynir á að velja verkefni sem verða arðbær. Við getum auðveldlega skapað mikla vinnu með því að byggja tugi bragga. Allir sjá að það er heimskulegt vegna þess að þeir munu ekki nýtast til gagns í framtíðinni. Nú er tíminn til þess að búa til verðmæti. Á meðan á framkvæmdum stendur verður vissulega til vinna, en hvað svo?
Allt of mörg úrræði stjórnmálamanna eru lituð af kreppunni miklu árið 1930. Þeir átta sig ekki á því að þjóðfélagið hefur þróast frá handverki til hugvits. Einmitt núna ættum við að styrkja nýsköpun, uppbyggingu á tækni og hugbúnaði, efla úrvinnslu upplýsinga. Búum til verðmæt störf til framtíðar, ekki minnisvarða um misvitra stjórnmálamenn. Það versta sem hægt er að hugsa sér er að einangra landið, varpa vísindum fyrir róða, búa til ríkisstyrki og hygla vinveittum aðilum.
Almennar aðgerðir geta virkað eins og vítamínsprauta á atvinnulífið, líka þá sem standa betur, því að þeir eflast til frambúðar, þjóðinni til góðs.
Við þurfum að bregðast skjótt við, en það er dýrt að henda peningum í súginn. Þeir peningar verða ekki nýttir til góðs í framtíðinni. Því er farsælast að flýta sér hægt.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. apríl 2020