02 des Börn fyrir borð
Við erum að týna börnum og unglingum í kórónuveirufaraldrinum. Öðruvísi er ekki hægt að skilja viðvörunarraddir sem heyrast víða innan úr kerfinu. Alvarlegast er ástandið á Suðurnesjum. Þar hefur enda höggið vegna atvinnumissis verið þyngst, einfaldlega vegna þess hve mikið vægi ferðaþjónustan hefur í atvinnu svæðisins. Á stjórnvöldum hvílir sú ábyrgð að koma til móts við íbúa Suðurnesja eins og hægt er á þessum gríðarlega erfiðu tímum. Áherslan hefur verið á mótvægisaðgerðir vegna atvinnumissis. En það brenna eldar víðar. Börn og unglingar hafa eins og aðrir upplifað það hvaða áhrif sóttvarnaraðgerðir geta haft á líðan og tengsl. Þá hefur verið ljóst frá upphafi að kórónuveirufaraldurinn hefur ýmis neikvæð áhrif á velferð barna og unglinga, en það er ekki hægt að lýsa þeim upplýsingum sem koma fram í samtölum við Velferðarvakt stjórnvalda og félagsmálayfirvöld og lögreglu á Suðurnesjum öðruvísi en sem reiðarslagi.
Í lok október voru tilkynningar til Barnaverndar orðnar jafnmargar og allt árið 2019. Nýjum barnaverndarmálum hefur fjölgað töluvert og fleiri börn vistuð utan heimila. Ofbeldi inni á heimilum hefur aukist, ekki síst gagnvart börnum. Fleiri börn og unglingar sýna merki um vanrækslu og vanlíðan. Þá hefur fjölgað beiðnum foreldra eftir stuðningi við skólamáltíðir og frístundaúrræði. Það segir okkur sorglega sögu af þungbærum aðstæðum fjölskyldna, þegar óvissa er um næstu máltíð barnanna. Dæmin eru fleiri. Því miður.
Álagið á starfsfólk félagsþjónustunnar á Suðurnesjum er gríðarlegt og ekki hjálpar til að innviðir á svæðinu hafa ekki vaxið nægilega hratt til að halda í við íbúafjölgun. Þar líkt og annars staðar eru gráu svæðin einfaldlega of mörg, svæðin þar sem börnin eiga á hættu að detta niður á milli kerfa. Það er því mjög jákvætt að félags- og barnamálaráðherra kynnti í vikunni svokallað farsældarfrumvarp sem unnið hefur verið að síðustu ár í samvinnu fjölmargra aðila. Með því er ætlunin að samþætta öll kerfi sem styðja við börn og fjölskyldur barna sem verða fyrir áföllum og reyna þannig að tryggja að börnin falli ekki á milli kerfa. Það er óskandi að stjórnvöld tryggi að verkefnið fái nauðsynlega fjármuni til skemmri tíma og lengri.
Núna þurfum við hins vegar að beina stuðningi þangað sem þörfin er mest. Það er á ábyrgð okkar allra.
Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar