20 okt Skuld Alþingis
Á síðustu vikum hefur farið fram lífleg og hressandi umræða um stjórnarskrána. Þökk sé þeim, sem vakið hafa athygli á leiðbeinandi þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, sem fram fór 2012.
Þátttaka var vissulega dræm. En engu síður samþykkti yfirgnæfandi meirihluti að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Í því orðalagi fólst að þjóðin var ekki beðin um að samþykkja eða synja ákveðnum texta. Engu að síður var niðurstaðan leiðbeinandi um vilja þjóðarinnar í ákveðnum dráttum. Og í spurningum um einstök efnisatriði var til að mynda yfirgnæfandi stuðningur við að gjaldtaka fyrir nýtingarrétt að sameiginlegum auðlindum skyldi byggjast á tímabundnum afnotum.
Í byrjun þessa kjörtímabils ákvað forsætisráðherra að áfangaskipta endurskoðun stjórnarskrárinnar eins og ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar lagði af stað með án árangurs. Þrátt fyrir þá reynslu ákvað Viðreisn að taka boði forsætisráðherra um samstarf á þessum grundvelli.
Ástæðan fyrir því var einföld. Við treystum Katrínu Jakobsdóttur til þess að virða þau sjónarmið, sem skýrt hafa komið fram hjá þjóðinni á undanförunum árum og láta ekki sérhagsmunagæslu ráða algjörlega för. Starfið fór vel af stað. Efnt var til umfangsmikillar rökræðukönnunar. Hún dró enn skýrar fram hver ætla mætti að væri vilji þjóðarinnar.
Vonbrigðin eru þau að í þeim tillögum, sem forsætisráðherra hefur lagt fram, er lítið tillit tekið til þeirra skýru leiðbeininga frá þjóðinni, sem lesa má úr þjóðaratkvæðinu og rökræðukönnuninni. Sérhagsmunagæsla Sjálfstæðisflokks og Framsóknar ræður öllu, sem máli skiptir.
Þannig á ekki að gera neina efnislega breytingu á ákvæðum um fjölþjóðasamvinnu Íslands. Auðlindaákvæðið er efnislega óbreytt frá gildandi fiskveiðistjórnarlögum. Gjaldtöku fyrir tímabundin afnot er hafnað. Ekki er heldur hlustað á háværa kröfu í rökræðukönnuninni um jöfnun atkvæðisréttar, sem einnig naut meirihlutafylgis í þjóðaratkvæðinu. Sumar tillögur forsætisráðherra um veigaminni atriði eru til bóta. En endurskoðunin hlýtur að snúast um kjarna málsins.
Ég er sammála Katrínu Jakobsdóttur þegar hún segir að Alþingi skuldi þjóðinni löngu tímabærar breytingar á stjórnarskrá. En hún er verkstjóri þingmeirihlutans. Það er á hennar ábyrgð að leggja fram tillögur í samræmi en ekki ósamræmi við traustar vísbendingar um meirihlutavilja þjóðarinnar.
Skuld Alþingis við þjóðina er að taka tillit til þeirra.