21 okt Viðreisn og stjórnarskráin
Umræðurnar um stjórnarskrármálið snúast bæði um form og efni. Vissulega skiptir aðferðafræðin máli. En sjálf hef ég alltaf litið svo á að mikilvægast væri að ná efnislegum árangri í samræmi við kröfur nýrra tíma. Við getum síðan haft skiptar skoðanir á aðferðarfræðinni en að mínu mati er skynsamt að stjórnarskrá sé einföld og skýr og eyði frekar réttaróvissu en auki.Í málefnasamþykktum Viðreisnar segir um þetta: „Ná þarf samkomulagi um skýrt tímasett ferli varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þar verði tekið mið af tillögum stjórnlagaráðs og annarri vinnu að breytingum á síðari stigum.“
Endurbætur eða nýbygging?
Stundum finnst mér að líkja megi viðfangsefninu við gamalt timburhús, sem þarfnast gagngerðra endurbóta, en það er fjarri því að vera ónýtt. Heildarendurbætur eru því betri en nýbygging. Og sum herbergi eru verr farin en önnur og því ráð að skella sér í að laga þau fyrst. En það þarf hvorki að rífa húsið né byggja nýtt. Húsið er gott á sínum grunni en þarfnast vissulega aðhlynningar. Með öðrum orðum þá erum við hlynnt því að uppfæra stjórnarskrána á grunni þeirrar sem fyrir er en hvorki kollvarpa þessum grundvallarlögum okkar né ríghalda í kyrrstöðuna.
Í þessu ljósi gátum við í þingflokki Viðreisnar mjög vel fallist á þá tillögu Katrínar Jakobsdóttur í upphafi kjörtímabils að skipta heildarendurskoðun stjórnarskrá á tvö kjörtímabil.Við lögðum ekki síður mikið traust á það loforð, sem reyndar var líka skrifað inn í stjórnarsáttmálann, að þjóðin fengi aðkomu að verkinu. Að áfram yrði reynt að draga fram þjóðarviljann í tengslum við tiltekin atriði. Það var einlæg von okkar að það væri ekki bara upp á punt.
Samstaða um nokkra efnisflokka
Um suma þá efnisflokka, sem verið hafa til umfjöllunar í þessum fyrri áfanga, virðist vera ágæt samstaða.Þar má nefna ákvæði um náttúruvernd og íslenska tungu. Viðamestur er þó kaflinn um forseta og framkvæmdavald. Þó að enn megi finna álitamál um orðalag tel ég að við í Viðreisn getum stutt þessar tillögur.Ástæða er til að nefna að í breytingatillögum um forseta og framkvæmdavald er í ýmsum atriðum tekið tillit til viðhorfa, sem fram komu í rökræðukönnuninni, en það er almenningssamráð sem efnt var til árið 2019 vegna þessarar endurskoðunarvinnu á stjórnarskrá. Þar er því fyrirheitið um aðkomu þjóðarinnar ekki bara orðin tóm.
Tvö mikilvægustu málin í uppnámi
Vandinn sem uppi er snýr aftur á móti að tveimur mikilvægustu efnisflokkunum í þessum áfanga verksins. Annars vegar er það auðlindaákvæðið og hins vegar ákvæði um fjölþjóðasamvinnu.Á þessum tveimur sviðum hafnar ríkisstjórnin að taka nokkurt tillit til þess sem hún sjálf í stjórnarsáttmálanum kallar aðkomu þjóðarinnar. Á þjóðarvilja er ekki snert. Þessir áfangar eru því í uppnámi af þeim sökum.Bæði þessi mál eru ákall nýrra tíma.
Ríkir almannahagsmunir
Hugmyndin að stjórnarskrárákvæði um þjóðareign auðlinda með gjaldtöku fyrir nýtingarrétt í tiltekinn tíma kom fyrst fram í áliti auðlindanefndar árið 2000. Sú nefnd var skipuð fulltrúum þvert á flokka og með helstu hagsmunaaðilum, en Jóhannes Nordal var formaður nefndarinnar. Þetta prinsipp um tímabindingu nýtingar á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar endurspeglast svo í tillögum stjórnlagaráðs, sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar vildu leggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá.Þegar unnið var að endurskoðun á gjaldtöku fyrir aflahlutdeild á minni vakt í sjávarútvegsráðuneytinu árið 2017 voru allir flokkar fylgjandi tímabundnum heimildum nema Sjálfstæðisflokkurinn. Trúi ég því ekki að óreyndu að bæði Framsókn og Vinstri græn ætli að hlaupa frá þessari afstöðu sinni í stað þess að vera í forystu þeirra flokka sem vilja tryggja löngu tímabæra tímabindingu í stjórnarskrá.Ég lít á skýra kröfu um tímabindingu afnotaréttar á auðlindum sem varðstöðu um almannahagsmuni. Hún er mikilvægari nú en áður því stjórnarflokkarnir hafa tvívegis á þessu kjörtímabili fellt tillögur okkar á þingi um að setja þessa grundvallarhugmynd inn í almenn lög.
Lýðræðisprinsipp á 21.öld
Eins er með ákvæðin um fjölþjóðasamvinnu og alþjóðasamstarf.Það er eins og að synda gegn þyngsta straumi lýðræðishugmynda 21. aldar að hafna því að sett verði ákvæði í stjórnarskrá sem fái þjóðinni sjálfri úrslitavald um það hvort fallist verður á fjölþjóðasamvinnu, sem kallar á frekara valdframsal. Hér þarf réttur þjóðar að vera skýr til að ráða stöðu Íslands í alþjóðasamfélagi.Þótt hvert það skref sem við höfum tekið í alþjóðastarfi, eins og aðild að NATÓ, EFTA og EES samningnum, hafi styrkt fullveldi landsins hafa verið um það skiptar skoðanir. Það er ekki óeðlilegt. Það gildir um aðild að ESB líka. Það er hins vegar bæði óskiljanlegt og ólíðandi að þjóðin hafi ekki heimildir í stjórnarskrá til að taka þau skref sem hún sjálf metur farsæl fyrir framtíð landsins. Það er eðlilegt að við Íslendingar, líkt og vinir okkar á Norðurlöndum, höfum slíka heimild í stjórnarskrá. Við það á enginn að vera hræddur.Þetta er því ekki deila um það hvort stíga eigi slíkt skref í fjölþjóðasamvinnu heldur hvort þjóðin sjálf eigi að hafa þetta val og þetta vald samkvæmt stjórnarskrá. Nú vilja menn girða fyrir það um fyrirsjáanlega framtíð. Við það getur Viðreisn ekki unað.