11 jún Aukin sálfræðiþjónusta fyrir ungmenni í höfn
Garðabær hefur gert samning við Mína líðan um sálfræðiþjónustu í gegnum fjarþjónustu fyrir ungmenni á grunnskólaaldri. Framsækin tillaga um þróunarverkefni sem ég lagði fram fyrir hönd Garðabæjarlistans og var samþykkt. En Garðabær er fyrsta sveitarfélagið sem gerir slíkan samning.
Einhverjar mikilvægustu bjargirnar gegn vanlíðan ungmenna eru forvörn, fræðsla og fyrsta hjálp. Við lifum á tímum þar sem tækninni fleygir fram. Fjarþjónusta er einn angi þeirrar nýsköpunar sem á sér stað í stafrænni þróun. En fjarþjónusta gerir okkur kleift að færa þjónustu eins og sálfræðiþjónustu nær einstaklingum, auðvelda aðgengi og fækka hindrunum. Við höfum því fengið svar við því hvernig við getum aðstoðað ungmenni með kvíða til að fá fyrstu hjálp með einföldum og aðgengilegum hætti.
Við gerum okkur öll grein fyrir því hversu mikilvægt það er að geta brugðist hratt og örugglega við þegar kemur að líðan barna og ungmenna. Ekki síst til þess að fyrirbyggja frekari vanlíðan sem auðveldlega getur undið upp á sig og kallar á frekari aðgerðir og meiri þjónustu þegar til lengri tíma er litið
Fjarþjónusta er snjöll leið og góð viðbót við þá stoðþjónustu sem boðið er upp á í dag. Það sem gerir hana eftirsóknarverða eru meðal annars þeir þættir sem hún hefur bein áhrif á, það er tímasparnaður, minni kostnaður og auðveldara aðgengi. Við eigum að nýta fjarþjónustu í forvarnaskyni í meiri mæli. Fyrir ungt fólk einfaldar slík leið svo margt. Að geta sótt faglega og örugga fræðslu í gegnum net án mikillar fyrirhafnar gæti verið frábær leið til þess að ná til ungmenna sem finna fyrir kvíðaeinkennum og/ eða þunglyndi. Námskeiðið má byggja þannig upp að notandi geti sótt sér fræðslu á hvaða tíma sem er þegar hverjum og einum hentar. Slík þjónusta tekur í burtu kerfisvilluna „bið eftir þjónustu“ sem flestir þekkja og getur reynst dýrkeypt.