09 jún Fasisminn ríður í hlað
Forseti Bandaríkjanna lætur hermenn ryðja burt friðsömum mótmælendum til þess að hægt sé að taka mynd af honum með biblíu í hönd. Svipmyndin er svo heimskuleg að Hollywood léti sér ekki detta svona þvæla í hug.
Þegar Trump var kosinn óttuðust margir að hann gæti gert skelfilega hluti, en aðrir voru vissir um að Bandaríkin, brjóstvörn lýðræðisins, hefðu næga öryggisventla. Reynslan sýnir þvert á móti að Trump gengur sífellt lengra, hótar andstæðingum, rekur þá sem eiga að gæta þess að reglum sé fylgt og hefur þær að engu. Hann dregur Bandaríkin út úr alþjóðasamvinnu, reisir múra, berst markvisst gegn viðskiptum þjóða á milli og býr til ímyndaða óvini eins og djúpríkið.
Í leikritinu Brennuvargarnir eftir Max Frisch segir frá Biedermann, virðulegum borgara, sem leigir tveimur náungum herbergi í húsi sínu. Í borginni er íkveikjufaraldur og áhorfendur sjá fljótlega að leigjendurnir eru ekki allir þar sem þeir eru séðir. Biedermann trúir samt engu illu upp á þessa leiguliða, jafnvel þegar þeir segjast vera brennuvargar. Þó að bensínutunnurnar blasi við á loftinu réttir hann þeim eldspýtustokkinn. Í lokin er húsið í ljósum logum.
Dæmisagan er skýr. Ógnaröflin færa sig upp á skaftið meðan enginn sér við þeim. New York Times líkti nasistum Hitlers við skátaflokk árið 1928. Þá fengu þeir 2% atkvæða í kosningum. Fimm árum seinna varð Hitler kanslari eftir kosningasigur nasista. Hann herti hratt tökin og skapaði samfélag ótta og einangrunar. Í nóvember 1933 kusu 94% þjóðarinnar nasista. Margir kjósendur nýttu sér þau „þægindi“ að greiða atkvæði án þess að fara inn í kjörklefann. Sú saga komst á kreik að atkvæðaseðlarnir væru leynilega merktir og ráðamenn ýttu undir slíkar vangaveltur.
Alræðisstjórnir fortíðar áttu leynilegar skrár um alla. Koma þurfti fyrir hlerunarbúnaði og skrifa upp skýrslur með ærinni vinnu og fyrirhöfn. Núna göngum við sjálfviljug með búnað sem skráir allar hreyfingar okkar, veit hvað við lesum, hlustum eða horfum á og getur heyrt og tekið upp allt sem sagt er. Það sem meira er, ofurtölvur með gervigreind geta unnið úr upplýsingunum á augabragði. Svona búnað hefðu Stalín og Hitler þegið með þökkum. Þeir sem slökktu á símanum hefðu farið fyrst í fangabúðirnar.
Þýskaland var ekki vanþróað land óupplýsts fólks og illmenna upp úr 1930 fremur en Bandaríkin árið 2016. Heiðvirt fólk brást bara ekki við hættunni meðan það var hægt. Á Íslandi hæðist ákveðinn hópur manna að „góða fólkinu“, jafnvel menn sem áður nutu álits.
Þórarinn Eldjárn orti:
Veðrið er fínt, það er fallegt á Bakka
og fasisminn ríður í hlað.
Velgreiddur maður í vönduðum jakka,
í vasanum morgunblað.
Bakkabræður taka gestinum vel. Í lok kvæðisins vill hann gista. Hverju svörum við þá?
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. júní 2020