30 apr Að selja eða ekki selja HS Veitur, þar er efinn
Tillaga meirihluta Framsóknar og Sjálfstæðisflokks um sölu á eignahluta Hafnarfjarðarbæjar í HS veitum bar bratt að. Fyrstu viðbrögð mín má lesa í bókun minni á síðasta fundi bæjarráðs þann 22 apríl en frá þeim tíma hef ég sökkt mér ofan í málið, rætt við sérfræðinga í hinum ýmsu greinum. Skoðun mín hefur tekið breytingum með dýpri skoðun á málinu.
Minnihluta var haldið utan við þessa ákvörðun og er það miður. Þetta er stór ákvörðun sem varðar ekki bara skammtímahagsmuni bæjarsjóðs sem nú sér fram á lækkun á reglulegum tekjum sínum og útgjaldaaukningu, sér í lagi þegar kemur að félagsþjónustu. Þetta er engum að kenna, við erum að fara í gegnum náttúruhamfarir sem ekki var hægt að sjá fyrir. Það eru því eðlileg viðbrögð að leita allra leiða til að komast í gegnum þessa erfiðleika sem munu vara í einhvern tíma. Tími óvissunnar er í hönd.
Nú hefur maður haft nokkra daga til að skoða málið frá mörgum hliðum, rætt við sérfræðinga um kosti og galla þessarar ákvörðunar og það fyrsta sem hrópar á mig er hversu slæm fjármálastjórn við höfum þurft að þola undanfarin ár, þegar þetta eru fyrstu viðbrögð meirihlutans, að selja dýrmæta samfélagseign til að mýkja höggið. Að loknu einu lengsta hagsvaxtarskeiði Íslandssögunnar skuli Hafnarfjörður vera svo illa staddur að nokkrum vikum eftir góðærið, skuli þurfa að losa um góða eign sem gefur stöðuga og góða ávöxtun, að þurfa á að halda ein-skiptis sölutekjum til að sökkva ekki.
Flokkar sem vilja tengja sig við ábyrga fjármálastjórnun, fyrirhyggju, stétt með stétt og vera aflvaki framfara skuli ekki hafa eitthvað betra til málanna að leggja en að selja hlut í einokunarfyrirtæki til einkaaðila. Frá því að ég settist í bæjarstjórn hefur meirihlutinn sungið sama lagið um að hér sé reksturinn traustur og ábyrgur, framkvæmt sé fyrir eigið fé og allar ábendingar um viðkvæma stöðu, sér í lagi veikt tekjustreymi, hefur verið vísað til föðurhúsanna. En nú hafa föðurhúsin vísað hinu sanna til baka. Ein góð búvísindi eru nefnilega þau að fjölga tekjustofnum og hafa fjölbreytt tekjustreymi, hafa ekki öll eggin í sömu körfunni. Það að selja öruggasta tekjustreymið eru vond búvísindi, að selja útsæðið er vont. Eftir þennan gjörning erum við með áhættusamari rekstur til framtíðar.
Efnahagsleg áföll verða reglulega, við komumst i gegnum Hrunið þar sem skuldir bæjarins stökkbreyttust á einni nóttu. Ekki var farið í að selja þennan hlut þá. Við getum verið nokkuð viss um að það mun ríða yfir annað áfall á næstu 10 til 15 árum. Þá munum við ekki eiga þennan hlut. Hvað gerum við þá? Árleg ávöxtun TM á hlut sínum sem seldur var í ágúst í fyrra var 28% á ári.
Þessum áformum um sölu hlutarins fylgir engin fjárfestingaráætlun. Ég óttast að það fé sem fæst fyrir þennan hlut muni fara á bálið og fuðra upp. Málið liti öðruvísi út ef hér lægi til grundvallar áætlun um að fjárfesta væntum tekjum í einhverju sem gæfi Hafnarfirði betri og öruggari ávöxtun til framtíðar. Svo er ekki að heilsa, það er slæmt.
Annað sem slær mig mjög er tímasetningin. Mér hefði fundist það hyggilegra að bíða og sjá hvað ríkisstjórnin ætli sér að gera varðandi það að koma sveitarfélögunum til bjargar. Norðurlöndin hafa farið þá leið að styðja vel og markvisst við sveitarfélögin þar, til að verja viðkvæma nærþjónustu. Kannski er þetta vantraustsyfirlýsing á ríkisstjórn?
