24 okt Til hvers er sparað?
Lífeyrissparnaður landsmanna er í aðalatriðum með tvennu móti og ákveðinn með lögum. Annars vegar eru greidd iðgjöld í sameignarsjóði sem standa undir lífeyri af ýmsu tagi en eru ekki eiginleg eign þess sem greiðir iðgjöld til sjóðsins heldur skapa tiltekin réttindi. Hins vegar er það séreignarlífeyrissparnaður sem gerður er sérstakur samningur um og er séreign þess sem greiðir iðgjöld. Hafi séreign ekki verið tekin út að hluta eða öllu fellur hún til erfingja.
Hugsunin að baki séreignarlífeyrissparnaði, eins og nafnið bendir til, er sú að gefa fólki kost á viðbótarlífeyrissparnaði til efri ára. Gera þannig eldri borgara framtíðarinnar betur í stakk búna og létta eftir atvikum álag hins opinbera af lífeyrisgreiðslum. Skattgreiðslur af þessum séreignarlífeyri, ásamt vöxtum, falla ekki til fyrr en við úttekt, sem getur fyrst orðið við 60 ára aldur. Frá þessari reglu hafa hins vegar verið gerðar veigamiklar undantekningar sem vert er að gefa gaum og velta fyrir sér hvort séu í samræmi við þær forsendur sem voru lagðar til grundvallar í upphafi. Hvort þær séu skynsamlegar þegar heildarmyndin er skoðuð.
Frá 1. júlí 2014 hefur verið heimilt að ráðstafa iðgjaldi séreignarsparnaðar til greiðslu á höfuðstól lána vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Þá hefur frá sama tíma verið heimilt að taka út viðbótariðgjald sem greitt hefur verið til kaupa á fyrstu íbúð. Þessar úttektir eru skattfrjálsar. Loks var gert heimilt að sækja um, á tímabilinu 1. apríl á þessu ári til 31. janúar, að taka út allt að 12 milljónir af séreignarlífeyrissparnaði. Útborgun getur dreifst á allt að 15 mánuði eftir fjárhæðum. Þessi ráðstöfun er ein af aðgerðum ríkisstjórnarinnar í tilefni kórónuveirufaraldursins. Samkvæmt samantekt Skattsins hefur þegar verið sótt um úttektir sem nema um 23,5 milljörðum króna, en enn eru rúmir tveir mánuðir eftir af gefnum umsóknarfresti. Gera má ráð fyrir að þessi upphæð eigi eftir að hækka nokkuð. Útgreiðslur eru þegar orðnar langt umfram það sem reiknað var með. Þessar greiðslur eru ekki skattfrjálsar og er skattur greiddur við úttekt. Ljóst er að a.m.k. fjórðungur rennur beint í ríkissjóð í formi skatta.
Þetta eru verulegar fjárhæðir hvernig sem á það er horft. Óvíst er hver langtímaáhrif af þessum breytingum verða. Það er orðið meira en tímabært að taka til skoðunar hvaða áhrif þessi þróun hefur á stöðu fólks þegar kemur að starfslokum, sérstaklega þegar undantekningarnar eru metnar heildstætt. Hvaða áhrif þróunin hafur á skatttekjur ríkissjóðs í nútíð og framtíð, og ekki síst hver áhrif hennar eru og verða innan bótakerfa hins opinbera.
Viðreisn mun beita sér fyrir því á vettvangi Alþingis að þessi þróun verði metin heildstætt og hvernig hún samræmist upphaflegum markmiðum séreignarlífeyrissparnaðar. Ekki má vanmeta hversu stórt hagsmunamál ráðstöfunartekjur og lífsskilyrði fólks á eftirlaunum er hjá þjóð sem stöðugt eldist.
Samhliða á að skoða með hvaða hætti er hægt að búa þannig um hnúta að fólk geti nýtt sparnað til þess að fjárfesta í atvinnurekstri, beint eða óbeint, og hvaða hvatar, skattalegir eða aðrir koma til álita. Þar á einnig líta til þess hvort breytingar á reglum á séreignarlífeyri, ráðstöfun og skattalega meðferð hans komi inn í þá mynd.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2020