25 maí Sjálfstæðisflokkurinn og útlendingalög
Nú nýlega reyndi Sjálfstæðisflokkurinn að lauma inn siðlausum og grafalvarlegum lagabreytingum á útlendingalögum. Eðlilegt er að hver og einn fái málsmeðferð þar sem tekið er til athugunar hættu frá heimalandi, veikindi, fjölskyldu og barna. Þar eru sjálfstæðismenn ekki sammála, þeir vilja fremur senda fólk beint úr landi án þess að það hljóti eðlilegrar málsmeðferðar en í því felst lagabreyting dómsmálaráðherra.
Sjálfstæðismenn vilja meina að þetta sé eingungis til þess gert að bæta skilvirkni í málum hælisleitenda, en það er óumflýjanlegt að sjá hve mikil mannvonska felst í að taka ekki til athugunar ógn við líf og frelsi fólks. Þeir vilja frekar horfa á þetta fólk sem númer á blaði í stað þess að veita þeim mannsæmandi málsmeðferð. Þetta er því ekki gert til þess að auka skilvirkni, heldur eru þetta hreint og beint ómánnúðleg lög.
Ekki verður lengur tekið tillit til þess að fólk sé í hættu við að snúa aftur til heimalandsins, ekki verður tekið tillit til alvarlegra veikinda sem geta skaðað fólk varanlega við að flytja það úr landi og ekki verður tekið tillit til þess að þetta fólk eigi fjölskyldu hér á landi.
Því spyr ég dómsmálaráðherra; Ef þú værir í stöðu hælisleitenda, myndir þú taka slíka meðferð í sátt? Ég ætla að gefa mér að þú myndir ekki sætta þig við slíka meðferð. Stundum er nefninlega gott að setja sig í spor þeirra sem um ræðir en hver sem gerir það sér að þessi lög eru grimm og óréttlát og ekki í samræmi við íslensk gildi.
Komum fram við fólk eins og fólk, ekki dýr eða númer á blaði. Stöndum með þeim sem minna mega sín og sýnum í verki að við hlúum að þeim sem sem óska þess að búa á Íslandi.
Höfundur er forseti Uppreisnar í Reykjavík