HS veitur er þannig fyrirtæki að það er útilokað að fara í samkeppni við það skv, 13. gr. raforkulaga. Fyrir utan það að þá mun engum detta í hug að byggja dreifikerfi við hliðina á dreifikerfi HS veitna væri það leyfilegt. Um fyrirtækið gilda mjög sterk lög sem eiga að sníða af skaðsemi einokunar. Eignarhald skal vera í meirihluta opinberra aðila og takmarkanir eru á hámarksgjaldtöku. Það að fara í jafn mikla stefnubreytingu fyrir Hafnarfjörð án þeirrar umræðu sem málið krefst er alvarlegt og vekur upp óþægilegar minningar frá árunum fyrir Hrun. Það er vel hægt að færa rök fyrir því að sveitarfélagið eigi ekki að vera að vasast í svona rekstri en slíkar hugleiðingar hafa ekki heyrst frá Framsókn og Sjálfstæðisflokki fyrr. Þetta er því U beygja og slíkar beygjur ber að taka af varúð og gætni.
Fyrir okkur í Viðreisn viljum við ávallt að almannahagsmunir séu framar sérhagsmunum. Viðreisn styður einkarekstur þar sem samkeppni er viðkomið. Jafnvægi á milli einkarekstrar og hins opinbera skiptir öllu máli í heilbrigðu hagkerfi. Dreifing á auðlindum eins og vatni og rafmagni er ekki á samkeppnisgrunni. Almannahagsmunirnir Hafnfirðinga í þessu máli eru m.a. þeir að án setu við borð HS veitna er ljóst að við munum ekki hafa nein áhrif á það hvernig fjárfestingarstefnu og viðhaldsstefnu fyrirtækisins verður háttað til framtíðar. Það er ljóst að Reykjanesbær mun geta beint fjármagni og fjárfestingum betur í átt að sínu svæði á kostnað okkar. Það eru einnig hagsmunir okkar inn í framtíðina að eiga eign sem gefur góða, stöðuga og jafna ávöxtun hvernig sem árar í þjóðfélaginu. Það eru einnig hagmunir almennings í Hafnarfirði að hafa áhrif á uppbyggingu innviða í bænum. Við munum ekki heldur hafa áhrif á arðgreiðslustefnu fyrirtækisins. Ein leið til að fá fjárfestingu sína til baka er nefnilega að taka til sín of mikinn arð á kostnað eðlilegrar fjárfestingar og viðhalds. Til eru margar hryllingssögur af slíku víðs vegar um heiminn. Ég nefni ENRON bara til að nefna eitt fyrirtæki.
Fulltrúar meirihlutans hafa lagt mikla áherslu í rökstuðningi sínum að eigendur HS veitna geti ekki haft nein áhrif á verð til neytenda, það sé ákveðið í lögum. En hvernig er hámarksverð ákvarðað? Það er bæði einfalt og flókið í senn. Með ákveðinni reikniformúlu er skoðaður sá kostnaður sem fellur til við þjónustuna, fjárfestingaþörf og heilbrigða arðsemi. Sagan sýnir okkur að slyngt bókhaldsfólk getur verið ansi skapandi þegar kemur að því að meta kostnað. Það er í raun töluverð neytendavernd fólgin í sterku opinberu eiganarhaldi á einokunarfyrirtækjum. Það er nefnilega þannig að á sumum sviðum atvinnulífsins er markaðsbrestur, þ.e.a.s. að samkeppni verður ekki viðkomið.
Málið snýr þannig fyrir mér að sveitarfélagið Hafnarfjörður er góður eigandi félags eins og HS veitna. Félagið þarf langtímafjárfesta en ekki spákaupmenn sem eigendur. Við sem langtímaeigandi og fulltrúi notenda getum haft gríðarlega jákvæð áhrif á innviðaþróun. Í fyrra seldi TM sinn hlut og höfðu að sögn forstjóra ávaxtað sitt pund um 28% á ári þau ár sem þeir áttu í félaginu. Það er frábær ávöxtun. Þegar ég horfi til framtíðar og fjárfestingaþörf félagsins minnkar mun þetta félag geta greitt eigendum sínum mjög heilbrigðan arð. Þær arðgreiðslur sem munu skjóta styrkum stoðum undir rekstur bæjarins til framtíðar. Ekki þarf að horfa lengra en til Landsvirkjunar og þeirra arðgreiðslna sem ríkið er að fá í ár. Vill einhver selja Landsvirkjun?
Það er einnig ljóst að með þessari ákvörðun sinni er meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðismanna að lýsa því yfir að hann er hræddur við að taka erfiðar ákvarðanir þegar kemur að rekstri bæjarins. Það að vera við stjórn þýðir að fólk verður að vera reiðubúið að aðlaga regluleg útgjöld að reglulegum tekjum. Það að selja góða eign til að veigra sér við að taka erfiðar ákvarðanir er dálítið eins og að svindla í leiknum.
Fyrir mig persónulega þá óttast ég ekki þær áskoranir sem fram undan eru. Ég óttast hins vegar getuleysi meirihlutans við að bregðast við af öryggi, fumleysi og æðruleysi.
Jón Ingi Hákonarson,
oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.