07 maí Flýta ætti kosningum
Við kynningu á fyrstu neyðarráðstöfunum ríkisstjórnarinnar sagði formaður Framsóknar að ekki yrði leitað inn í sams konar hagkerfi og áður og enn fremur að öll samskipti við aðrar þjóðir yrðu tekin til endurskoðunar.
Í þessum anda viðra Píratar hugmyndir um einhvers konar fráhvarf frá markaðshagkerfinu. Og Samfylkingin talar um að stækka hlut ríkiskerfisins í þjóðarbúskapnum.
Enginn áttaviti
Ríkisstjórnin hefur gagnrýnt þessa tvo flokka fyrir að blanda hugmyndum um grundvallarbreytingar inn í umræður um neyðarráðstafanir.
Þessi gagnrýni er kannski ekki rökrétt í ljósi þess að einn stjórnarflokkanna lék fyrsta leikinn í þessari framtíðarumræðu. En hún er réttmæt að því leyti að eðlilegt er að tekist verði á um grundvallarbreytingar til lengri framtíðar í kosningum.
Skyndiráðstafanir ríkisstjórnarinnar hafa flestar reynst vel. En við aðstæður eins og þessar kemur þó berlega í ljós að í stjórnarsáttmálanum var ekki samið um að sigla eftir sameiginlegum áttavita. Hann snerist bara um að halda í horfinu. Trúlega er það skýringin á því að stjórnin er jafnvel lengur að taka ákvarðanir en evruríkin og er íhaldssamari í peningaprentun en þau.
Sumt er markvisst annað laust í reipunum
Sumar neyðarráðstafanir ríkisstjórnarinnar hafa skýran tilgang. Aðrar eru ómarkvissar. En sérstaklega vantar skýra stefnu þegar kemur að yfirlýsingum og aðgerðum, sem eiga að hafa áhrif til lengri tíma.
Hlutabótaleiðin og þátttaka ríkisins í launagreiðslum á uppsagnarfresti eru dæmi um risavaxnar aðgerðir, sem hafa ákveðinn bráðabirgðatilgang.
Yfirlýsingar um sértæka aðstoð við Icelandair eru á hinn bóginn fremur ómarkvissar. Þar segist ríkisstjórnin bíða eftir að kröfuhafar og hluthafar komi með aukið hlutafé. Að því búnu sé hún tilbúin að lána félaginu. Jafnframt talar hún á þann veg að hún muni aldrei láta félagið fara yfir um.
Ef áhættan af gjaldþroti er ekki lengur til staðar komast kröfuhafar og hluthafar í mun frjálsari stöðu en ella. Tvenns konar yfirlýsingar af þessu tagi geta því hæglega leitt til þess að ríkisstjórnin sitji á endanum ein uppi með stærsta hluta vandans. Það er þó ugglaust ekki ætlun hennar.
Mikilvægast er að byrja á undirstöðunni
Framtíðarfyrirheit ríkisstjórnarinnar koma fram í yfirlýsingum um endurreisn ferðaþjónustunnar, áformum um stóraukna innlenda matvælaframleiðslu og mikla sókn í nýsköpun í þekkingariðnaði. Þessum framtíðaráformum fylgja tímabundnar ákvarðanir um aukna styrki til rannsókna. Að þessu leyti eru vísurnar bara hálfkveðnar.
Engin stefnumörkun fylgir þessum áformum um samkeppnisforsendur. Það er stóri vandinn. Gengi krónunnar og stöðugleiki hennar ræður mestu um hversu raunhæf þessi framtíðarfyrirheit eru. Ekki er heldur skýrt út hvernig boðuð endurskoðun á alþjóðasamskiptum tengist þessum áformum.
Áður en hamfarirnar dundu yfir voru samkeppnisforsendur óbreyttrar ferðaþjónustu þegar brostnar. Núverandi ríkisstjórn mistókst að varðveita þær eða vildi það ekki. Og í mörg ár hefur verið ljóst að nýsköpun þekkingariðnaðar yrði takmörkuð með þeim gengissveiflum, sem hér hafa verið. Að minnsta kosti fjórar síðustu ríkisstjórnir hafa engu áorkað á því sviði.
Við endurreisnina þarf að byrja á undirstöðunni.
Skapa þarf svigrúm til að móta framtíðarstefnu
Enn sem komið er hefur ríkisstjórnin ekki nefnt samkeppnisforsendur á nafn. Það verkefni hefur reyndar aldrei verið á dagskrá hennar. Til slíkrar stefnumótunar þarf hún nokkra mánuði í viðbót. Eðlilegt er einnig að stjórnarandstöðuflokkarnir fái tíma til þess að móta hugmyndir um framtíðina í ljósi nýrra aðstæðna.
Síðan þurfa stjórnmálin að eiga samtal við þjóðina. Að því búnu á hún að kjósa. Veigamestu ákvarðanir um framtíðina á að taka eftir að þjóðin hefur fengið tækifæri til að segja álit sitt.
Kosningar í haust eru æskilegar en kannski óraunhæfar. Of mikill tími tapast ef þær yrðu geymdar til loka kjörtímabilsins í október 2021. En augljóslega er gerlegt að halda þær á fyrri hluta næsta árs. Skoðanakannanir ættu alltént ekki að hræða ríkisstjórnina frá því.