24 maí Skynsemin ræður
Heildarskuldir bæjarsjóðs voru við áramót yfir 40 milljarðar. Undanfarið hefur bæjarsjóður greitt aðeins niður skuldir og er það fyrst og fremst vegna aukinna skatttekna sem hafa fylgt góðæri síðustu ára og vegna þess að bænum var stýrt af faglegum bæjarstjóra. Til þess að tryggja að skuldsetning bæjarsjóðs verði sjálfbær, þarf að halda áfram að greiða þær niður. Með sama hraða mun taka áratugi að greiða niður skuldir þannig að þær geti talist sjálfbærar.
Af hverju skiptir þetta máli? Vegna þess að of mikið af tekjum bæjarsjóðs fer í fjármagnsgjöld eða tæpir 2 milljarðar á ári. Betra væri að nýta þá til að auka og bæta þjónustu við íbúa Hafnarfjarðar. Við hjá Viðreisn teljum það óábyrga fjármálastjórn að senda reikning umframkeyrslu liðinna ára til barna okkar og komandi kynslóða.
Til þess laga skuldstöðuna enn frekar, leggur Viðreisn áherslu á að stjórnun og rekstur bæjarins verði áfram í höndum faglega ráðins bæjarstjóra með rekstrar- og stjórnunarreynslu. Þetta er ólíkt stefnu Sjálfstæðisflokksins sem hefur ákveðið að oddviti listans sé þeirra bæjarstjóraefni og það sama á við um önnur framboð. Velta sveitarfélagsins er um 25 milljarðar og hjá því starfa um 1.800 manns. Hjá svo stórri rekstrareiningu eru fjölmörg tækifæri til hagræðingar. Einfalda má stjórnsýsluna og stórauka rafræna þjónustu við íbúana. Þá er einnig hægt að lækka kostnað með markvissu samstarfi við nágrannasveitafélög um ýmsa þjónustu og innkaup.
Annað augljóst tækifæri til að bæta fjárhagsstöðu bæjarins er að selja þær lóðir sem eru tilbúnar í Skarðshlíð. Þar liggja gríðarleg verðmæti. Hér þarf að hugsa í lausnum. Slaka þarf á óhóflegum kröfum í byggingarskilmálum og gera nauðsynlegar breytingar á skipulagi, auk þess sem hraða þarf samningum við Landsnet um rafmagnslínur. Einnig þarf að haga úthlutun lóða með þeim hætti að einstaklingar og minni verktakar geti fengið lóðir á sanngjörnu verði. Þannig verður auðveldara að áætla byggingarkostnað og minnka áhættu og þar með hraða uppbyggingu.
Viðreisn leggur áherslu á að auka lífsgæði bæjarbúa og gera góðan bæ enn betri fyrir okkur öll, sem og komandi kynslóðir. Til þess að svo megi verða þarf að tryggja sjálfbæran og faglegan rekstur bæjarins.
Viðreisn vill beita skynsemi og fagmennsku við stjórnun bæjarins.
Lifandi bær – betri bær!
Jón Ingi Hákonarson
oddviti Viðreisnar.
Kristín Pétursdóttir
skipar 20. sætið á lista Viðreisnar.
Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 24. maí 2018